23.10.1950
Efri deild: 5. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir þau svör, sem hann gaf við fsp. minni um það, eftir hvaða reglum þessari aðstoð væri úthlutað. Var svar hans á þá leið, að fénu væri úthlutað til hreppsn. á hverjum stað og að þær úthlutuðu því til íbúanna. En mér skildist, að hreppsn. hefðu engar reglur verið settar um það, hvernig þær skyldu haga sér eða að þeim bæri að taka tillit til efnahags manna. Nú hefur hv. 1. þm. N-M. upplýst, að honum sé kunnugt um, að hreppsn. hafi sums staðar úthlutað þessari aðstoð með tilliti til efnahags og ástæðna. En þar sem þetta er lagt á vald hlutaðeigandi hreppsn. án fyrirmæla frá ríkisstj., er það augljóst mál, að við úthlutun í hinum einstöku hreppsn. geta mjög mismunandi sjónarmið verið lögð til grundvallar, og tel ég þetta mjög óheppilegt. Ég álít, að betur færi á því, að hreppsn. væru gefin ákveðin fyrirmæli og reglur um úthlutunina.

Það eru hörmulegar upplýsingar, sem hv. 1. þm. N-M. gefur hér í hv. d. Mér skilst, ef öllu rósamáli er sleppt, að hann sé að segja okkur, að hann hafi raunverulega lagt kjördæmi sitt í stórkostlega hættu með þessum störfum sínum fyrir norðan, og ég verð að segja það, að mér finnst það mistök hjá hæstv. landbrh. að hafa hagað þessu þannig, ef upplýsingar hv. 1. þm. N-M. eru réttar og ágizkanir hans á fullum rökum reistar, en það verð ég að draga í efa. Rg hygg, að það sé svo með Norðmýlinga eins og aðra, að þeir kjósi heldur að skerða bústofn sinn nokkuð og fá fjárstyrk fyrir heldur en að skera hann niður með öllu. Betri er hálfur skaði en allur, og vissulega er betra fyrir bændur á þessum svæðum að fá 41/2 millj. kr. styrk heldur en ef þeir hefðu alveg verið látnir afskiptalausir. Mér er því nær að halda, að hv. 1. þm. N-M. hafi frekar unnið sér fylgi í kjördæmi sínu með þessum störfum heldur en óvinsældir, en í hvoru tilfellinu sem er væri æskilegast, að þetta mál hefði engin áhrif, hvorki til að veikja né styrkja aðstöðu hans í kjördæminu.

Þá fór hv. þm. út í samanburð á því, hver munur það væri fyrir bóndann að verða fyrir því að missa hey sín og sjómanninn og útgerðarmanninn hins vegar að verða fyrir aflabresti eitt sumar.

(PZ: Ég minntist ekki á útgerðarmenn.) Hann sagði, að fyrir bóndann þýddi þetta ekki aðeins tap á einu sumri, heldur líka tekjutap og útrýmingu á bústofni næstu ár. Það er nokkuð til í þessu, en þó ekki nema hálfur sannleikur. Hv. þm. gengur út frá því, sem ekki er rétt, að sá búpeningur, sem skorinn er niður, sé verðlaus, en okkur, sem kaupum afurðir bóndans, finnst annað. Ef bóndinn fækkar bústofni sínum um helming, fær hann fyrir það peninga, sem hann getur notað til þess að endurnýja bústofn sinn á næsta ári, en hvað hinn manninn snertir, sem verður fyrir aflabresti, þá er ekki víst, að hann eigi neitt til þess að leggja til hliðar í bili til þess að búa sig undir næsta ár. Svipað má segja um síldveiðimanninn, að hann notar tekjur sínar til þess að búa í haginn fyrir sig í framtíðinni. Það, sem ég á fyrst og fremst við, er það, að þótt bóndinn fækki bústofni sínum, er ekki beinlínis um fjárhagslegt tap að ræða, heldur er honum breytt í önnur verðmæti, sem síðar eru handbær til þess að afla framleiðsluverðmæta. Hins vegar er það rétt, að slíkt getur dregið úr tekjumöguleikum næsta sumar. En þessi hugleiðing hv. þm. leiðir til þess, að enn meiri ástæða er til að undirstrika, að um leið og ég lýsi ánægju minni yfir því, hversu hæstv. ríkisstj. var viðbragðsfljót til rannsóknar á ástandinu í þessum héruðum, að ég verð að harma, að hún hefur ekki verið jafnathugul á ástandið í öðrum héruðum landsins, sem hafa a.m.k. fengið jafnmikið áfall, t.d. Siglufjörður og fleiri staðir á Vestur- og Norðurlandi.