23.11.1950
Neðri deild: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

18. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Út af fsp. hv. 3. landsk. þm. skal ég upplýsa það, að allshn. hefur ekki enn þá tekið til meðferðar þetta umrædda frv., um saksóknara ríkisins og rannsóknarstjóra, og stafar það af því, að nærri allur tími n. hefur farið í að fara í gegnum frv. um meðferð opinberra mála, sem er mikill lagabálkur. Og þó að allshn. hafi áður farið í gegnum frv., þegar það var lagt fyrir upphaflega 1948, hafa síðan orðið mannaskipti í n., og einnig við hinir, sem þá fórum yfir það, töldum ástæðu til að fara ýtarlega gegnum það að nýju, og þó að það hafi ekki leitt af sér sérstakar brtt., þá hefur það hins vegar kostað mikinn tíma að fara í gegnum málið, þannig að þessi tími hefur nú verið látinn fara í það að endurskoða það að nýju. En ég vil segja það sem mína skoðun, og mun standa á því innan n., að þetta umrædda frv. skal verða tekið nú án tafar til meðferðar og afgreiðslu í n. Hins vegar blandast inn í afgreiðslu málsins, þegar þar að kemur, um fjárhagshliðina, sem að sjálfsögðu þarf að koma til athugunar og ræða þarf um við fjvn. í sambandi við afgreiðslu fjárl., vegna þess hvernig efni þessa máls er.