12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (2792)

76. mál, áfengislög

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Af því að ég er meðflm. að frv., sem hér er til umr., vil ég láta í ljós, að mér finnst ekki rétt að tefja þetta frv., sem virðist vera komið vel á veg í d., með því að taka upp þetta stóra mál, sem þessi litla till. fjallar um. Ég get tekið það fram fyrir mig persónulega, að ég álit nauðsynlegt að taka þetta mál til athugunar, er till. fjallar um, vegna þess að þessi vínveitingamál hér í bænum eru komin út í hreinustu öfgar. Það virðist vera svo, að svo að segja hvert samkomuhús hér í bænum, sem heldur samkomur, geti haft vínveitingaleyfi og selt vín ótakmarkað. En þó finnst mér skörin færast upp í bekkinn í þessum efnum, þegar þau samkomuhús hér í bænum, sem annars eru ætluð til samkomuhalds, setja félögum það skilyrði, að þau fái ekki húsið til afnota nema vínveitingaleyfi fylgi með. Þetta hefur m.a. komið fram í blöðum undanfarið í sambandi við íþróttafélögin, og það er ekki öll sagan sögð að því er snertir ámælið á þau í þessu sambandi, vegna þess að fjöldinn af þessum húsum hefur sett þeim það skilyrði, að þau verði annaðhvort að sætta sig við það að fá ekki húsnæði eða hafa vínveitingaleyfi. En þegar þetta er komið út á þessa braut, þá virðist vera fullkomin ástæða til þess, að reynt sé að stinga við fótum. Hins vegar er það frá mínu sjónarmiði allt of þröngt eins og nú er komið og verður ekki hægt að framfylgja því, eins og fram var tekið af hv. 5. þm. Reykv., að hafa á einu veitingahúsi vínsölu meðan ríkið selur áfengi ótakmarkað. Þess vegna tel ég ekki, þó ég sé mjög fylgjandi því að þetta mál sé tekið upp, að það verði leyst með því að samþ. þessa brtt. Hitt væri eðlilegra, að taka málið fyrir í heild, og væri þá rétt fyrir hv. flmn. að flytja um það stutt frv. til þess að það þyrfti ekki að tefja það frv., sem hér liggur fyrir. Þannig mundi málið fá gaumgæfilega athugun, og ég sé ekki, að hægt sé að komast hjá því að gefa einhverjum ákveðnum stöðum vínveitingaleyfi, en það er allt önnur aðstaða en nú er, þar sem hver hola getur fengið ótakmarkað vínveitingaleyfi undir því yfirskini, að eitthvert félag haldi þar samkomu. Þess vegna vil ég taka það fram, að þó að ég sé á móti þessari till. á þessu stigi í sambandi við þetta frv., þá tel ég, að þessi mál þurfi að taka upp og koma þeim í skynsamlegra horf en nú er.