14.11.1950
Neðri deild: 21. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (2112)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. atvmrh. hafði farið fram á það í fyrri ræðu sinni hér, að menn héldu sig sem bezt við efni þessa frv. í umr. um þetta mál. Hins vegar hefur hann nú sjálfur brotið svo í bága við þessa ósk, að ég tel mig hafa rétt til þess líka, en hann talaði hér áðan af allmiklum gáska.

Þegar ég sá fyrirsögn þessa frv., þá fannst mér, að hæstv. atvmrh. hefði nú tekið að sér að leika ömurlegt hlutverk með því að leggja þetta frv. hér fram. Fyrir nokkrum árum stóðum við saman í því að koma fótum undir sjávarútveginn og tryggja það, að hann gæti gengið, og hann veit, við hverja þurfti þá að berjast. Hann veit, að það þurfti að berjast við landsbankavaldið og heildsalaklíkuna og að það þurfti að hnika landsbankavaldinu fet fyrir fet og brjóta vald hans eigin flokks á bak aftur til að tryggja það, að svo nauðsynlegt mál næði fram að ganga. Nú leggur hæstv. atvmrh. fram frv. samkv. fyrirskipan Landsbankans og heildsalanna hér í Reykjavík, frv. til laga um refsingu gagnvart sjómönnum og útgerðarmönnum. En hver er þá tilgangurinn með þessu frumvarpi? Er tilætlunin sú, að koma því inn hjá mönnum. að sjávarútvegurinn sé baggi á þjóðinni, sem hún þurfi að losna við sem fyrst? Ég held, að það sé nauðsynlegt, að hv. þm. segi þjóðinni um það hér, hver sé tilgangurinn með þessu frv., hvort hann sé sá, að gefa afturhaldsöflunum sérstakt tækífæri til ánauðar. Það mætti ætla, að slíkt frv. kæmi sízt frá hæstv. atvmrh. Maður getur látið sér detta í hug, að skilningsleysið hjá hæstv. ríkisstj. sé svo mikið, að hún bókstaflega skilji ekki samhengið á milli sjávarútvegsins og afkomu þjóðarinnar. Í þessu sambandi dettur mér í hug gömul saga, sem gerðist norður í Húsavík fyrir um 20 árum í sambandi við útgerð Njáls, en það var bátur, sem Guðjohnsen gamli kaupmaður gerði út. Sonur hans kom til hans með reikninga fyrir Njál og sagði þá heldur þokkalega og mikið tap á þeim. „Nú,“ sagði Guðjohnsen, og sonurinn hélt áfram að tala um tapið og karl tók lítið undir. Loks sagði sonurinn, að þetta væri ófært og gæti ekki gengið lengur. Þá leggur karl frá sér verk sitt og segir: „Heyrðu mig, sonur sæll. Gerir þú þér ljóst, að það er Njáll, sem framleiðir gjaldeyrinn fyrir þær vörur, sem við höfum í búðinni til að selja, og það er vinnan við Njál, sem gerir fólkinu fært að kaupa vöruna, sem er tekin út hjá okkur?“ Og Guðjohnsen gamla tókst ekki að sannfæra son sinn um það, að það væri á Njáli, sem þeir græddu, og nú er eins komið fyrir valdhöfunum og syninum, að þeir skilja ekki, að það er bátaútvegurinn, sem gefur þjóðinni gjaldeyrinn. Því að eftir 1934 var klippt á þann þráð, sem tengdi saman útveginn og verzlunina, og bátarnir hafa nú í 2 áratugi verið sviptir öllum gjaldeyri, sem þeir hafa framleitt, og honum hefur verið útbýtt til manna hér í Reykjavík, sem hafa enga hagsmuni í aukinni gjaldeyrisframleiðslu. Og því ríkir nú algert skilningsleysi á því, að það sé útvegurinn, sem aflar þjóðinni alls gjaldeyrisins, og að það sé á honum, sem verzlunin græðir. Og nú er sama skilningsleysið að koma fram hjá hæstv. atvmrh. með flutningi þessa frv. Hvað er nú gert í þessum málum? Í stað þess að leyfa bátaflotanum að framleiða gjaldeyri til afnota fyrir sín bæjarfélög, þá er framleiðslan stöðvuð og gjaldeyririnn tekinn af bátunum og fluttur til Reykjavíkur og skipt á milli heildsala og braskara. Þannig er skorið á þá líftaug, sem hefur tengt athafnalífið og framleiðsluna, og með því drepinn allur áhugi fyrir að gera framleiðsluafköstin sem mest. Það fer meira að segja að verða refsivert að framleiða gjaldeyrinn. Slíkir menn eru settir undir skuldaskil. Sérhver hv. þm. veit það ósköp vel, að gjaldeyririnn er mjög eftirsóttur hér á landi og að menn sækjast mjög eftir honum. En þeir, sem framleiða hann, eru litnir þeim augum, að þeim beri að refsa. Hvernig í ósköpunum á áhugi að haldast fyrir framleiðslunni í okkar þjóðfélagi, ef svo á að ganga til?

