26.02.1951
Efri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (2873)

76. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Mér þykir ákaflega einkennileg meðferðin á þessu máli hjá form. allshn. þessarar hv. d. Ég treysti form. allshn. til að leita þessara upplýsinga, áður en endanlega yrði gengið frá málinu. Síðan er liðinn heill virkur dagur, laugardagurinn, og hefði verið nægur tími til þess að koma bréfi til viðkomandi aðila á laugardagseftirmiðdaginn, því að eftir minningarguðsþjónustuna voru meðal annars gefin út þingskjöl hér á Alþ. og unnið í öðrum málum, og þá hlutu að geta legið hér fyrir þessum fundi alveg ákveðin svör þessara manna. Mér finnst þetta mjög einkennileg vinnubrögð, að ef form. einnar n. er á móti einu máli, þá taki hann sér það vald að vanrækja að leita upplýsinga um málið, sem hv. Ed. frestar að taka afstöðu til, þar til umsagnirnar liggja fyrir. Þetta er svo mikil fjarstæða, að það kemur ekki til mála, að hæstv. forseti liði svona vinnubrögð, og leyfi ég mér að mælast til þess, að umr. um málið verði frestað, til þess að form. n. geti aflað sér þeirra umsagna, sem vantar, og vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann taki ekki málið á dagskrá, fyrr en þær umsagnir liggja fyrir.

Um hitt vil ég aðeins segja, að það eru einkennileg rök að halda því fram, að málinu sé stefnt í hættu með því að breyta því í sæmilegt horf. Það eru einkennilegir menn í Nd., ef þeir ganga á móti frv., eftir að búið er að færa það í það horf, sem Alþ. er sómi að. Það er því fjarstæða að vera að lokka menn til fylgis við málið nú í þeim búningi, að Alþ. væri til vansæmdar að samþ. það.