01.03.1951
Neðri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

79. mál, ríkisborgararéttur

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Í tilefni af því, að ég hef flutt brtt. á þskj. 725, vildi ég leyfa mér að gera aths. í örfáum orðum við þetta frv. Ég er sammála hv. frsm. allshn. um það, að eins og þetta frv. kemur frá hv. Ed., virðist sá rammi, sem d. hefur sett, vera mikils til of þröngur, svo að alveg er óeðlilegt. Það er byggt á þeirri meginreglu, að aðeins umsækjendum af íslenzku foreldri komnum eða ætluðum frá Norðurlöndum sé veittur ríkisborgararéttur. Nú er það vitað og á það bent af frsm. í þessari hv. d., að margt annað fólk fullnægir að sjálfsögðu þeim skilyrðum, sem l. um ríkisborgararétt setja. Þetta fólk hefur dvalið hér langan tíma og er orðið hér rótfast, stundar hér atvinnu sína, hefur tengzt íslenzku fólki, á hér börn og heimili. Ég er þess vegna alveg sammála hv. frsm. um það, að sá stakkur, sem Ed. hefur sniðið þessu frv., sé allt of þröngur, þannig að lítt sé unandi við það fyrir þessa hv. d. Ég er hins vegar ekki alveg sammála hv. frsm. um það, að hættulegt sé að breyta þessu frv. nú og að það sé full ástæða til að ætla, að það muni daga uppi, ef nokkur breyt. verði á því gerð hér. Ég skal játa, að einhver hætta kann að vera á þessu. En þó vitum við, að þingið á eftir að standa í nokkra daga, ef ekki viku enn þá, og á þeim tíma virðist fyllilega tími til að ljúka einni umr. í þessari d. og annarri í Ed., því að sjálfsögðu getur hv. Ed. ekki sett þessari d. algerlega stólinn fyrir dyrnar um það að hreyfa við máli og taka sína sjálfstæðu afstöðu til þess.

Brtt. sú, sem ég flyt á þskj. 725, er við 1. gr. frv., að í fyrsta lagi verði bætt nýjum lið inn í frv. varðandi Edvard C. W. Knauf, blikksmið á Ísafirði, sem fæddur er í Þýzkalandi 28. marz 1910. Þessi maður flytur hingað til Íslands árið 1934 og hefur dvalíð hér síðan, þegar frá er skilinn sá tími, sem hann var nokkurs konar stríðsfangi, þó fyrir engar aðrar sakir en þjóðerni sitt, á árum síðustu heimsstyrjaldar. Þessi maður hefur verið búsettur þrjú ár á Djúpuvík á Ströndum, en hinn hluta dvalartíma síns á Ísafirði. Hann er mjög gegn og góður maður, hefur komið sér vel og er nýtur og dugandi iðnaðarmaður er kvæntur íslenzkri konu, og eiga þau börn, talar nokkurn veginn íslenzka tungu og hyggst að dvelja hér framvegis, stundar atvinnu á Ísafirði og er þar rótfastur. Ég tel mjög eðlilegt, að þessi maður fái íslenzkan ríkisborgararétt, og tel ekki ástæðu til að fjölyrða nánar um rök þess.

Síðari liður brtt. minnar fjallar um, að Pieter M. H. Vroomen, presti í Reykjavík, fæddum 13. ágúst 1906 í Hollandi, verði veittur ríkisborgararéttur. Hann hefur dvalið hér í 15 ár óslitið, talar íslenzku eins og innfæddur og er hér sem sagt gersamlega rótfastur orðinn og hyggst að dvelja hér framvegis. Það gildir svipað um þessa umsókn og hina fyrri, að maður þessi hefur getið sér hið bezta orð, er vammlaus og ágætur og mjög orðinn tengdur þessari þjóð og þessu landi, þekkir hér fjölda manns og er í miklum metum meðal þess fólks, sem honum kynnist.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þessar brtt. Ég vænti þess, að þessi hv. d. neyti sins réttar til að hafa áhrif á afgreiðslu þessa máls eins og annarra mála. Það er ekki viðurkennt hér eða tíðkað, að önnur hvor d. hafi skilyrðislausan rétt til að ráða afgreiðslu mála. Vænti ég þess, að hv. þdm. geti stutt að samþykkt þessarar till.