Ég vil vekja athygli á því hér, að með samþykkt þessa frv. er verið að torvelda útgerð bátaflotans, en ekki bæta úr. Hvernig skyldi ganga með vinnuafköst útgerðarmanna, er þeir eiga von á slíku frumvarpi? Sannleikurinn er sá, að gjaldeyririnn er tekinn frá útgerðarmönnum og fenginn í hendur fámennrar einokunarklíku hér í Reykjavík, og það er hún, sem er að sliga útveginn og stefna með því þjóðinni í voða. Og það er þetta vald afturhaldsaflanna, heildsalarnir og Landsbankinn, sem heimtar að þessu fyrirkomulagi sé haldið áfram. Það er þessi einokunarklíka, sem heimtar, að útveginum verði þrælkað út með því að bera hana á baki sér, og það er hún, sem krefst nú aðstoðar til að geta sligað útveginn að fullu. Hún heimtar, að þannig sé farið með útveginn, svo að hún geti haldið áfram að raka af honum gjaldeyrinn. Það er þetta, sem er að gerast með tilkomu þessa frv. Það er raunar aðeins eitt, sem þarf að gera til þess að útvegurinn rétti við. Einokunarklíkan þarf að fara af baki hans, hún verður að hætta að sliga hann, og þá mun hann rétta við.

Hæstv. atvmrh. minntist á vöruskipti í sambandi við verzlun við Ungverjaland. Ef hann vill fara inn á vöruskipti, þá gæti hann haft þá aðferð að setja lágmarksverð á það, sem flutt er út, og hámarksverð á það, sem flutt er inn, og leyfa útvegsmönnum að annast sjálfum um kaupin, en ekki veita einokunarklíku hér í Reykjavík aðstöðu til að gína yfir viðskiptunum og ráða, hvað keypt skal inn og hvað ekki. Hann leyfir sölu til Spánar, og við fáum ekki að heyra neitt um verð þar. Það er seldur saltfiskur til Brasilíu, og þaðan verðum við svo að kaupa kaffi á þreföldu verði. Og til Bandaríkjanna fáum við að selja freðfisk með 20% lægra verði en hægt væri að fá fyrir hann. Ætli væri ekki betra að setja lágmarksverð á útflutningsafurðirnar og hámarksverð á innflutninginn og hætta að svipta útvegsmenn gjaldeyrinum og fá hann í hendur Birni Ólafssyni og öðrum heildsölum hér í Reykjavík?

ríkisstj., sem nú situr að völdum, er að draga máttinn úr útveginum, í stað þess, að hún gæti auðveldlega bætt aðstöðu hans. Hún gæti það með því að hætta að skipta sér af honum. Um leið og ríkisstj. lýsir því yfir, að hún sé hætt að skipta sér af útveginum eins og hún gerir nú, þá skal hún sjá til þess, að allur útvegurinn fer af stað af fullum krafti.

