02.02.1951
Efri deild: 60. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (2444)

173. mál, gengisskráning o.fl.

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Það eru aðeins örfá orð, herra forseti. Það er eiginlega ekki ástæða til að bæta neinu við það, sem stendur í grg., og þá glöggu ræðu, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. (BSt) hefur flutt um frv. Ég vil aðeins staðfesta það, sem kom fram hjá honum, að ríkisstj. stendur öll að þessu frv. Hæstv. viðskmrh. er veikur og getur því ekki flutt þetta mál hér, eins og hann annars hefði gert, þar sem það heyrir sérstaklega undir hans verksvið.

Ég mun aðeins fara örfáum orðum um þetta mál, þótt það sé í raun og veru óþarfi, því að það liggur svo ljóst fyrir að öllu leyti. Það orkar ekki tvímælis, hver var tilgangur l. í vetur, þegar breyt. var gerð á gengisskráningarl. Hann var sá, — eins og glögglega er fram tekið í grg. frv. og af hv. frsm. meiri hl. fjhn. (BSt), — að sambandið skyldi rofið milli vísitölunnar og kaupgjaldsins. Eins og hv. frsm. meiri hl. n. tók fram, var þetta viðurkennt af öllum, bæði þeim, sem fylgdu frv., og andstæðingum, sem mótmæltu því einmitt á þessum grundvelli. Það orkar því ekki tvímælis, hvernig málið lá fyrir Alþ. í vetur, þegar breyt. á l. var gerð. En nú hefur komið fram sá skilningur hjá stjórn Alþýðusambandsins og hún látið það boð út ganga til félagsmeðlima sinna, að hún líti svo á, að þar sem það sé í kjarasamningum, að kaupgjald skuli tengt vísitölunni, sé það ákvæði enn í gildi, þrátt fyrir hin skýru ákvæði l. frá í vetur um, að laun megi ekki hækka fram yfir kaupgjaldsvísitöluna 123. En þar sem atvinnurekendur hafa lýst sig andvíga þessum skilningi l. og það hefur komið fram, að nokkur ágreiningur væri meðal lögfræðinga um þetta atriði, þótt ríkisstj. telji ótvírætt, að 1. frá í vetur kveði nægilega skýrt á um þau atriði, sem hér um ræðir, þá telur hún sjálfsagt að láta Alþ. nú fá tækifæri til þess að taka skýra afstöðu til þessa máls, það sama Alþ. sem setti l. um þetta efni í vetur, og það er af þeirri ástæðu, sem ríkisstj. óskar eftir viljayfirlýsingu um það, hvað það meinti með l. í vetur. Með þessu frv. er ekki gerð nein breyt. frá því, sem gerð var í vetur, en frv. er aðeins flutt til þess að taka af öll tvímæli, svo að ekki þurfi að koma til árekstra eða málaferla út af þessum ákvæðum. Þar sem Alþ. situr nú að störfum, er sjálfsagt, að það eitt skeri úr um skilning sinn á þessu atriði nú. Ég vil. undirstrika það, að ríkisstj. kemur ekki með neitt nýtt atriði fram í þessu sambandi.

