16.10.1950
Efri deild: 3. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

3. mál, vegalagabreyting

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta frv. þarf lítilla skýringa við, en þó þykir mér rétt til frekari upplýsinga að láta fylgja því nokkrar skýringar. Eins og frv. ber með sér, er í l., að einstök sýslufélög geta keypt stórvirkar vélar og verkfæri, t.d. jarðýtur, og ef þær hafa þar til meðmæli vegamálastjóra, þá stofnast sjálfkrafa skuld á ríkissjóð fyrir hálfu andvirði verkfæranna. Þetta er eitt af þeim ákvæðum, sem eru lítt þolandi í lögum því að samkvæmt því er hægt að stofna til skuldar á ríkissjóð án þess að Alþingi eða viðkomandi ráðherra geti við neitt ráðið. Það þarf aðeins að fá meðmæli vegamálastjóra. Eitt sýslufélag, Árnessýsla, hefur keypt verkfæri samkv. þessu, og í Barðastrandarsýslu stendur þræta um það, hvort samþykkja eigi slík kaup, og hefði einnig orðið í Vestur-Ísafjarðarsýslu, ef sú vél hefði ekki verið seld. Nú hafa upphæðirnar ekki verið greiddar til Árnessýslu og Barðastrandarsýslu, og verður það mál látið ganga til fjvn. til athugunar, en hart er eftir fénu gengið. Það má kannske finna þessu fyrirkomulagi eitthvað til málsbóta; en á móti því mælir ekki eingöngu það, að það vindur upp á sig skuldir á ríkissjóð, eins og ég gat um áðan, heldur er það einnig ósanngjarnt, því að þegar einstök sýslufélög fá stórvirk verkfæri, svo sem jarðýtur, samkv. þessum lögum, þá hafa þau þær til vinnu helmingi ódýrari en þær, sem ríkið hefur til vinnu á ýmsum stöðum. Þetta er hliðstætt því, að jarðræktarsamböndunum er veitt heimild til að kaupa skurðgröfur, þannig að ríkissjóður borgi helming verðsins, og mun verða lagt til síðar, að þetta verði einnig fellt niður. Þetta skapar ósamræmi, sem ekki á að vera til staðar, en fyrst og fremst er þetta frv. flutt til að fyrirbyggja það, að kröfur stofnist á ríkissjóð án þess að Alþingi eða ríkisstjórn fái við ráðið, eins og ég hef áður bent á. — Ég held svo, að ég þurfi ekki að gefa frekari skýringar, en óska, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.