26.02.1951
Neðri deild: 74. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (2629)

185. mál, landshöfn í Rifi

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég ætla að bæta hér við örfáum orðum í tilefni af ræðu hv. þm. Snæf. Hann vitnaði til þess, að einu sinni áður hefði verið flutt hér frv. um landshöfn í Rifi og þess vegna mundi þm. ekki vera málið ókunnugt nú. Jú, ég minnist þess, að til var á sínum tíma skemmtileg saga um það hér í þinginu, að frv. nokkurt fluttist á dularfullan hátt úr skúffu eins ráðh. og kem fram hjá öðrum, og man ég vel eftir þessu, því að ég var þá kominn í þessa hv. d. En ég hafði ætlað, þó að áætlun um slíkar framkvæmdir væri gerð og birt á þessum tíma, í lok síðasta stríðs, þá mundi nú þurfa að endurskoða hana. Verðlagsbreytingar hafa orðið miklar á þessum tíma. og svo hefur ef til vill eitthvað verið gert á staðnum sjálfum. Og þó að þm. leituðu nú uppi gömul skjöl varðandi þetta mál, þá mundu þau varla vera áreiðanleg heimild um málið eins og það liggur fyrir nú í dag.

Hv. þm. Snæf. lét þau orð falla, að fyrirhugað væri að hefja þarna framkvæmdir á næsta vori, og virtist liggja í orðunum, að mál þetta hefði verið í undirbúningi nú í alllangan tíma.

Ég benti á það hér í d., að það væri ófrávíkjanleg regla, að Alþ. setti l. um slíkar framkvæmdir sem þessar, en l. um landshöfn í Rifi eru ekki til staðar. Mér finnast ummæli hv. þm. Snæf. staðfesta það, sem ég sagði í síðustu ræðu minni, að mál þetta hefði ekki borið svo skjótt að. að betri gögn hefðu ekki getað legið fyrir varðandi það. Ég er honum þakklátur fyrir upplýsingar þær, sem hann gaf um land undir höfnina, sem mér skilst að sé orðið ríkiseian, og var mér ekki kunnugt um það atriði áður. Ég hef ekki hugsað mér að sýna þessu máli neina andúð. enda hefur það ekki verið tafið hér, því að örfáir dagar eru síðan bað var lagt hér fram, og hefur það verið tekið hér fyrir með afbrigðum, en ég vildi aðeins láta álit mitt koma fram.