2. gr. frv. er að því leyti nýtt atriði, að það var ekki fjallað um það í frv. ríkisstj. í vetur, og er því ekkert ákvæði um það í l., sem þá voru sett. Það varðar verðlag landbúnaðarafurða, en er í raun og veru náskylt hinu atriðinu að því leyti, að það hefur komið í ljós, að um það er nokkur ágreiningur, hvernig beri að skilja ákvæði gengisskráningarl. í sambandi við verðlagningu landbúnaðarafurða. L. um verðlag landbúnaðarafurða frá 1943 kveða svo á, að einu sinni á ári skuli verðlag þeirra ákveðið samkvæmt þeim reglum, sem þar eru skráðar. Hins vegar hafa ýmsir, og þar á meðal framleiðsluráð landbúnaðarins, álitið, að með gengisskráningarl. í fyrra, sérstaklega 9. gr. l., sé veittur réttur til þess að mega verðleggja landbúnaðarafurðir eftir öðrum reglum en gilt hafa samkvæmt ákvæðum l. um verðlagningu landbúnaðarafurða og megi nú taka tillit til kaupgjaldsbreytinga, sem verða á árinu, og er hér sérstaklega um að ræða hækkun á verði mjólkurafurða. Krafa framleiðsluráðs fyrir hönd bænda, sem mjólkurframleiðslu stunda, var sú, að það mætti taka tillit til hækkaðrar kaupgjaldsvísitölu í vetur úr 115 í 123 stig og hækka það, sem kallað er kaup bóndans, hlutfallslega sem því nemur, og nam það samkvæmt útreikningum, sem fyrir lágu, um 12 aurum á hvern mjólkurlítra. Auk þess töldu þeir sig hafa rétt til þess að hækka mjólkurverð sem svarar dreifingar- og vinnslukostnaði innanlands, þ.e. dreifingarkostnaði frá því mjólkin er komin í mjólkurbú. Flutningskostnaður frá heimili til mjólkurbús kemur ekki þar undir, en er talinn í því verði, sem bóndinn fær. Það er enginn ágreiningur um það, að framleiðsluráð landbúnaðarins hafi ekki rétt til þess að hækka mjólkurverð að því er snertir dreifingar- og vinnslukostnað. Það hefur verið gert öll þau ár síðan l. um verðlag landbúnaðarafurða voru sett, og mun sú hækkun svara um 3 aurum á hvern lítra. Hins vegar lítur ríkisstj. svo á, að réttur framleiðsluráðs til að hækka mjólkurverð vegna þeirra kaupgjaldsbreyt., sem urðu í vetur, sé ekki fyrir hendi. Nú hefur það sama komið fram og um hitt atriðið, sem 1. gr. fjallar um, að það eru nokkuð skiptar skoðanir um þetta atriði og lögfræðingar, sem um þetta hafa fjallað, eru ekki á einu máli um það, hvort bóndinn eða framleiðsluráð hafi þennan rétt eða ekki. Það lék vafi á að sumra áliti, hvernig dómstólarnir mundu dæma, ef ágreiningur risi upp og málin yrðu lögð fyrir dómstólana. Viðvíkjandi þessari grein telur ríkisstj. engin tvímæli á vera, en hún hefur þó viljað bera fram skýrari ákvæði um þessa grein, svo að enginn þurfi að vera í vafa um skilning hennar. Verðlagningu landbúnaðarafurða verður ekki breytt, nema til komi nýr verðlagsgrundvöllur landbúnaðarafurða.

Ég sé nú ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Frv. liggur ljóst fyrir. Það er aðeins farið fram á, að Alþingi úrskurði um atriði, sem sumir álíta að gætu orkað tvímælis. Deilur um þessi atriði né málaferli gætu ekki orðið neinum til góðs. — Mér virðist þetta vera góð spegilmynd af okkar harmonikukerfi í kaupgjaldsmálum. Hvað gerðist, ef Alþýðusambandið fengi kauphækkun og framleiðendur landbúnaðarafurða fengju sinn skilning viðurkenndan og þá hækkun mjólkurverðsins? Það, sem almenningur fengi þá í launahækkun, mundi fara til þess að greiða mjólkurhækkunina. Heilbrigðu atvinnulífi mundi blæða, og með því mundi öllu okkar atvinnulífi vera hætt. Það er minn dómur, að þetta frv. sé ljós mynd af vitleysunni, ef þannig á að spinna hlutina upp, ekki neinum til gagns. Það má deila um það, hvort ekki hefði átt að láta þessa aðila leita úrskurðar eftir lögunum. Það er ekki mitt að dæma um skilning laganna, en hitt orkar þó ekki tvímælis, að ef þessir aðilar, Alþýðusamband Ísl. og framleiðsluráðið, hefðu fengið kröfum sínum framgengt, mundu kauphækkanirnar hafa étið sig upp með verðhækkunum.

Vil ég þá ekki hafa þessi orð fleiri, en það eru vinsamleg tilmæli ríkisstj., að þetta frv. megi fá greiðlega afgreiðslu, því að það hlýtur að vera bezt að fá úr þessu skorið sem fyrst, hvernig með þessi mál skuli fara, og af því vill ríkisstj. flýta málinu.