01.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leiðrétta þann misskilning hæstv. forseta, að ég hafi ekki átt eftir nema aths. í þessu máli, því síðast þegar málið var til umræðu hér í hv. deild, var umræðu frestað vegna fjarveru hæstv. ráðh., og þá var ég einmitt rétt byrjaður á minni ræðu. — Hæstv. ráðh. sagði hér við umr. um daginn í sambandi við aths. mína um kaupin á Skálholti, að hún væri byggð á misskilningi, þar sem ég hefði sagt, að óleyfilegt hefði verið að kaupa eignirnar af ábúanda. Ég fór ekki út í það atriði, svo að misskilningurinn er hæstv. ráðh. megin, en ég hélt því fram, að engin heimild hafi verið fyrir að kaupa eignirnar af ábúanda fyrir 173 þús. kr. eða á rúmlega 6-földu fasteignamatsverði. Hins vegar hef ég aldrei talið það neina goðgá, að ríkið keypti jarðir. Ég skal ekki fara lengra út í þá sálma, en í þessu sambandi má minna á það, að flokksblað hæstv. ráðh. hefur, vafalaust með hans vitund og jafnvel undirróðri, haldið uppi árásum á mig fyrir að hafa selt ríkinu jörð á 6-földu fasteignamatsverði, svo í því sambandi væri hægt að segja: „Maður, líttu þér nær.“ Ég held því fram, að hér hafi farið fram greiðslur í heimildarleysi, og skal nú sýna fram á það með því að rekja sögu málsins.

Upphaflega er veitt heimild til þess að kaupa Skálholt til almenningsnota fyrir tilstilli Jörundar Brynjólfssonar, og það gert. Síðan er það gert í algeru heimildarleysi af núv. hæstv. landbrh.,

Hermanni Jónassyni, að byggja þessum sama manni jörðina ævilangt. Það var búið að kaupa jörðina til almenningsnota og mátti því ekki leigja hana ævilangt. Það næsta í málinu er svo, að sett eru lög um búnaðarskóla Suðurlands og ákveðið, að hann skuli reistur í Skálholti. Þá er þessi hv. sami þm. keyptur af jörðinni á 6-földu verði fasteignamats jarðarinnar. Það mál er allt ólöglegt, og var farið þar allt aðrar leiðir en lög segja fyrir um. Það voru m.a.s. valdir sérstakir matsmenn, en ekki samkv. lögum, til þess að fá þetta mat nógu hátt, en ég er ekki að finna að því, það er aukaatriði, hitt er aðalatriðið, að eignirnar eru keyptar á sexföldu fasteignamati, eða 173 þús. kr. Í þessu sambandi væri fróðlegt fyrir hæstv. ráðh. að kynna sér skýrslu um ástand eignanna, sem þessir 3 matsmenn hafa gert og er undirrituð af þáv. búnaðarmálastjóra, núv. hæstv. forsætisráðh., og hinum 2 matsmönnunum. Það hefði þótt nokkuð mikið sagt, ef ég hefði sagt, að ekki væri hægt að ríða heim traðirnar fyrir drullu nema í hörkufrosti, og það hafi orðið að reka kýrnar fleiri kílómetra veg upp í fjöll, til þess að komast í vatnsból, en þetta eru ekki mín orð, heldur stendur þetta í skýrslunni, sem ég gat um áðan. (Fjmrh.: Er það nú víst?) Ef hæstv. ráðh. vill væna mig um, að ég fari rangt með, þá skal ég leggja þessi skjöl á borðið. Það væri sannarlega fróðlegt fyrir hæstv. ráðh. að kynna sér þessa skýrslu, en þessi skýrsla var send hv. fjvn. — Ég held nú áfram. Hér í reikningnum eru 2 upphæðir, sem engin heimild er fyrir. Önnur er 20 þús., sem er greiðsla til Jörundar Brynjólfssonar fyrir að standa upp af jörðinni, og er engin heimild Alþingis til fyrir þessari greiðslu. Hin er 225 þús. kr., líka til Jörundar Brynjólfssonar fyrir að hreinsa Kaldaðarnes. Ekki er heldur til nein heimild fyrir þessari greiðslu, og aldrei hefur verið litið eftir því, hvort þetta fé hafi verið notað til þess að hreinsa landið. Ég þykist ekki hafa ofmælt, er ég sagði, að þetta væri allt gert í heimildarleysi. Ofan á þetta allt saman bætist svo það hneyksli, er hæstv. ráðh. átti mesta sök á, að með Kaldaðarnesi fór hæli, sem kostaði ríkissjóð um 1 millj. kr. Hæstv. ráðh. veit, að hann átti sök á þessu, og allt er þetta gert til þess eins að hækka þingfararkaup eins framsóknarþingmanns. Í veðri er látið vaka, að þessar breytingar hafi verið nauðsynlegar vegna skólabúsins í Skálholti, en það er sjáanlegt, að þetta er ekki gert í neinum öðrum tilgangi en að fá tækifæri til þess að greiða þúsundir króna úr ríkissjóði til ákveðins flokksmanns.

