17.01.1951
Neðri deild: 51. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (2347)

77. mál, jeppabifreiðar o.fl.

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég get vel verið sammála óskum þeirra hv. þm., sem fara fram á það nú, að þessari umr. verði frestað að sinni.

Hins vegar lít ég svo á það, sem hv. 2. þm. Rang. telur, að frv. hafi breytzt allverulega á verri veg í hv. Ed., með því að fellt var úr því ákvæði, sem hann vill láta koma inn í frv., að það sé ekki svo mikið atriði, að ástæða sé til þess vegna að fara að hrekja frv. á milli deilda. Því að það er nú einu sinni þannig, að meðan þessi lög eiga að vera í gildi, þá verður aldrei hægt að fyrirbyggja það, að þeir, sem um framkvæmd þessara mála eiga að sjá, verði að hafa að einhverju leyti frjálsar hendur um úthlutun jeppabifreiða og dráttarvéla. Og ég sé ekki, að þessi orðalagsbreyt., sem hefur orðið á frv. í hv. Ed., sem hv. 2. þm. Rang. talaði um, raski neitt þeirri skoðun, sem ríkti um það í hv. Nd., heldur megi vel við það una, þó þessu hafi svona verið breytt. Og ég legg ekki það mikla áherzlu á þetta atriði, að ég sjái ástæðu til þess, að frv. verði nokkuð breytt í þessari hv. d.