19.10.1950
Neðri deild: 5. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (3382)

14. mál, gengisskráning o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Það verður vafalaust mikið rætt um þetta mál, áður en lýkur, og sé ég ekki ástæðu til að fara ýtarlega út í það á þessu stigi málsins. Það er ekki við öðru að búast en sá flokkur, sem barðist öllum árum gegn gengisbreytingunni og síðan hefur reynt að eyðileggja öll jákvæð áhrif gengisbreytingarinnar, komi nú fram með tillögur, sem geta nú eyðilagt öll jákvæð áhrif gengisbreytingarinnar.

Háttv. frsm. talaði um, að hækkanir hefðu orðið miklu meiri en gert hefði verið ráð fyrir, en ég ætla aðeins að benda honum á það, að hann er ekki með öllu saklaus af þeirri reikningsskekkju, sem þar kemur fram. Hann gat um þá hættu, sem í því er fólgin fyrir launþega að knýja fram kauphækkanir, og mér skilst, að hann styðjist við álitsgerð hagfræðinga þeirra, er Alþýðusamband Íslands fékk til að rannsaka þessi mál. En nú er tilgangur þessa frv. að knýja fram hærra kaupgjald. Tilgangur gengislækkunarlaganna var að seinka þeim hækkunum, sem af gengisfellingunni leiddi; þetta er í samræmi við þann anda frv. að draga úr hækkunum, þar til jafnvægi næðist.

Það er ekki rétt, sem segir í grg., að reynslutími gengislækkunarinnar sé liðinn, áætlað var, að 1½ ár þyrfti til þess, að áhrif hennar kæmu öll að fullum notum, og nú er aðeins 1/3 þess tíma liðinn. Það var vitað, að almenningur yrði að taka á sig nokkrar byrðar, meðan jafnvægi væri að nást, og þann þátt áttu launþegar að taka, sem þeim yrði þó að fullu bætt síðar. En nú virðist flutningsm. vilja, að almenningur taki ekki á sig þessar byrðar.

Verðhækkanir hafa orðið meiri en gert var ráð fyrir, og fer ég ekki nánar út í það á þessu stigi málsins. Einmitt sú staðreynd, að hækkanir nú eru útflutningsframleiðslu landsmanna hættulegar, virðist mér enn meiri ástæða til að hamla á móti hraða þeirra og halda fast við þau ákvæði, sem telja hann, ef við viljum, að atvinnuvegirnir geti verið samkeppnisfærir. Og því verður ekki neitað, að aukahækkanir stofna atvinnuvegunum í hættu.

Hv. flm. sagði horfur í atvinnumálum alvarlegar, en hvernig væru horfurnar nú, ef gengisbreytingin hefði ekki verið gerð? Hinar slæmu atvinnuhorfur stafa af margs konar deilum og illu árferði, auk þess sem verð á útflutningsvörum hefur lækkað. Má t. d. geta þess, að verð á saltfiski hefur fallið um 20–25%. Þetta hefur ekki orðið vegna gengislækkunarinnar, heldur þrátt fyrir hana. Og þegar útflutningur landsmanna stendur svo illa að vígi, að hann berst í bökkum, — finnst mönnum þá rétt að koma fram með nýjar hækkanir nú?

Hv. flm. sagði, að grípa þyrfti til annarra úrbóta, þar sem gengislækkunin hefði brugðizt. En hvernig væri þá ástandið, ef gengislækkunin hefði ekki verið gerð? Ég hef ekki trú á, að sá flokkur, sem aldrei hefur komið með nein ráð til úrbóta, komi fram með þau nú.