Nú vil ég gjarnan athuga enn fremur, hvað þessi skóli hefur kostað ríkissjóð. Til skólastofnunarinnar eru greiddar á árunum 1945–1948 kr. 104.502,25, og þetta er greitt til skóla, sem ekki er farið að byggja, því ekki er farið að gera annað en leggja veg, og það er greitt af öðru fé, og búið er að moka með jarðýtu nokkrum hlössum, en það kostar á 2. hundrað þús. krónur. Kostnaðurinn við Skálholtsbúið er 225.177,29 kr., auk þeirra ca. 135 þús. króna, sem áður eru taldar. Þetta er kostnaðurinn við tilraunabúið í Skálholti, og allt er þetta gert til þess eins að hækka þingfararkaup Jörundar Brynjólfssonar. Þar að auki kemur kaup framkvæmdastjóra, 99.200 kr., svo að búið í Skálholti hefur kostað í allt 340–350 þús. úr ríkissjóði. Svo ætlar hæstv. ráðh. að telja Alþingi trú um, að fyrir þessu hafi verið heimildir.

Skálholtsnefnd hefur fengið greitt úr ríkissjóði 76.719,11 kr., auk 10.719,50 kr., eða í allt rúml. 87 þús. krónur. Ja, dýr verður skólinn allur, ef það kostar um 80 þús. kr. að moka nokkrum hlössum ofan af klöppunum, þar sem skólinn á að standa. Þetta eru ráðstafanir Framsfl. á kostnað ríkisins, — hver króna í heimildarleysi. Þetta hefur kostað ríkissjóð á 2. millj. kr., og hæstv. fjmrh. blygðast sín ekki fyrir það og heldur því fram, að fyrir þessu hafi verið heimildir. Ég segi bara, að ef Sjálfstfl. stæði ekki betur að greiðslum úr ríkissjóði en þetta, þá yrði útkoman ekki skemmtileg, en hans ábyrgðartilfinning er, sem betur fer, meiri en Framsfl., en þetta sýnir, hversu skefjalaust þeir fóru niður í ríkiskassann, meðan þeir fóru með völd. Í þessu sambandi er gaman að spyrja: Hvað hefur veríð gert fyrir Skálholtsskóla? Hæstv. núv. forsrh. lýsti því í umr. fyrir 2 árum, að þessi skólastofnun væri hinn stóri draumur bændanna á Suðurlandi, hugsjón, sem aldrei væri of mikið á sig lagt til að uppfylla. En hvað hefur þetta verið? Ekkert annað en kjötbein fyrir Framsfl. til að naga, og þetta kjötbein hefur kostað ríkissjóð á 2. millj. kr. Þetta er baráttan fyrir hugsjón bændanna á Suðurlandsundirlendinu. Ég vildi nú gjarnan mega vænta þess, að eins og hæstv. ráðh. kom því til leiðar, að ég ekki snuðaði ríkissjóð, og réttilega féllst á mína till., að ég tæki eignirnar til baka, svo ríkissjóður skaðaðist ekki um eina krónu á þeim kaupum, það veit hæstv. ráðh., þá vildi ég nú vænta þess, að hann beitti sér fyrir því á sama hátt í þessu máli og þessi kaup væru öll látin ganga til baka, fé greitt aftur ríkissjóði, þannig að ríkið tapaði ekki á þessu máli. Það væri mest sæmd fyrir hann og hans flokk og Jörund Brynjólfsson, en þessi endalok á málinu eru ekki neinum til sóma og ekki æskilegt, að mál þróist svo eins og ýmis mál, sem sá flokkur stendur að.

