02.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

171. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara. Mér líkar frv. ekki og er að mörgu leyti óánægður með það. Sérstaklega er ég óánægður með það, hve litlar skyldur eru lagðar á útlendinginn, sem hingað kemur og tvímælalaust á að bera eins miklar skyldur og maðurinn, sem hann vinnur hjá. Þá er ég líka mjög óánægður með það, að í frv., eins og það er, er ekki tekið neitt tillit til hópa af námsfólki, t.d. stúdenta, sem hingað koma á sumrin og ætla sér að dvelja svo sem 2–3 mánuði eða jafnvel ekki lengur en einn mánuð á sveitaheimilum og vinna þar einhver létt störf, óg kostar þá yfirleitt, með þeim seinagangi, sem er á öllu í stjórnarráðinu, — því að það er ekki lestagangur, það er margfalt hægari gangur, — ærinn tíma og fyrirhöfn að útvega þessu fólki atvinnuleyfi. Hingað koma t.d. árlega 10–20 stúdentar frá Englandi, sem eru í vinnu meira eða minna án nokkurrar þóknunar. Hefði verið hægt að búa svo um hnútana í frv., að þetta yrði gert auðveldara, og það tel ég, að hefði átt að gera.

Þá eru einnig mjög miklar tálmanir á vegi þeirra manna útlendra, sem koma hingað til lands til þess að setja upp vélasamstæður og prófa þær, þar sem kostnaður við uppsetninguna er innifalinn í kaupverði vélanna. Það tekur þá oft æðilangan tíma að útvega slík leyfi í stjórnarráðinu, það getur tekið hálfan mánuð, og þetta eru allt of dýrir menn til þess að bíða eftir slíku. Ég hefði því viljað leggja til, að þessir menn mættu líka hafa undanþágu.

Þetta og fleira er ég óánægður með í frv. Hefði verið ákaflega æskilegt, að meiri samvinna hefði verið höfð við þá aðila, sem um þetta eiga sérstaklega að fjalla, þar sem ekki hefur verið komið inn ýmsum þeim ákvæðum, sem útlendingaeftirlitið telur að sé bráðnauðsynlegt að koma inn í frv. Að vísu hefur með þessum brtt. verið tekið upp nokkuð af þeim sjónarmiðum, sem þeir vildu fá inn, en ekki nærri því nóg. Ég mun þó, þrátt fyrir það að ég er óánægður með frv., fylgja því, en í því trausti, að reynt verði fyrir næsta þing af félmrn. að ná fullu samkomulagi um breyt. á þessum l. milli þeirra, sem að þessu vinna og þekkja þetta vel, og hinna, sem yfir þá eru settir og vita miklu minna um það, hvernig l. eigi að vera til þess að koma að notum, og þá tekið tillit til þeirra laga, sem gilda nú hjá okkur um þetta efni, sem ekki er gert nema að nokkru leyti eins og frv. er. Ég óska sem sagt eftir, að frv. verði fyrir næsta þing breytt í það horf, sem þessir aðilar, sem mest hafa með þetta að gera, telja nauðsynlegt, til þess að þeir geti unnið sitt verk eins og bezt hentar og þeir telja, að almenningi komi bezt að notum.