01.03.1951
Efri deild: 79. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Um það hvort ríkisstj. ætli að leita samþykkis Alþingis á þeim ráðstöfunum„ sem hún er að gera, er það að segja, að í fyrstu, þegar þetta var athugað, var álitið, að slíkt mundi nauðsynlegt, en við nánari athugun kom í ljós, að nægileg heimild var fyrir í lögum um fjárhagsráð að gera slíkar ráðstafanir, og þar sem slík heimild var til áleit ríkisstj. ekki, að hún væri skuldbundin til að biðja Alþingi um nýja heimild. Þetta er samhljóða álit þeirra lögfræðinga, sem ríkisstj. hefur leitað til, að vald fjárhagsráðs sé svo víðtækt, að það nái yfir þetta. Hv. þm. komst svo að orði, að með þessu væri verið að veita einstökum mönnum undanþágu frá lögunum. Það má að vísu segja það, að um leið og einhver maður hefur fengið leyfi hjá fjárhagsráði fyrir einhverri vörutegund, þá hafi hann um leið komizt í einokunaraðstöðu um að selja þá vöru. Og ég vil benda hv. þm. á það, að svipaðar ráðstafanir hafa verið gerðar fyrr, og það svo að nemur 20–30 millj. á ári nú síðasta tímabilið. Þá var gjaldeyririnn undanþeginn til bátaútvegsmanna með miklu hærri álagningu á vörur en hér er gert ráð fyrir. Þetta var falið fjárhagsráði þá og var talið fullkomlega löglegt. Um það, að þessar breytingar á verðlagseftirlitinu séu fram komnar til að afnema allt verðlagseftirlit með lögum, þá finnst mér ástæðulaust að draga þá ályktun. Það var aldrei gert ráð fyrir því, að ekki mætti undanþiggja ýmsar vörur þessu eftirliti. Það sýndi sig fyrir ekki löngu, að ýmsar vörur voru undanþegnar þessum verðlagsákvæðum, og fjárhagsráð taldi sig hafa heimild til þess þá að óbreyttum lögum. Og það, sem hér er verið að gera, er að skera úr því, að fjárhagsráð hafi heimild til að leggja á vörur, en ekki verið með því að segja, að því sé skylt að gera það á allar vörur, og það má afnema þessa álagningu af ýmsum vörutegundum, ef því sýnist svo. Nýja greinin er eins og sú gamla, með þeirri viðbót, að aftan við hana er bætt: „Verðlagsákvarðanir sínar getur fjárhagsráð numið úr gildi með auglýsingu“ — og að í fyrstu línunni stendur „getur“ í staðinn fyrir ,.skal“. Hvað viðvíkur þessu síðasta, virðist það vera einsætt, að eins og fjárhagsráð verður að tilkynna verðlagsákvarðanir sínar með auglýsingu, þá verði það að afnema þær með auglýsingu. — Nú, og hin orðalagsbreytingin er aðeins til þess að samræma orðalag gr. því, sem hefur verið í reyndinni, að það hefur ekki verið skylda fjárhagsráðs að ákveða álagningu á vörur, heldur getur það gert það.

Út af því, hvort þau viðskiptalönd okkar, sem eru í þessu bandalagi, gefi frjálsan innflutning á fiski, þá er því til að svara, að sum þeirra hafa frjálsan innflutning, eins og t.d. Ítalía, sem ég hygg að hafi allan fisk á frílista, og ég má segja, að innflutningur á fiski sé frjáls í öllum stærstu viðskiptalöndum okkar, eins og segja má, að sé í Bretlandi. Ég hygg þó, að fiskur sé ekki á frílista í Grikklandi, en þó er það áreiðanlegt, að við stöndum þar fyllilega jafnfætis öðrum löndum.

Ég skal geta þess, að þegar ég var á fundi Evrópubandalagsins í sumar í París, þá sýndi ég fram á það, hve mikil nauðsyn það væri fyrir Íslendinga að þau lönd, sem þeir skipta við, hefðu fisk á frílista, ef þeir ættu að geta laft þær vörur, sem þeir kaupa af þeim, á frílista. En það er nú svo, að það er ekki hægt að hafa allar vörur á frílista, og þess vegna er togstreita um það hjá öllum, að sem flest lönd hafi þær vörur á frílista, sem þau þurfa helzt að selja. Annars má gera ráð fyrir því, að þegar allur innflutningur verður gefinn frjáls frá þessum löndum, þá verði um leið allur útflutningur þangað settur á frílista.