18.12.1950
Neðri deild: 44. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

121. mál, almannatryggingar

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það er sjálfsagt full ástæða til, að Tryggingastofnunin fái sitt framlag greitt bæði frá einstaklingum og bæjarfélögum, og frá sjónarmiði bæjarfélaganna er það óeðlilegt, að þau skuldi Tryggingastofnuninni, því að þau fá flest meira út úr Tryggingastofnuninni til sinna meðlima heldur en þau greiða til hennar. Hins vegar tel ég mjög vafasamt að setja þau ákvæði, sem hér er farið fram á, því að hæstv. ríkisstj. hefur aðstöðu til þess að gera allt, sem gera þarf, til þess að innheimtan sé í lagi. Ég held og, að ríkisstj. beri gagnvart Tryggingastofnuninni ábyrgð á framlagi sveitafélaganna, og í l. um eftirlit með sveitarfélögum, IV. kafla, 29. gr., segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú vanrækir sveitarfélag fjárhagsskuldbindingar sínar við ríkissjóð eða skuldbindingar, sem ríkissjóður ber ábyrgð á, og ekki hefur tekizt við ítrekaðar tilraunir að ráða bót á þessum misfellum, og getur þá ráðherra ákveðið, að sveitarfélag skuli sett undir eftirlit samkv. lögum þessum, að liðnum 6 mánuðum frá tilkynningu ráðuneytis þar að lútandi, sé skuldin eigi greidd innan þess tíma.“

Í annan stað segir í 34. gr.: „Þegar sveitarfélag hefur verið sett undir eftirlit og notið aðstoðar samkv. 36. gr., getur ráðherra ákveðið, að fjármál sveitarfélagsins skuli háð samþykki eftirlitsmanns sveitarstjórnarmálefna. Getur eftirlitsmaður þá, ef ekki næst samkomulag um meðferð fjármála sveitarfélagsins milli eftirlitsmanns og sveitarstjórnar, tekið í sínar hendur innheimtu allra tekna. Enn fremur hefur hann þá einn rétt til að ávísa fé úr sveitarsjóði og skuldbinda sveitarfélagið á annan hátt fjárhagslega, nema um annað semjist við sveitarstjórn.“

Samfara því, að sveitarfélagið er sett undir eftirlit, þá mundi hvíla sú skylda á ríkisstj. að láta athuga greiðslumöguleika þess yfirleitt, og er um þetta allt nánar til tekið í lögunum. Hitt, að ríkisstj. taki til sín útsvör ákveðinna stofnana, án þess að athugun á fjárhag sveitarfélagsins sé gerð samtímis, er óviðunandi harðýðgi. Það er réttara bæði fyrir ríkisstj. og sveitarfélögin, að heildarathugun fari fram á greiðslugetu sveitarfélaganna, heldur ~n sett verði þau ákvæði, sem felast í brtt. hv. n. Ég sé ekki nauðsyn þess að setja um þetta sérstök ákvæði, því að í l. um eftirlit með sveitarfélögum eru svo ýtarleg ákvæði, að ekki þarf um að bæta. Ég hef ekki hugsað mér að tefja málið með löngum ræðum, en vænti þess eindregið, að hv. heilbr.- og félmn. taki til athugunar það, sem ég nú hef sagt, heldur en að leggja til að taka tekjur sveitarfélaganna án þess að athuga, hvort sveitarfélögin geta misst þessa tekjustofna. Ég sem fulltrúi sveitarfélags, sem er í vanda statt, verð að mótmæla fram kominni till., því að þótt ég sé allur af vilja gerður fyrir Tryggingastofnunina, þá sé ég ekkert vit í að samþ. till. hv. n.