12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (2141)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég sakna þess nokkuð, að hv. flm.brtt. á þskj. 374 skuli ekki hafa látið verða af því að bera fram brtt. við 17. gr. frv. Hv. þm. Ísaf., sem talaði fyrir þeirra hönd, sagði, að þar þyrfti mikla aðgæzlu, og hygg ég, að flestir muni vera honum sammála í því, en æskilegt hefði verið, að hann hefði gert grein fyrir, hvernig hann teldi, að matið ætti að fara fram og hvaða reglum ætti að fylgja í því, og hefðu slíkar ábendingar verið vel þegnar. Varðandi það, sem hv. þm. minntist sérstaklega á í sambandi við matið, að taka yrði tillit til lögmætra afskrifta af skipunum, þá er ég hræddur um, ef farið væri eftir því, að þá færi svo í sumum tilfellum, að erfitt væri fyrir þau skip að njóta hlunnindanna, sem ætla í skuldaskil. Það væri því æskilegt, ef hv. þm. Ísaf. treysti sér til að leggja fram till. um ákveðnar reglur um matið. Nú varðandi 44. gr. l., um skipun stjórnar skuldaskilasjóðs, þá held ég, að það skipti ekki svo miklu máli, hvort það er eins og gert er ráð fyrir í frv. eða á einhvern annan veg. En ég skil, að hv. þm. Ísaf. þyki slæmt, ef Alþfl. á engan fulltrúa í stjórninni, en sá alþýðuflokksmaður, sem á setu í skilanefndinni, hefur unnið þar gott starf, og ég efa ekki, að hv. þm. Ísaf. mun vinna gott starf í stjórn skuldaskilasjóðs, ef hann verður þar sem fulltrúi L.Í.Ú. Um þetta atriði er ég sammála hæstv. atvmrh., að vel geti komið til greina að hafa fyrirkomulag á þessu á annan veg en gert er ráð fyrir í frv. En í l. um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda frá 1935, sem hv. þm. Ísaf. var 1. flm. að, þá eiga útgerðarmenn engan fulltrúa í stjórn skuldaskilasjóðsins. (FJ: L.Í.Ú. var þá víst ekki enn til orðið.) En það hefði víst samt sem áður verið hægt að koma því svo fyrir, að útgerðarmenn hefðu átt mann í stjórninni, en hún var skipuð bankastjóra Útvegsbankans og tveim mönnum tilnefndum af ríkisstj. En þar með er ekki sagt, að það eigi ekki fullan rétt á sér, að þessu sé nú svo skipað, að samtök útvegsmanna eigi nú einn fulltrúa í stjórn skuldaskilasjóðs, en ég tel slíkt ekki mikilvægt atriði.