11.12.1950
Neðri deild: 35. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

127. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði við 1. umr. gert nokkra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, og ég hafði búizt við, að nokkrar brtt. kæmu fram við frv. fyrir 2. umr., þar sem einstakir nm. fjhn. höfðu áskilið sér rétt til að bera fram brtt. við frv. En engar slíkar breyt. hafa enn komið fram. Ég mun þess vegna ekki bera fram brtt. við frv. við þessa umr., þar sem ég geri ekki ráð fyrir, að aðrir en við sósíalistar mundu greiða þeim atkv. eins og nú er komið málinu. Ég get þá lýst því yfir, að ég mun greiða atkv. gegn 1. gr. frv. nú og rökstyð það með því, sem ég hef áður sagt hér, að ég tel það óforsvaranlegt, þegar álögur allar eru svo þungar á almenningi, að stærsta hlutafélagið sé skattfrjálst. Það var bent á það af hv. form. n. að það væri ekki svo hættulegt með það, að hluthafar Eimskipafélagsins mundu græða mjög mikið á félaginu, þegar félagið sækti um þessa undanþágu og á meðan sá varnagli væri sleginn, að ekki mætti greiða hluthöfum nema 4% í arð, en þá væri fyrst hætta á ferðum, þegar félagið hætti að sækja um slíka undanþágu, því að þá ætlaði það að greiða meira en 4% í arð af hlutabréfum félagsins. Ég vil mótmæla þessu. Sá arður, sem hér er af hlutafélögum, stafar ekki af arðsútborgun, heldur er látinn renna til einstakra voldugra manna innan félagsins á annan hátt, en sú slæma regla er þar aftur á móti ríkjandi, að lítill eða enginn arður er greiddur af hlutabréfum, og er það gert til að gera hina smáu hluthafa leiða á því að vera í félaginu, og því reynt af hinum voldugri í félaginu að svelta hina smærri út úr því, gera þá leiða á að vera í félaginu. Og það að greiða ekki út arð í hlutafélögum er því venja hinna voldugu hluthafa til að ná öllum tökum á félaginu. Svo að það er síður en svo, að það geti ekki samrýmzt hag hinna voldugu að greiða ekki út arð af hlutabréfum. Ég hef bent á, að eins kunni að fara í Eimskipafélagi Íslands, og það, að hinir smærri hluthafar hafa ekki þegar selt sín hlutabréf í því, stafar af eins konar ræktarsemi við félagið, og að enn er við lýði hjá mörgum nokkuð af þeim hugsjónaeldi, sem vaknaði við stofnun Eimskipafélagsins. En sú regla, að ekki sé greiddur nema 4% arður, kemur á engan hátt í veg fyrir aukið vald hinna auðugri hluthafa í félaginu, og þó að svo sé enn, að mikill hluti af bréfunum sé á höndum annarra en þeirra, þýðir það engan veginn, að þjóðin sem slík hafi ráðin í þessu hlutafélagi. Ég tók enn fremur fram við 1. umr., að ég mælti þetta ekki fyrst og fremst vegna þess, að hættan væri svo mikil nú í augnablikinu, heldur vegna þess, að slík hætta gæti myndazt, ef einstakir voldugir menn fengju of mikið vald á félaginu, og hve slík yfirráð einstakra auðmanna í svo voldugu félagi sem Eimskipafélaginu gætu verið hættuleg. Og þess vegna væri heppilegast, að ríkið eignaðist nokkurn hluta hlutabréfanna, — gæti t.d. eignazt 1/5 hluta þeirra. Þetta mundi ekki þýða meirihlutaráð ríkisins í félaginu, heldur hefði það að sjálfsögðu aðeins 1/5 hluta atkvæða í því, en það mundi veita öryggi fyrir síðari tíma og vinna gegn of miklum ráðum einstakra voldugra manna innan félagsins. Mín skoðun er sú, að skynsamlegast sé að gera slíkar ráðstafanir með góðu samkomulagi við félagið og áður en veruleg hætta hefur enn myndazt. Eimskipafélagið nýtur enn mikillar viðurkenningar fyrir sitt góða starf í þágu þjóðarinnar, og ég býst við, að hægt væri að ná samkomulagi við það um skattgreiðslu. Ég vil minna á það, að það er ekki rétt gagnvart öðrum borgurum þjóðfélagsins að láta Eimskipafélagið njóta þessara algeru fríðinda um skattgreiðslur, þegar til eru í landinu önnur félög, sem starfa á svipuðum grundvelli, en verða að greiða alla skatta. Hins vegar veit ég, að þýðingarlaust er að bera fram um þetta brtt., nema fleiri standi þar að. Ég mun því greiða atkv. á móti 1. gr. frv. við þessa umr., en freista þess að ná samkomulagi um brtt. fyrir 3. umr.