Hæstv. fjmrh. sagði einnig, að aths. mínar í sambandi við rekstur skipaútgerðarinnar væru byggðar á andúð í garð skipaútgerðarinnar, og að ég væri sífellt með aths. um þann rekstur, sem væri svo góður, eftir því sem mér skildist á hæstv. ráðh., að ekki væri á betra kosið, og væri alltaf að batna. Í þessu sambandi vil ég í fyrsta lagi benda á það, að ég hef aldrei gert tilraun til að vinna gegn skipaútgerðinni, en ég benti á það, hvort hæstv. ráðh. gæti ekki látið rannsaka, hvort ekki væri hægt að reka útgerðina á hagkvæmari hátt, en hæstv. ráðh. sagði þá, að reksturinn hefði batnað og væri nú góður, en slíkt vekur tortryggni um, að hér sé verið að leyna einhverju, sem ekki á að leyna. En ósk mín byggist á því, að árlega er stórhalli á út- og uppskipun hjá skipaútgerðinni hér í Reykjavík, og það, að fram kemur minna rekstrartap á reikningum, er hrein blekking, þar sem teknar eru rúmar 900 þús. kr. frá olíuflutningaskipinu Þyrli til að bæta upp þennan halla. En það er engin ástæða til og á ekki að líðast að taka nær 1 millj. kr. frá þessu skipi útgerðarmanna úti á landi til að bæta halla, sem verður á strandferðunum. Þessir menn eiga nú sannarlega við svo mikla erfiðleika að stríða, að ekki er fært að bæta ofan á það, en ég tel fulla þörf að athuga rekstur skipaútgerðarinnar, og stafar sú ósk mín ekki af óvild til skipaútgerðarinnar eða forstjóra hennar, heldur af hinu, að ég tel nauðsyn að athuga, hvort ekki sé hægt að koma þeim rekstri í betra horf en nú er, eins og t.d. með Hafnarfjarðarleiðina, sem ríkið lagði niður rekstur á, þó að ég sé ekki með þessu að gefa í skyn, að leggja beri strandferðirnar niður.

Í 18. lið aths. við ríkisreikninginn er sagt, að 6. nóv. hafi verið lokið umboðslegri endurskoðun hjá 79 stofnunum og starfsgreinum, hjá 8 stofnunum var endurskoðuninni að mestu lokið, en í 67 stofnunum og starfsgreinum var endurskoðuninni ekki lokið, og mér hefur skilizt á endurskoðendunum, að endurskoðun hafi ekki farið fram í mörg ár hjá þessum 67 stofnunum. Það er sagt, að hjá skipaútgerðinni sé einn maður, sem annist endurskoðun og það í hjáverkum, og nú er þessi maður orðinn gamalmenni. Það á því ekki að neita að láta athuga slíkt. Ég vildi því gjarnan heyra hjá hæstv. ráðh., hvaða 67 stofnanir þetta eru, sem eftir er að endurskoða hjá, og hvers vegna það er ekki gert. (Fjmrh.: Hvernig á ég að geta það? Ég hef ekki verið í þessu starfi á undanförnum árum.) Svör hæstv. ráðh. við 18. aths. eru svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er réttilega tekið fram í aths., að umboðslega endurskoðunin hefur undanfarið gengið miklu hægar en æskilegt hefur verið. Á þessu ári hefur þó unnizt töluvert á, og það er stefnt að því, að endurskoðun reikninga ríkisstofnana geti framvegis farið svo fljótt fram, að enginn bagi verði að drættinum.“

Þetta er hin umboðslega endurskoðun, en það vantar hina reikningslegu endurskoðun. Hvaða ástæða er til þess, að hún hefur dregizt í mörg ár? Og ég vona, að það verði sem fyrst bætt úr því, og ég er hræddur um, að hæstv. fjmrh. hefði fundizt það einkennilegt, ef einkafyrirtæki hefðu ekki sent endurskoðaða reikninga sína til skattstofunnar, þegar hann var skattstjóri. — Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en hæstv. ráðh. viðurkenndi hér í fyrri umr. um málið, að koma þyrfti betra skipulagi á þessi mál, og vona ég, að hann láti bæta úr þeim ágöllum, sem nú eru á þessum málum.