14.12.1950
Neðri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

59. mál, vinnumiðlun

Frsm. meiri hl. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Þetta frv. um vinnumiðlun á þskj. 95 er borið fram af hæstv. ríkisstjórn og lá fyrir heilbr.- og félmn. til athugunar. N. ræddi málið á allmörgum fundum og hefur þar haft til viðtals hæstv. félmrh. — Samkomulag varð ekki í n. um málið. Meiri hl. n. vill samþ. frv. svo að segja óbreytt, en minni hl., tveir hv. þm., hafa skilað hvor sínu nál. og eru frv. andvígir. — Við í meiri hl. n. leggjum til, að breytt verði 6. gr. frv. á þá leið, að því er snertir formannskosninguna, þar sem í frv. er ákveðið, að form. skuli vera kosinn — en það er ekki hægt, þegar hlutfallskosning er höfð, — að ákvæðið um það falli niður, að kosinn skuli varamaður eins og í frv. segir, en í stað þess kjósi stjórnin sér sjálf formann, eftir að kosning í stjórn hefur farið fram.

Þetta frv. hefur valdið deilum hér á hæstv. Alþ. við 1. umr. Við höfum borið það saman við l. frá 1935, en þar er ákveðið, að bæjarstjórnum sé heimilt að reka vinnumiðlunarskrifstofu, ef þeim sýnist svo, og auk þess geti atvmrh. ákveðið, að vinnumiðlun fari fram í vissum kaupstöðum. Þetta hefur verið framkvæmt á undanförnum árum, þannig að í fimm af þrettán kaupstöðum landsins hefur þetta verið framkvæmt undanfarið. Og þetta hefur verið kostað af bæjarsjóðum að tveimur þriðju hl., en af ríkissjóði að einum þriðja, og síma- og póstkostnaður hefur verið greiddur alveg af ríkissjóði.

Þetta frv. fer fram á, að bæjarstjórnirnar einar skuli ráða því, hvort vinnumiðlunarskrifstofur skuli reknar í viðkomandi kaupstöðum eða ekki, og í öðru lagi, að ríkið hætti að taka þátt í þessum kostnaði. Og frv. gerir ráð fyrir, að bæjarsjóðirnir sjálfir greiði kostnaðinn að öllu leyti, eins og líka eðlilegast er, því að þetta eru náttúrlega aðallega bæjarmál á hverjum stað, og það er ekki nema eðlilegt, að bæjarsjóðirnir sjálfir greiði allan kostnað við þessa starfsemi. Enda hefur það verið svo, að tilmæli hafa komið frá einu eða tveimur bæjarfélögum um, að þau fengju sjálf að ráða þessum málum og greiði allan kostnað af þeim. Þetta er aðalbreyt. með frv. Meiri hl. n. hefur skilað áliti og leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem ég gat um. Minni hl. ber fram sínar ástæður fyrir því að óska, að frv. verði ekki samþ.