02.03.1951
Efri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. lét sér títt um formgalla á frv. og taldi ekki sæmandi að bjóða Alþingi þannig frv. Ég skal fúslega viðurkenna, að ég tel ekki sem bezt formið á þessu frv., eins og það kemur fram, en hitt er engin nýlunda á Alþingi, að svipuð frv. komi fram. Þetta er ekki í fyrsta skipti, að tvær ólíkar lagagreinar koma saman. Slíkt hefur viðgengizt, þegar það hefur þurft að koma tveimur ólíkum lögum í gegn á skömmum tíma, að þær hafa verið bornar fram í einu frv. til þess að spara tímann. Það er aðalástæðan fyrir þessu formi, að gert er ráð fyrir, að þingi verði slitið innan fárra daga.

Það er ekki rétt haft eftir mér, að ég vildi engu láta breyta í frv. Hitt sagði ég, að ég vildi ekki láta rífa frv. í þrjá hluta. Það er óþarfi fyrir hv. þm. Barð. að gera sig digran og segja, að menn hafi ekki hugmynd um, hvernig bera eigi fram frv. Hann er svo þingvanur maður, að hann ætti að vita, hvað hér hefur gerzt. Hann minntist á 3. gr. frv. og sagði, að vegna formgalla yrði að breyta henni, svo að hún yrði boðleg Alþingi. Má deila um, hvort breyta eigi framlengingunni eða segja, að þessi lagagrein, sem er í gildi, verði numin úr gildi. Ég fyrir mitt leyti er ekki á móti þeim breytingum, sem meiri hl. n. hefur fram borið. Ég tel 2. gr. heppilega sem bráðabirgðaákvæði, þó að ég telji það ekki nauðsynlegt. Álít ég, að það megi gera þetta á báða vegu. Vænti ég þess, að deildin geti fallizt á að samþykkja frv. með þeim brtt., sem fram hafa komið frá meiri hl. n.