23.11.1950
Efri deild: 24. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

95. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er atriði í þessu frv., sem ég vildi gjarnan fá skýringu á hjá hæstv. kirkjumrh. Hann sagði, að það væri hér lagt fram í því formi, sem það kom í frá prestakallanefnd. En það er undarlegt, að hér er lagt til, að lögð verði niður prestaköll, sem hafa undanfarið haft presta, en aftur á móti er ekki gert ráð fyrir, að lögð verði niður prestaköll, sem prestar hafa ekki fengizt í svo árum skiptir og búin eru að vera í eyði af þeim sökum. Það munu nú vera 22 ár síðan þjónandi prestur var í Hofteigsprestakalli, síðan hefur það oftsinnis verið auglýst og enginn sótt um það, og menn eru fyrir löngu hættir að gera sér vonir um, að nokkur sæki um það. Og eins og hv. 2. þm. S-M. ætti að vera kunnugt, er sömuleiðis mjög langt síðan Mjóafjarðarprestakall fór í eyði, og hafa þeir haft prestsþjónustu frá Norðfirði og ekkert þótt að því fyrirkomulagi. Um þetta eru mörg dæmi, en á þetta er ekkert minnzt, en aftur á móti talað um að leggja niður þau prestaköll, sem prest hafa og sótzt er eftir. Ef hugsað er að fara þessa leið framvegis sem sparnaðarráðstöfun og þannig, að sem flestir verði ekki óánægðir þá er enginn vafi á, að heppilegra er að grípa til þeirra prestakalla, sem búin eru að vera mörg ár í eyði, en byrja ekki á öðrum, sem prest hafa. Ég hefði því viljað skjóta því til hv. nefndar að athuga þetta. Sjálfur tel ég persónulega enga þörf að hafa fleiri presta en lækna. Þó að e.t.v. sé mikið um sálsýki, sem prestar geta unnið bug á, þá tel ég, að ekki ættu að vera meiri vandræði að ná í prest til þess að lækna þann sjúkleika en að ná í lækna til að lækna líkamlega vanheilsu. Ég get því fyrir mitt leyti verið fylgjandi miklu meiri fækkun en hér er gert ráð fyrir, en mér þykir vanta þá staði, sem til greina gæti komið að leggja niður á undan þeim stöðum, sem hér er um að ræða. Það hefur nú í nokkur ár, víst ein 10, verið aðeins einn prestur í allri Austur-Skaftafellssýslu, og enginn fengizt til að sækja um þau tvö prestaköll, sem þar eru laus að auki, en nú sé ég ekki betur á þessu frv. en aðeins eigi að leggja annað þessara prestakalla niður, en hitt eigi að standa. En til hvers að vera að því, þegar fólkið sættir sig vel við að hafa bara einn prest í sýslunni?

Það, að fólkið sækist eftir prestum inn í sveitirnar, er af allt öðrum ástæðum en hv. þm. Barð. hélt fram. Það er svo, að prestssetrin eru venjulega góðar jarðir, og það er af fjárhagslegum ástæðum, til að geta lagt útsvör á laun þeirra, sem sótzt er eftir prestunum inn í sveitirnar. Sem dæmi um þetta get ég nefnt það, að oft hefur risið upp krafa um að skipta milli hreppa útsvari prests, sem þjónaði í fleiri hreppum, en átti búsetu í öðrum, á milli hreppanna. Sama hefur gerzt með lækna. Auðvitað hefur aldrei orðið af slíkri skiptingu útsvara. Hún hefur strandað á ríkisskattanefnd. En af þessu geta menn séð, að það eru ekki prestarnir, sem sótzt er eftir, heldur laun þeirra, þeir hafa há laun, og það er sótzt eftir því að geta lagt útsvör á þau. — Ég vil svo endurtaka það, að nefndin taki það til athugunar að bæta inn öllum þeim prestaköllum, sem eru prestslaus, og í öðru lagi að orða alla 1. gr. l. frá 1907 upp, en koma ekki með breytingar, sem hafa í för með sér breytingar á 4. og 5. gr. laganna, og er það miklu réttara að koma því þannig fyrir, að þessi ákvæði séu öll á einum stað, heldur en að þurfa að hafa öll þau ákvæði, sem gildandi eru um þessi efni, til þess að vita, hvað rétt er og rangt. Ég vil svo mjög styðja að því, að n. athugi gaumgæfilega, hvort ekki er hægt að leggja niður öll þau prestaköll, sem nú hafa verið prestslaus til fleiri ára.