30.01.1951
Efri deild: 58. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (2717)

156. mál, almannatryggingar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það hefur verið tekið dauflega undir till. mínar í þessu máli, og skal ég ekki sækja það fast á þessu stigi málsins. En ég vil benda á það, að mótbárur hv. 4. þm. Reykv. gegn þeim eru haldlausar. Hv. þm. sagði, að ef gjald hvers einstaklings væri mishátt, þá gætu þeir gert misháar kröfur til trygginganna, en hv. þm. gleymir því bara, að þessu er nú á þann veg farið í raun og veru, þó að verið sé að reyna að leyna því fyrir almenningi. Það, sem skeður, er það, að sveitarsjóðirnir innheimta fyrir tryggingarnar, því að engin ástæða er til þess, að sveitarsjóðirnir greiði sjálfir nokkuð til trygginganna, heldur er hér verið að dreifa gjöldunum, svo að Tryggingastofnunin verði ekki óvinsæl, hér er því um að ræða feluleik til að hylja það, hvað raunverulega er goldið til trygginganna, en ekki það, að gjöld einstaklinga til trygginganna séu öll jafnhá, en að halda slíku fram er hin mesta fjarstæða. Það mundi því koma alveg í sama stað niður, þó að þeim hluta, sem sveitarsjóðirnir greiða nú til almannatrygginganna, væri jafnað niður eftir sama skattstiga á þegnana eins og þeir greiða nú þessi gjöld eftir, þannig að hærri gjaldendur mundu greiða hærra gjald en hinir, sem minna mundu telja fram. Ég sé ekki, að annar munur sé á þessu en sá, að Tryggingastofnunin innheimti allt sjálf og gjaldendurnir sjái, hvað þeir verða að greiða í þessu skyni. Ég get vel skilið, að hv. 4. þm. Reykv., sem er forstjóri Tryggingastofnunarinnar, vilji láta þær óvinsældir, sem af því stafa að innheimta gjöld til stofnunarinnar, lenda á öðrum, en ég held, að aðrir vilji ekki til lengdar una við það að taka á sig óvinsældir þær, sem af innheimtu þessari leiðir. Ég er ekki með þessu móti að ráðast á tryggingarnar, því að þær eru mjög gagnlegar. En ég get ekki séð, að það, sem hv. 4. þm. Reykv. færði fram gegn till. mínum, hafi við nein rök að styðjast. Viðvíkjandi brtt. hv. minni hl. heilbr.- og félinn. varðandi þetta atriði, þá sé ég ekki, að hún sé til neinna bóta, og mun ég því greiða atkv. bæði gegn frvgr. og brtt.