30.11.1950
Neðri deild: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (2253)

61. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er nú ekki margt, sem mér finnst ástæða til að svara, því að þeir tveir ræðumenn, sem hafa andmælt frv., hafa lítið komið inn á aðalatriði málsins, þ.e. hvað er í húfi, ef ekki er mögulegt að verða við óskum þeirra, sem eiga allt undir því, að dragnótaveiðin eyðileggi ekki miðin. Hv. minni hl. lagði áherzlu á, að því verði ekki breytt, að það verði að vera shlj. meðmæli Fiskifélags Íslands og fiskideildar atvinnudeildar Háskóla Íslands, ef ráðh. geti staðfest heimild til friðunar. Það er fjarri mér að gera á nokkurn hátt lítið úr þessum stofnunum eða kasta neinni rýrð á þær. En ég tel og vil draga það fram, að það mun vera svo, að forstöðumaður þessarar deildar hefur sérstöðu í þessum efnum, en hún er sú, að hann lítur meira á það, hvort friðunar sé þörf vegna þess, að á því svæði sé verið að uppræta flatfiskinn, en lítur minna á það, hvort sjómenn eiga yfir höfði sér eyðileggingu miðanna. Hv. 2. landsk. staðfesti þetta álit. Þegar atvinnudeildin tekur ákvörðun undir forustu þessa mæta manns, er meira hugsað um þetta. Og það er þetta, sem við flm. frv. viljum koma í veg fyrir, að geti staðið í vegi fyrir heilbrigðu mati hlutaðeigandi ráðherra.

En hv. frsm. minni hl. færði sig dýpra á miðin en ég tel ástæðu til. Hann talaði um allt landgrunnið, — mig minnir, að hann hafi sagt, að það væri 1/5 hl. þess, sem dragnótabátarnir fara yfir, — svo að það væri ekki hundrað í hættunni, þótt þeir fengju að halda sinni aðferð. En það er ekki verið að ræða um landgrunnið, heldur hvort eigi að láta sjómennina haldast þar við, sem þeir vilja stunda sína atvinnu. Það er því mikið af landgrunninu, sem dragnótabátar fá að fara yfir samt vegna þessarar heimildar.

Hv. 2. landsk. sló því fram, að þm. væru svo illa að sér í þessum efnum, að þeim veitti ekki af að hlusta á fyrirlestur um þessi mál. Ég dreg nú í efa, að hægt sé að bera þm. á brýn, að þeir séu svo vankunnandi í þessum efnum, að það þurfi að segja þeim, að það séu ekki stærri bátar en 35 tonn, sem dragnótaveiðar stunda. En hvað þýða þeir á innfjarðarmiðin? Ég vil fullyrða, að þeir séu eins hættulegir á þeim slóðum og togararnir á djúpinu. Þessi hv. þm., 2. landsk., sagði, að þeim væri bönnuð veiði 51/2–61/2 mán. á ári. Ég veit, að það getur skipt miklu máli, hvenær þeir mega veiða, en það er einmitt á þeim tíma, sem smábátaveiði er stunduð t.d. eystra. En þó að þeim væri heimilt að veiða um sumarmánuðina, þegar fískur gengur ekki á grunnin t.d. eystra, væri það allt annað mál, svo að þetta er ekki nein ástæða til að vera á móti þessu frv. — Hv. 2. landsk. sagði einnig, að á hlutaðeigandi stað væri hægt að friða svæði með samþykkt viðkomandi sýslunefndar. Ég dreg enga dul á, að þetta sé rétt, og e.t.v. væri rétt að gera þessa heimild víðtækari og út fyrir hafnarsvæðin. En svo skellir hv. þm. inn í hafnarsvæðin á flestum fjörðum og víkum. Þetta hlýtur að vera sagt út í bláinn. Hver, sem þekkir til á svæðunum kringum land, veit, að sáratakmörkuð svæði eru hafnarsvæði, og þótt friðun sé sjálfsögð, þá finnast þess fá dæmi, að slíkt ráði úrslitum, og því síður er um það að ræða, að víkur falli undir hafnarsvæði. En þessar víkur, sem hafa ákaflega mikla þýðingu fyrir aflamöguleika sjómanna, þarf að vera hægt að friða.

Hv. 2. landsk. sagði í lok ræðu sinnar eitthvað á þá leið, að ef flm. þessa frv. hefðu aðeins bundið sig við þessi tvö svæði, sem nefnd eru í greinargerð frv., þá gæti hann sætt sig við, að þau væru friðuð, en ekki önnur. Þetta er fjarri öllu lagi og fjarri tilætlun frv., því að það er ekki tilætlun flm. með þessu frv. að gera upp á milli einstakra svæða.