23.01.1951
Efri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (3051)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Út af ræðu hv. 11. landsk. þm. datt mér í hug, hvort svo ætlaði að fara, að svo brygðust krosstré sem önnur. Því að mér hafði skilizt áður, að hann væri með dagskrártill. minni sem brtt. við dagskrártill. hv. þm. Barð. Og ég vona, að svo sé enn, þrátt fyrir ummæli hans um till. hv. þm. Vestm. (ÞÞ: Ég sagði, að það, sem hv. 4. þm. Reykv. vildi, fengist fram með till. hv. þm. Vestm.) Það er misskilningur, því að það er sitt hvað, að vísa máli frá með rökst. dagskrá með vissum ábendingum eða hitt, að vísa máli til ríkisstj. án þess.

Þá vildi ég segja það, að ég hef ekki slitið ummæli hv. þm. Barð. úr samhengi. Hitt kann að vera, að samhengið í ræðu þess hv. þm. hafi ekkert verið, en það er þá ekki mín sök, heldur hv. þm. sjálfs. — Það er heldur ekki rétt, að ég hafi sagt, að hv. þm. Barð. hafi sagt, að Alþýðublaðið væri vont blað. Ég sagði, að hann áliti það. Nú hefur hann sagt, að það sé ómerkilegt og að hann hafi áður sagt það og að hann læsi það með fyrirlitningu. — En ég á erfitt með að skilja sannanir þessa hv. þm. nú eins og stundum áður.