07.11.1950
Efri deild: 16. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (3088)

71. mál, lyfjalög

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það er nú auðséð, að það er orðið tímabært að setja nýja löggjöf um lyfjaverzlun, þar sem hér liggja fyrir tvö lagafrv. um þetta efni. Var öðru vísað til nefndar hér áðan, en hitt liggur fyrir til umræðu.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki samið af okkur flm. þess, heldur að tilhlutan Apótekarafélags Íslands og Lyffræðingafélags Íslands, og við flm. skoðum okkar hlutverk svipað og þegar nefnd flytur frv. fyrir hæstv. ríkisstj., og áskiljum okkur rétt til að bera fram brtt. og vera með brtt., sem fram kunna að koma. Það voru ýmsar ástæður fyrir því, að við vildum verða við bón þessara aðila um að flytja frv., m. a. sú, að sú löggjöf, sem til er um þetta, er orðin úreit, og við sáum þörf á því að bæta þar úr. Að vísu var borið fram hér í fyrra frv. samið af landlækni, en það náði ekki fram að ganga, en við vissum ekki um, að það yrði borið fram aftur, og í öðru lagi eru ákvæði í því, sem við viljum ekki fallast á, t. d. ákvæði um ríkisverzlun lyfja, sem við teljum ekki heppilegt að setja á stofn. Við erum sammála um, að sú reynsla, sem fengizt hefur af ríkisverzlun, sé á þann veg, að ekki sé rétt að ástæðulausu að taka hana upp.

Frv. byggist á, að öll sala og innflutningur sé í höndum þeirra, sem fá til þess sérstaka heimild og bera ábyrgð á sínn starfi. Það eru að visu ákvæði í frv. um, að fleiri en fagmenn geti rekið lyfjabúð, en þó því aðeins að forstöðumennirnir séu lyfjafræðingar. Hvorugur okkar flm. er neinn sérfræðingur í þessum efnum, og skal ég ekki fara út í þetta nánar. Öðru frv. um sama efni var í dag vísað til nefndar. Ég vona, að deildin geti fallizt á, að þetta frv. fari til sömu nefndar. Að vísu geri ég ekki ráð fyrir, að sett verði tvenn lög þessa efnis, en hlutverk nefndarinnar verður þá að samræma þau sem bezt. Má vel fara svo, að við getum fallizt á, að eitthvert ákvæði í hinu frv. sé tekið í þetta eða öfugt, eftir því, hvort frv. verður lagt til grundvallar. Teljum við skylt, er upp verður gert á milli frv., að fara í þessum efnum að dæmi Ara fróða og hafa það, er sannara reynist við nánari athugun.

Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar, en legg til, að frv. verði vísað til heilbr.- og félmn.