30.01.1951
Efri deild: 58. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

95. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónason:

Herra forseti. Ég sé, að hér liggja fyrir brtt. frá n., og bjóst ég því við, að hún segði eitthvað um málið. — Ég flyt till. til rökst. dagskrár í þessu máli, og er hún á þskj. 574.

Er þetta mál kom frá hv. n., ræddi ég ekki einstök atriði þess, því að ég hafði rætt þau við 1. umr. málsins, og sá ég ekki ástæðu til þess að tefja tíma n. eftir að málið kom úr nefnd.

Ég sé, að n. hefur lagt mikla vinnu í þetta mál og jafnvel meiri vinnu en hægt er að vænta af henni í svona máli, og sýnir það bezt, hve málið er illa undirbúið.

Þetta mál er mjög viðkvæmt, t.d. fyrir viðkomandi héruð í sambandi við það, hvort leggja á prestaköll niður o.þ.u.l., en ekki hefur verið leitað umsagnar þessara aðila um málið, sem eðlilegast væri, að hæstv. ríkisstj. gerði; hins vegar hefur ekkert samkomulag verið gert við kirkjuráðið, sem telur sig helzta aðilann í landinu hvað þessi mál snertir. Og mér finnst málið þannig undirbúið, þrátt fyrir mikla vinnu hv. menntmn., að það sé ekki rétt að samþ. það á þessu þingi. Ég hef því borið fram þessa rökst. dagskrá í málinu og tel, að athuga eigi ýmis atriði í sambandi við það.

Í fyrsta lagi á að senda frv. eins og menntmn. hefur gengið frá því til umsagnar forustumanna kirkjumála í landinu, og í öðru lagi á að athuga, hvort viðkomandi héruð eru sammála þessari leið, sem hér er stungið upp á. En auk þess tel ég rétt að athuga, hvort ekki sé rétt að koma upp aftur sérstöku prestsembætti á Þingvöllum og stofna þar heiðursprestakall. Þetta ætti ekki að kosta ríkissjóð neitt fé, því að skv. lögum á að vera sérstakt prestakall á Þingvöllum með sérstöku prestssetri, en í mörg ár hefur hvorki verið þar sérstakt prestsembætti, eins og lög gera ráð fyrir, né það auglýst, eins og skylt er þó að gera. Þetta mundi ekki kosta ríkissjóð nein fjárútlát, því að launin eru greidd öðrum prestum, prestsbústaðurinn er til, — að vísu situr ráðsmaðurinn þar, en vandalaust að láta honum annan bústað í té, t.d. Gjábakka. Ég get því ekki séð, að þetta mundi hafa neinn aukakostnað í för með sér.

Er ég ræði hér um heiðursprestakall, er hugmyndin sú, að presturinn verði ekki kosinn, heldur skipaður, og mundi hann þá vera sérstakur menntamaður, sem þekki sögu Þingvalla og annað tilheyrandi út í æsar.

Auk þess hafa ýmsar ríkisstj. farið fram á, að erlendir menn fengju að dveljast á Þingvöllum um tíma, og væri því eðlilegast, að þar sæti sérstakur menntamaður, sem væri landinu til sóma. En ráðsmaðurinn getur skiljanlega ekki annað þessu, enda hefur hann öðru hlutverki að sinna. — Að ég hef einnig bent á Rafnseyri sem slíkt heiðursprestakall, er vegna minningar Jóns Sigurðssonar. Ég álít, að það beri að gera eitthvað fyrir þann stað, og ef litið er aftur í tímann, þá er ekki hægt annað en viðurkenna störf séra Böðvars Bjarnasonar á staðnum, því að þar hafa hlotið undirstöðumenntun sína margir af ágætismönnum þjóðarinnar. Ég tel, að það þyrfti ekki að sjá eftir fé, sem varið yrði til þess að halda þar uppi slíkum menntamanni eða til að heiðra staðinn á einhvern annan hátt, og ég tel alls ekki sæmandi að þurrka Rafnseyri út sem prestakall, nema gera þá eitthvað fyrir staðinn um leið. Ég skal viðurkenna það, að sóknin þar er orðin fámenn og nokkur býli komin þar í eyði. En hins vegar er ekki hægt að hringla til með prestaköllin, þótt sveiflur á fólksfjöldanum komi einhvern tíma, og það eru líkur til, að þarna muni byggjast aftur hvert býli, er búið er að virkja Dynjanda. Með þessum forsendum hef ég lagt til, að málinu yrði vísað frá með rökst. dagskrá, eins og prentað er á þskj. 574. — Að öðru leyti mun ég ekki ræða þetta mál nú, nema þá ef sérstakt tilefni gefst.