18.12.1950
Neðri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa um þetta mörg orð, en það er ekki rétt, sem hv. þm. Siglf. sagði, að ég hefði sagt, að till. hans kæmi því máli, sem hér er til umr., ekkert við. Annars býst ég ekki við, að hv. þm. Siglf. eða aðrir hér í hv. d. hafi uppgötvað það í dag, hvernig hefur verið ástatt um hag sjómanna á skipunum. Það hefur sem sagt verið þannig ástatt undanfarið — það má segja í heilt ár, því að það er of mikið sagt, að það sé á þriðja ár (ÁkJ: Nei, það er áreiðanlega ekki of mikið sagt), — um tíma, að það hefur ekki verið hægt að ganga að þeim skipum, hvorki fyrir sjóveðskröfum né öðrum kröfum, sem sótt hafa um aðstoð til skilanefndar. Að öðrum skipum hefur að sjálfsögðu verið hægt að ganga með l., og lengst af hefur það ekki verið nema helmingur skipanna, sem hefur sótt um þessa aðstoð, en seinni partinn í sumar og í haust hefur þessum aðstoðarbeiðnum mjög fjölgað. Þetta er auðvitað mjög slæmt ástand, sem stafar af erfiðleikum þessarar útgerðar, sem þarna á í hlut. Ekki af því sérstaklega, að Alþ. hafi sett lög um það, að síldveiðisjómenn yfirleitt mættu ekki ganga að sínum sjóveðskröfum, heldur er þetta vegna þess, að viss hluti af útgerðinni hefur verið þannig staddur, að af þeim orsökum hefur þetta farið svona. Það er gert ráð fyrir sérstakri aðstoð handa þessum útgerðarmönnum, og meðan verið var að ákveða um þá aðstoð, þá var fylgt þessari reglu, að ekki mætti ganga að þeim skipum, sem sótt hafði verið um aðstoð fyrir. Það gilda engin sérákvæði um sjómenn, heldur gilda sömu reglur t.d. um lánsstofnanir, að þær megi ekki ganga að skipunum vegna vangoldinna afborgana, og sama gildir um alla kröfuhafa, að þeir hafa ekki getað gengið að þessum skipum, sem sótt hefur verið um aðstoð fyrir, en að öðrum síldarútvegsmönnum hefur verið hægt að ganga, bæði fyrir sjóveðskröfum og öðrum kröfum. En þetta er nóg vöntun fyrir það og erfitt fyrir þá sjómenn, sem þarna hafa átt hlut að máli. Svona hefur þetta verið og af því skapazt vandræðaástand í útgerðinni. Það er dálítið vafasamt að kenna Alþ. eða ríkisstj. um þetta, því að í raun og veru hefur Alþ. og ríkisstj. gert töluvert til þess að leysa þetta mál. Veturinn 1948–49 voru rúmlega 6 millj. kr. veittar til þess að innleysa áfallin sjóveð frá vertíðinni 1948. Þetta var gert þannig, að sjóveðum var að minnsta kosti að miklu leyti létt af síldveiðiflotanum þann vetur, 1948–49. — Ég nefni aðeins þetta eina dæmi, vegna þess að það er ekki alls kostar eðlilegt, þegar um þetta er rætt, að reyna að láta líta svo út sem Alþ. hafi í rauninni ekkert annað gert í þessu máli en skapa síldveiðisjómönnum erfiðleika, því að Alþ. hefur náttúrlega jafnhliða gert töluvert til þess að greiða úr erfiðleikum þeirra, þó að það hafi í sjálfu sér verið of lítið. Til viðbótar þessum 6 millj. var svo varið 11/2 millj. til innlausnar á sjóveðum s.l. ár, frá síldarvertíðinni 1949, og var það allt of lítið til þess, að hægt væri að innleysa þau sjóveð að fullu, en hjálpaði þó nokkuð.

Já, hv. þm. Ísaf. (FJ) minntist hér á stjórn skuldaskilasjóðs. Það er nú ekki búið að skipa hana enn þá, því að l. hafa nú ekki verið sett, og um það hvernig eigi að leysa sjóveðsmálið, get ég ekki gefið neinar upplýsingar, en hef gengið út frá því, að ef það verður ekki leyst á annan hátt, yrði það að gerast í sambandi við skuldaskilin og reynt yrði að sjá skuldaskilasjóði fyrir einhverjum peningum til þess að annast að minnsta kosti að einhverju leyti útborganir á slíkum kröfum.

Í sambandi við það, hvort fyrir liggi skýrslur um sjóveðin, eins og hv. þm. Ísaf. talaði um, þá er mér nær að halda, að svo sé ekki. Það liggja ekki fyrir skýrslur um sjóveðin, sem séu aðgengilegar á mjög skömmum tíma; þessum skýrslum hefur aldrei verið safnað að þessu sinni. Að vísu auglýsti skilanefnd á sínum tíma eftir lista yfir kröfur á hendur útgerðarmönnum, sem sótt höfðu um aðstoð, og þá hafa þessar kröfur að sjálfsögðu komið inn ásamt öðrum kröfum. Þó er ég hræddur um, að þar sé nokkur vöntun, þó að fresturinn sé liðinn, og gæti ég trúað, að eitthvað vantaði af sjóveðskröfum. Þar að auki er þess að gæta, að kröfunum er þannig lýst, að það er ekki gott að átta sig á því í skjótri svipan, hvaða kröfur eru vegna manna frá síðustu síldarvertíð. En hins vegar get ég vel trúað því, að þessar kröfulýsingar séu helztu gögnin, sem til eru um þetta frá síðasta sumri, en aðeins varðandi þá útvegsmenn, sem aðstoðarlán hafa fengið.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Því miður er hæstv. atvmrh. ekki hér við, af ástæðum, sem greindar hafa verið, en ég held, að mér sé óhætt að fullyrða það, að hæstv. ráðh. hafi tekið, eins og ég sagði áður, þetta mál til rækilegrar athugunar, eftir að það var afgr. hér frá d., og að þær till., sem hann bar fram í Ed., hafi verið niðurstaðan af þeirri athugun og þá raunar hans afstaða í málinu. Ég óttast, ef farið væri nú að samþ. nýjar brtt. í þessari hv. d., að þá mundi það tefja málið. Þess vegna teldi ég mjög æskilegt, að það væri ekki gert, án þess að ég ræði efni þeirra að öðru leyti. Framkvæmd þessara skuldaskilamála er tvímælalaust nokkuð undir því komin, að ríkisstj. eða stjórn skuldaskilasjóðs takist að afla nauðsynlegs fjár til þessara hluta, og það verður náttúrlega að sýna sig, hvernig það gengur, en löggjöfin er lítils virði, ef ekki tekst að afla þess nauðsynlega fjár, sem afla þarf. — Ég skal svo ekki hafa þetta lengra, en held að það væri réttast, með tilliti til þeirra, sem eiga að njóta góðs af samþykkt frv., að samþ. það eins og það nú liggur fyrir.