05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (3262)

96. mál, fjárhagsráð

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég verð að taka undir það með hv. 4. þm. Reykv., að mér finnst þetta alveg furðuleg vinnubrögð. Mér beinlínis krossbrá að hlusta á ræðu hv. frsm. Við höfum í fjhn. einróma lagt til, að frv. yrði samþ. Hv. frsm. er búinn að mæla með samþykkt frv. og meira að segja búinn að mæla með því, að við frv. verði ekki gerðar breytingar. Svo heyri ég nú, þegar ég hélt hann ætlaði að ítreka sína fyrri afstöðu, að þá er hann með till. til rökstuddrar dagskrár frá meiri hl. fjhn. Ég er nm. í hv. fjhn., en ég hef aldrei heyrt á þetta minnzt, og hef ég þó oft átt tal við hæstv. forseta um þetta mál, en hann hefur aldrei minnzt á þetta. Þetta er bókstaflega það furðulegasta, sem fyrir mig hefur komið, meðan ég hef setið á þingi. Svona vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar og óskandi, að þau endurtaki sig ekki. Þetta er alveg einsdæmi í minni reynslu. Hv. 1. þm. Eyf. var að mæla með þessari afgreiðslu í sinni ræðu og telja þetta jákvæða afgreiðslu og jákvæðari en að samþ. frv. Ég get ómögulega skilið það, að það sé jákvæðara að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá, þ. e. a. s. fella frv. Hvaða trygging er fyrir því, að 5. gr. í l. um fjárhagsráð verði framkvæmd eins og við ætlumst til? Hæstv. ríkisstj. hefur haft sinn skilning á þessari grein og framkvæmt hana þannig, að byggingar hafa verið stöðvaðar í landinu. Hvaða trygging er fyrir því, að hæstv. ríkisstj. hafi öðlazt annan skilning á þessari grein? Mér vitanlega hefur þar engin breyting á orðið. Í þessari till. stendur: „Í trausti þess, að ríkisstj. hlutist til um, að leyfi til fjárfestingar til bygginga almennt verði rýmkuð eftir því sem þörf er á og tiltækilegt þykir.“ Má ég nú spyrja þessa hv. þm.: Er það nú alveg víst, að það fari saman þörfin og það, sem tiltækilegt þykir? Reynslan hefur sýnt, hvað tiltækilegt þykir. Það eru 300 íbúðir. Það liggur fyrir, að þörfin er 1000 íbúðir, en takmarkað er við 300. Spurningin er, hvort fjárhagsráð á að halda áfram að neita um leyfi til íbúðarhúsabygginga eða ekki, hvort leyfilegt á að vera að byggja eftir þörfum eða ekki. Það er áreiðanlega engin ofrausn og algert sanngirnismál, að þetta frv. verði samþykkt.

Hér er fjárhagsráð farið að segja Alþingi fyrir verkum. Þegar svona kemur fyrir, er ekki hægt að skilja það öðruvísi en að fyrirskipun hafi komið frá öðrum aðilum, að það hafi verið gripið í spottann. Það hefur verið gripið í spottann, annaðhvort í stjórnarflokkunum eða ríkisstjórninni. Það er sú hliðin sem að þessum háttv. þm. snýr. Svo er annar aðili, sem virðist hafa sagt hæstv. ríkisstjórn og fjárhagsráði fyrir verkum. Fjárhagsráði var á sínum tíma sent þetta mál til umsagnar, og það mælti móti samþykkt þessa frv., eins og kunnugt er, og var m. a. sagt í áliti þess, að forráðamenn mótvirðissjóðs krefðust fyllsta yfirlits um það, til hvers fé hans væri notað, og það væri skilyrði fyrir fjárveitingum úr sjóðnum. Hverjir eru þessir forráðamenn? Það er ekki Alþingi, því að það er verið að vara Alþingi við forráðamönnum þessa sjóðs, en þessara forráðamanna á Alþingi að taka tillit til. Forráðamenn þessa sjóðs eru nefnilega í útlöndum. Það eru forráðamenn Marshallaðstoðarinnar svonefndu, eins og raunar allir vita. Eins og kunnugt er, má ekki nota fé mótvirðissjóðs, nema þessir herramenn samþykki. Hér er því blátt áfram um erlenda fyrirskipun að ræða.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að það væri algerlega rangt, að þær brtt., sem bornar eru fram af honum og hv. þm. S-Þ., hefðu verið bornar fram í þeim tilgangi að eyðileggja málið eða koma því til leiðar, að það næði ekki fram að ganga. Það kann að vera rétt, sem hann sagði, að þegar till. voru fluttar, hafi enginn vitað, að komið væri að þingslitum. En það er að minnsta kosti vitað nú, þegar þessi dagskrártill. er borin fram, að hún er fram borin til þess að drepa málið, koma því fyrir kattarnef á einhvern hátt. Það kann að vera alveg rétt, að hæstv. forseti hafi hugsað sér, að málið fengi einhverja afgreiðslu. Það er nú liðinn nokkur tími síðan nál. var skilað, á annan mánuð, og síðan hefur málið verið dregið á langinn undir því yfirskini, að hæstv. ríkisstj. væri að athuga málið. Það er nú sýnt, að sú athugun hefur farið í það að athuga, hvernig ætti að fara að því að koma málinu fyrir kattarnef. Og nú er leiðin fundin, og það er sú dagskrártill., sem hér hefur komið fram.

Mér finnst blátt áfram liggja við sómi Alþingis, að þetta frv. verði samþ. og dagskrártill. felld, því að það er beinlínis spurningin um það, hvort Alþingi á að ráða eða einhverjir aðrir utanaðkomandi aðilar.