05.03.1951
Efri deild: 84. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

194. mál, togarakaup ríkisins

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hefur ekki unnizt tími til að láta prenta álit nefndarinnar, og ekki hefur heldur unnizt tími til að kalla n. saman til að lesa nál. yfir, því að hugmyndin er að ljúka málinu sem fyrst, en nm. hafa fengið það til umsagnar, og aths. hefur komið frá einum hv. nm. Það var bent á það á fundi n. í dag, að eðlilegt væri að breyta 1. málslið 1. mgr. þannig, að það kæmi beint fram, að atvinnuþörfin væri ekki látin ráða eingöngu, þegar togurunum væri úthlutað, heldur væri jafnframt höfð hliðsjón af því, hvaða skilyrði væru til útgerðar á þeim stöðum, sem óskuðu eftir skipum, og þá einnig, hvort þessir aðilar, sem fengju skipin með vægustu kjörum, gætu gert þau út. Við álítum þetta mikið atriði og teljum, að hafa verði hliðsjón af því við úthlutunina. Ég vil taka fram, að einn af umsækjendum togara þeirra, sem búið er að úthluta, og greiddi 10% af andvirðinu, treysti sér ekki til að gera skipið út nema hann fengi yfirfærslu á 6000 pundum og 120 þús. kr. lán til að geta tryggt það fyrsta mánuðinn. Mér finnst rétt, að þetta komi hér fram, því að það er ekki rétt að afhenda skipin, nema eigendurnir geti komið þeim heim, því að mér skilst, að hér eigi ekki að vera um aðra aðstoð að ræða en þá að veita lán með þessum kjörum, sem sé lægri útborgun en gert var ráð fyrir í upphafi, en því fylgi ekki sú kvöð að veita lán til að gera skipin út. Það væri því rétt, að þetta kæmi beint fram í frv., en vegna þess að breyting mundi tefja framgöngu málsins hér, þá hefur orðið samkomulag um að taka ekki slíka breyt. inn í frv., en fylgi mitt er bundið því skilyrði, að slík athugun sé látin fara fram, áður en skipin eru afhent. Ef illa gengur með slík skip, þá hlaða þau á sig skuldum, þar sem ekki mun vera hægt að greiða skipshöfninni, sem er stórfé í hverri ferð, og ekkert verður hægt að leggja fyrir til tryggingar gegn áföllum, og í slíkum tilfellum gæti farið svo, að ríkissjóður yrði að taka að sér ekki aðeins að greiða skipin, heldur einnig tap af útgerðinni og að leysa út sjóveð.

Hæstv. forsrh. lýsti því yfir í dag, að ef fyrir lægi að dómi ríkisstj., að fleiri en einn aðili stæði jafnt að vígi um þörf á að fá togara, en annar aðilinn gæti frekar greitt út fyrir skip, þá væri hans tilboði heldur tekið, í trausti þess, að sá aðili mundi heldur geta komið útgerðinni á fjárhagslega traustan grundvöll. Þá kom fram, að heppilegast væri að binda kostnað þann, sem gert er ráð fyrir í 2. gr., við það, að fyrir lægju meðmæli frá sérfræðingi og vitað væri, hve mikill kostnaður yrði af slíkri breytingu. Ég vil upplýsa, til að koma í veg fyrir misskilning, að n. var ekki algerlega sammála um að miða eingöngu við breytingarkostnað, en ég tel það heppilegast. Það er ekki heppilegt, að ríkisstj. tryggi sölu á gömlum skipum, sem þaulvanir útgerðarmenn treysta sér ekki til að gera út, til aðila, sem ef til vill hafa miklu minni þekkingu á útgerð. N. var ekki einhuga um þetta, en ég tel, að hæpið sé, að ríkissjóður annist greiðslu á söluverði slíkra skipa. Ég hef mínar skoðanir á því, hvernig muni ganga fyrir nýja aðila að taka við þessum skipum og láta útgerð þeirra bera sig, og tel ekki heppilegt, að ríkissjóður taki á sig ábyrgð á greiðslu söluverðsins. En hér er aðeins um heimild að ræða, og það kemur auðvitað ekki til mála, að ríkissjóður gangi í ábyrgð, nema fyrir liggi sérfræðingaálit og kostnaðaráætlun.

Ég hef heyrt einstaka aðila minnast á, að aðgerðir þessar muni kosta um 300 þús. kr. á skip, en ég fullyrði, að það muni kosta miklu meira, og þykir líklegt, að það verði ekki mikið undir 800 þús. kr. á skip, og þegar þetta er athugað ofan í kjölinn, þá kemur ýmislegt fram, sem óvanir menn gera sér ekki grein fyrir í fljótu bragði. Ég vænti þess því, að hæstv. ríkisstjórn láti athuga málið vel, áður en hún fer út í þetta. Ég þekki það vel, að þegar farið er að breyta einhverju, jafnvel þó að það sé minna en þetta, þá er það margt, sem þarf að lagfæra, þó að það hefði annars mátt bíða.

N. athugaði till. hv. 4. þm. Reykv., sem var lýst hér við 1. umr. og borin hafði verið fram í Nd., en ekki hlotið samþykki þar, og vildi hv. 1. landsk. þm. láta samþ. hana, en aðrir nm. gátu ekki fallizt á það. — Einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að fylgja brtt., sem fram kunna að koma, eða að bera fram brtt. Ég mun bera fram brtt. við 3. umr., ef frv. verður breytt við þessa umr., því að ég tel nauðsynlegt, að þær brtt. komi inn í frv., sem ég þegar hef lýst. Ég mun hins vegar ekki bera fram brtt., ef hægt er að koma frv. fram óbreyttu, né styðja aðrar brtt., sem hér kunna að koma fram, í trausti þess, að frv. nái samþykki eins og það nú er.