23.11.1950
Efri deild: 24. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

95. mál, skipun prestakalla

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð út af ræðu síðasta ræðumanns. Það má segja, að þó að þetta sé stjórnarfrv., þá er það samið af nefnd þriggja manna, skrifstofustjóra kirkjumálaráðuneytisins, ritara biskups og landnámsstjóra. Hins vegar áleit ríkisstjórnin eðlilegt að fækka prestssetrum nokkuð, og þá eðlilegt að leggja niður þau prestssetur, sem staðið hafa laus um langan tíma en láta þau standa, sem nokkur von er, að sótt verði um, en það merkir raunverulega ekkert annað en launauppbót fyrir nágrannaprestinn.

En frv. miðast ekki aðeins við þessa hugsun. Í mörgum þeirra prestakalla, sem ekkí á að leggja niður, eru þjónandi ungir menn, sem eiga eftir langan starfstíma, svo að ekki eru horfur á, að um beinan sparnað verði að ræða í náinni framtíð. Hv. þm. er samþykkur þeirri hugmynd frv. að fækka prestum úti um land, en þá vaknar sú spurning, hvort ekki sé rétt að fjölga prestum á þeim stöðum, þar sem fólkið er fleira, t.d. í Reykjavík. Þar munu nú vera 6 fastir prestar og auk þess 2, sem starfa við fríkirkjusöfnuði, og við sjáum, að það koma 6–7 þús. manns á prest, og að áliti þeirra manna, sem til þekkja, er það allt of mikið, til þess að einn prestur geti rækt störf sín sæmilega við söfnuðinn. í öðrum löndum, þar sem trúarlíf er að vísu blómlegra en hér, er talið, að einn prestur geti ekki sinnt nema 2–3 þús. manna söfnuði, og virðist skynsamlegt, að til þess væri tekið hér tillit. Það kom fram hjá hv. þm. Barð. að hafa prestssetur á sögufrægum stöðum, og nefndi hann Rafnseyri í því sambandi, og vissulega er það mikilsvert að halda uppi heiðri Rafnseyrar framvegis. En til þess verður líka að taka tillit, þegar þess er gætt, að prestarnir eiga að vera sálusorgarar fólksins, þá er það mikilsvert, að þeir séu á beim stöðum, þar sem fólkið býr, ef miðað er við það, að þeir geti rækt starf sitt á sem beztan hátt, og því er ekki vit að hafa presta úti um land með söfnuði, sem telja ekki nema 2 –3 hundruð, en hér í Reykjavík verða þeir að anna 6–7 þús. manna söfnuði og sumir fleiri. Á þessu verður að fást ráðin bót. Ég tel, að rétt sé að leggja niður þau prestaköll, sem engir prestar fást í, en tel jafnframt rétt, að athugun fari fram á samræmingu á þessum málum, því að þar sem samgöngur hafa batnað, geta sveitaprestar nú sinnt miklu stærri prestaköllum en áður, en jafnframt verði prestum fjölgað hér í Reykjavík. Ég skal t.d. benda á það, að þegar Laugarnesprestakall var stofnað, þótti það vera hæfilega stórt prestakall, en hafi svo verið, sjá allir, að það er nú orðið ofviða einum presti og fráleitt, að einn prestur geti annað störfum þar, og sama sagan er um Nesprestakall og jafnvel dómkirkjuprestakallið og Hallgrímsprestakall. Það er sérstaklega þetta í ræðu hv. þm. Barð., að hafa beri prestana á vissum stöðum, þá tel ég, að taka beri tillit til þess, hvar fólkið er, og þar beri að hafa prestana. Og vissulega er það ástæðulaust að hafa fleiri presta en lækna, og má í því sambandi minnast á Rangárvallasýslu, þar sem nú munu vera starfandi 6 prestar, en ekki nema 1 læknir, en aftur á móti hér í Reykjavík eru ekki nema 6 prestar, en læknarnir munu nú nálgast hundraðið. Á þessu sést, hve mikill mismunur er í þessum hlutföllum, og ég tel, að ríkisvaldinu beri að stefna að því að færa þetta til meiri samræmingar en nú er. Um leið vil ég benda á, að full ástæða er til að athuga, hvort ekki er hægt að fá prestum meira verkefni með því að tengja starf þeirra meira við fræðslulöggjöfina. Það er ekki vafi á því, að prestarnir geta unnið mjög merkilegt starf á þessum vettvangi, og þeir mættu miklu góðu til vegar koma þannig, og skýt ég þessu hér fram til athugunar. Hv. þm. Barð. misskildi frv., þegar hann hélt, að hér væri um að ræða flutning á prestssetrum, sem hefði þá í för með sér flutning á Hraungerðisprestssetrinu að Selfossi, sem þó væri eðlilegt. Þetta er misskilningur, sem leiðréttist hér með.