Ég veit, að hæstv. atvmrh. vill ógjarnan ræða þetta mál, því að það er samkomulag á milli heildsalanna og ríkisstj. að skipta einokuninni á milli sín. Ég skyldi ræða um þá starfsemi og þá verkaskiptingu, sem þessi einokunarklíka hefur komið á, og þess vegna er óhjákvæmilegt, þegar þetta frv. er lagt fram, annað en taka til umræðu sjálfa aðstöðu sjávarútvegsins í þjóðfélaginu. Ef það eru einhverjir, sem halda, að hér sé um aðstoð til útvegsins að ræða, þá fara þeir villir vegar. Hvernig haldið þið, að það sé fyrir þá, sem hafa lánað sjávarútveginum allt, sem þeir höfðu aflögu, að verða nú að taka við þessum bréfum? Þau eru að vísu góð fyrir vissa stétt. Við vitum, að þegar fátæk samvinnufélög úti á landi hafa fengið þessi bréf, þá fara þau með þau hingað til Reykjavíkur og selja þau kaupmönnum með 20–30% afföllum, en þeir fara svo og selja bönkunum þau. Þarna er verið að setja á stað svikamyllu til að arðræna útvegsmenn og koma vélbátaflotanum á kné. Ríkisstj. heldur áfram að halda honum í sama kútlingnum, á meðan Landsbankinn græðir 17 millj. króna á hverju ári á okurvöxtum. En um það er ekki talað eða gróða heildsalanna. Þessir aðilar halda áfram að raka af sjávarútveginum, svo að hann fer á höfuðið. Ég man vel eftir því, er verið var að knýja fram lögin um stofnlánadeildina, hvernig afstaða Landsbankans var gagnvart þeim lögum. En það tókst þá að láta Alþingi vera húsbónda á sínu heimili og samþykkja þau lög í trássi við Landsbankann. Ég veit, að Landsbankinn hefur ekki gleymt, að hann varð undir í því máli þá, og nú hyggst hann hefna þeirra ófara. Nú þykist hann geta náð sér niðri á sjávarútveginum með því að skipa svo fyrir, að þetta plagg verði samþ. hér á Alþingi. Mér þykir leitt að heyra hæstv. atvmrh., sem átti stóran þátt í að leggja grundvöllinn að þeirri skipulagningu sjávarútvegsins, sem þá var gerð. og vann þá öfluglega að því að brjóta vald Landsbankans á bak aftur, að heyra hann nú koma hér fram sem boðbera Landsbankavaldsins. Ég hef oft sagt, að það yrði ekki ráðin nein bót á aðstöðu sjávarútvegsins, fyrr en þetta vald væri brotið á bak aftur. Þess vegna er farin röng leið með þessu frumvarpi. Ef einokunarklíkan vildi aðeins fara af baki sjávarútveginum og hætta að beygja hann undir sinn þunga, þá geta menn séð til, hvort sjávarútvegurinn getur ekki rétt við. Ég ætla svo að láta lokið að þessu sinni að ræða þetta mál, sem hér er raunverulega til umræðu, um aðstöðu sjávarútvegsins í landinu, um rétt sjómanna gagnvart þeim aðilum, sem hafa svipt þá gjaldeyrinum og þeim gróða, sem ætti að vera að útgerðinni. Þetta frv. miðar að því að halda áfram að festa verstu meinsemd þjóðfélagsins, með því að láta sjómenn ganga með tap af sinum rekstri, svo að verzlunarstéttin geti aukið gróða sinn. Það getur ekki gengið í kapítalistísku þjóðfélagi, að sjávarútvegurinn sé rekinn með tapi. Það getur ekki gengið að hafa hann sem mjólkurkýr fyrir Landsbanka- og heildsalavaldið. — Ég býst við, að þetta mál eigi eftir að verða rætt meira hér og að hæstv. atvmrh. ræði það þá í fullri alvöru.