19.02.1951
Efri deild: 74. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (3201)

109. mál, erfðalög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Eyf. fyrir þau orð, sem hafa fallið í sambandi við stofnun öryrkjahælis, og þá samúð, sem kom fram í ræðu hans með þessu frv. Mér finnst hins vegar, að dagskrártill., eins og hún liggur fyrir, bendi ekki til þess, að hún sé í neinum tengslum við þetta frv. sérstaklega. Ég veit ekki, hvort hv. þm. vildi breyta henni þannig að taka upp í hana ábendingu um, hvort gerlegt þætti að ráðstafa því fé, sem um er rætt í 1. gr. frv., eins og það er nú, til þess að koma upp öryrkjahæli, því að þar með væri dagskrártill. í tengslum við frv. mitt, en annars yrði hún slitin úr tengslum við þetta mál og gæti frekar átt við það frv., sem hér er óafgr. og hann minntist á. Ég get upplýst í sambandi við það frv., að það var sent til umsagnar Sambandi íslenzkra sveitarfélaga, og m. a. vegna þess, að í því er gert ráð fyrir að leggja allþunga byrði á sveitarsjóði í landinu, þá er ekki hugsanlegt, að það mál nái fram að ganga á þessu þingi. Mér hefur skilizt, að heilbr.- og félmn. hafi hugsað sér að senda það mál til sveitarstj. og ætli að undirbúa það fyrir næsta þing — og það jafnt fyrir það, þótt þessi dagskrártill. hefði ekki komið hér fram. Ég get ekki fellt mig við að afgr. málið á þann hátt, sem hv. 1. þm. Eyf. leggur til, og mun ekki greiða atkv. með dagskrártill. hans, þótt ég viðurkenni, að það frv., sem hér liggi fyrir, muni ekki ná fram að ganga á þessu þingi, þótt það nái samþykki þessarar hv. d. Ég vil þess vegna spyrja hv. 1. þm. Eyf. að því, hvort hann muni vilja gefa ábendingu um það í sambandi við dagskrártill., að erfðafjárskatturinn og það fé, sem rennur í ríkissjóð og engir löglegir erfingjar eru að, renni til þessa öryrkjahælis, því að þá væri sýnilegt, að dagskrártill. væri í beinu sambandi við þetta frv.