03.03.1951
Neðri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

194. mál, togarakaup ríkisins

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjhn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu frv. — N. hefur borið fram 2 brtt. Fyrri brtt., sem hv. frsm. lýsti, var alveg í samræmi við það, sem ég gat um við 1. umr., að þótt orðalagið sé eins og það er, þá er alls ekki meiningin að fá neina nýja heimild til lántöku, og get ég því fallizt á þetta og tel það betur farið að orða þetta eins og þarna er gert ráð fyrir. Hitt er svo nýtt efnisatriði, sem kemur hér fram í síðari brtt., en ég gat um það við 1. umr., að ríkisstj. væri fús til að athuga þann möguleika, að einhver heimild yrði veitt til þess að gera tilraun með það að gera gömlu togarana út á veiðar, og sérstaklega á þann hátt að koma í þá olíukyndingu, og sú brtt., sem öll n. stendur að, er þannig, að ríkisstj. mun mjög vel geta sætt sig víð hana, en hún er á þá leið, að verja megi allt að 2 millj. kr., þó ekki yfir 75% af kaupverðinu, í þessu skyni. Ríkisstj. telur rétt og sjálfsagt að gera tilraun til, hvort ekki megi hagnýta þessi gömlu skip. Þess ber að geta, að það eru skiptar skoðanir um það, hvort þetta sé rétt eða ekki. Ýmsir menn, sem hafa þekkingu á skipum og skipasmíði, telja vafasamt, að þetta borgi sig. Út frá því sjónarmiði álítur ríkisstj., að þær heimildir, sem nú eru veittar, eigi að vera takmarkaðar. Er þetta fyrst og fremst tilraun til, hvort hægt sé að búa togarana út til veiða með tiltölulega litlum kostnaði. Það, sem fyrir ríkisstj. vakir, er að geta veitt nokkrum stöðum, sem hafa orðið hart úti vegna aflaleysis o.fl., aðstoð til að gera tilraun með þessa hluti. Ríkisstj. lítur svo á, að nauðsynlegt sé, að hún hafi þessa heimild. — Hér hefur komið fram viðbótartill. frá hv. þm. Hafnf. og hv. þm. V-Ísf. um að verja til viðbótar 2 millj. kr. til þeirra eigenda gömlu togaranna, sem vildu gera þá út á þennan hátt. Ég tel vafasamt, að það sé rétt að samþ. þessa viðbótartill. Ég held, að ekki sé heppilegt, að Alþingi geri slíkar ráðstafanir, án þess að gengið sé úr skugga um, hvort þessar aðgerðir svöruðu kostnaði. Ríkisstj. telur, að nóg sé að taka 2 eða 3 skip til tilrauna og þannig bæta þörf þeirra staða, sem verst eru settir. — Ég held, að það hafi ekki stafað af fjárskorti, að eigendur gömlu togaranna hafa ekki gert þá út, heldur af trúleysi á, að þessar aðgerðir væru réttmætar, og hafa eigendurnir ekki þorað að ráðast í þær. Hygg ég, að þetta hafi ráðið miklu um, að ekkert hefur verið gert áður. Ríkisstj. lætur sér ekki detta í hug að gera þetta nema eftir umsögn fróðra manna um, að þetta væri skynsamlegt. Er því þetta nægileg tilraun.

Hv. 2. þm. Reykv. lýsti því yfir, að stórkostleg hækkun á sjávarafurðum væri framundan, og mætti því leggja stórfé til skipanna. Þetta er nú vafasamt. Það er ekki hægt að segja neitt um það enn, en betur að rétt væri. En ekki er vert að rasa um ráð fram. En sem sagt, ég vil leggja til, að brtt. fjhn. verði samþ., en ég sé mér ekki fært að mæla með viðbótartill. þeirra hv. þm. Hafnf. og hv. þm. V-Ísf. Ég álít ekki rétt fyrir Alþingi að ganga lengra en það hefur gert. En við þessa tilraun vinnst tvennt: 1) kemur í ljós, hvort þetta borgar sig, 2) verður hægt að veita ýmsum stöðum aðstoð, og þá ekki sízt þar, sem staðir, sem byggja sína afkomu á sjávarafurðum og veiðum, hafa orðið fyrir tilfinnanlegu aflaleysi. — Þetta vildi ég leyfa mér að taka fram í sambandi við þetta mál.