05.03.1951
Neðri deild: 82. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (3522)

137. mál, fasteignamat

Frsm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Í þessu frv., eins og það liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að endurskoðun fasteignamatsins frá 1942 verði framkvæmd með þeim hætti, að ráðh. skipi 3 manna n. til þess að vinna að endurskoðun á fasteignamatinu, þ. e. a. s. að samræma gildandi fasteignamat þeim verðlagsbreytingum, sem orðið hafa í landinu frá því 1940, eins og það er orðað í 1. gr. frv. Síðan er gert ráð fyrir því, að þessi stjórnskipaða n. sendi skrá um fasteignamatið, með þeim breyt., sem á því hafa verið gerðar, til viðkomandi hreppa og bæjarfélaga, en hver bæjar- og sveitarstjórn kjósi 3 menn til að yfirfara mat landsn. í viðkomandi sveitar- og bæjarfélögum. Þessar kjörnu nefndir sveitar- og bæjarfélaga skulu gera á þessu leiðréttingu, ef um nafnaskekkjur er að ræða, og geta þær einnig gert rökstuddar till. til breyt. á matinu í heild til landsn., sem þá tekur lokaákvörðun um matið.

Þetta frv., sem upphaflega var flutt af fjhn. deildarinnar, hefur nú legið lengi til athugunar hjá n., eftir að því var vísað til 2. umr., og hefur n. flutt allmiklar brtt. við frv. á þskj. 756. Ég vil taka það fram þegar í upphafi, að einstakir nefndarmenn, sérstaklega hv. 2. þm. Reykv., létu uppi þá skoðun, að þeir mundu eins geta fellt sig við frv. í því formi, sem það nú er, þó að þeir gerðu ekki ágreining um að flytja þessar brtt. Enn fremur vil ég taka það fram, að þótt fjhn. flytji þessar brtt., þá hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til að flytja fleiri brtt. eða fylgja öðrum, sem fram kunna að koma.

Þessar brtt., sem n. leggur til á þskj. 756, eru í aðalatriðum um það að gera breyt. á þessari framkvæmd, þannig að hún verði með mjög svipuðum hætti og venja er til, þegar reglulegt fasteignamat fer fram, og eins og ákveðið er í gildandi fasteignamatsl. Við leggjum til með þessum brtt., að endurskoðunin byrji heima fyrir í hverju sýslu- og bæjarfélagi, þannig að skipuð verði 3 manna n. í hverju héraði, tveir eftir tilnefningu sýslu- eða bæjarstjórnar, en þriðji maðurinn, sem er formaður n., sé skipaður af fjmrh. án tilnefningar. Með þessum hætti eru skipaðar þær n., sem framkvæma hið reglulega fasteignamat samkv. l., og verður að teljast eðlilegt, að til þessarar endurskoðunar séu valdir menn með sama hætti og tíðkazt hefur, þegar um almennt fasteignamat er að ræða. Síðan er gert ráð fyrir, að ráðh. skipi 3 menn í yfirmatsn. eins og nú er ákveðið um í fasteignamatsl. Það má að vísu gera ráð fyrir því, að þessu fylgi einhver meiri kostnaður en ef frv. yrði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir, en það er ekki gert ráð fyrir því, að það verði nauðsynlegt fyrir fasteignamatsn. í hverju héraði að skoða allar fasteignir, eins og venja er til, þegar allsherjar fasteignamat fer fram. Við gerum ráð fyrir því í brtt., að það verði takmarkaður tími til að framkvæma matið, einmitt miðað við það, að hjá því verði komizt að láta fara fram þessa skoðun á hverri fasteign.

Vil ég þá víkja nokkrum orðum að efni einstakra brtt. n., eftir því sem ástæða þykir til. 1. gr. Þar eru aðeins almenn ákvæði um endurskoðun á fasteignamatinu í því skyni að samræma matið verðlagsbreyt. frá 1940, og er það samkv. því, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. fasteignamatsl. frá 1945.

Í næstu gr. eru ákvæði um nefndarskipun í hverju sýslu- og bæjarfélagi, sem ég hef áður gert að umtalsefni.

3. gr. er um yfirmatsnefnd.

Þá er 4. brtt. sem er við 4. gr., þar sem segir, að til grundvallar endurskoðun fasteignamatsins skuli héraðsn. leggja fasteignamat það, sem nú er í gildi, en til viðbótar því skulu metnar allar ræktunarframkvæmdir, sem gerðar hafa verið síðan síðasta fasteignamat fór fram, og einnig þau hús og mannvirki, er reist hafa verið á þessu tímabili.

Í 5. gr. er gert ráð fyrir því, að yfirmatsn. eða landsn. geri skrá um mat allra fasteigna í hverju sýslu- og bæjarfélagi eins og það er við gildistöku laga þessara, ásamt skrá um allar ræktunarumbætur skv. þeim upplýsingum, sem liggja um þetta hjá Búnaðarfélagi Íslands. Yfirmatsn. á svo að senda þessar upplýsingar til héraðsn., áður en þær hefja sín störf.

Samkv. næstu gr. eiga héraðsn. að meta ræktunarumbætur, sem gerðar hafa verið síðan 1940, og ákveða þær breyt. á matsverði fasteignanna, sem rétt þykir að gera vegna verðlagsbreyt., sem orðið hafa.

Næsta ákvæði er um það, hvað langan tíma héraðsn. skuli hafa til að vinna að endurskoðun matsins, og einnig um það, að matið skuli liggja frammi í hverju sveitarfélagi, eftir að n. hafa unnið að því og eins og nú á sér stað, þegar um venjulegt fasteignamat er að ræða.

Næsta gr. er ákvæði um möguleika fyrir fasteignaeiganda eða umboðsmann hans til að kæra matið, ef hann af einhverjum ástæðum vill ekki hlíta úrskurði, sem fyrst er kveðinn upp af héraðsn., en yfirmatsn. tekur síðan fullnaðarákvörðun um, og mun það vera eins og það er nú í lögunum.

9. gr. á ekki við l., og leggjum við til, að hún verði felld niður.

10. gr. þarf ekki að skýra.

11. gr. er um útgáfu á skrá yfir matsverð allra fasteigna í landinu, eftir að yfirmatsn. hefur endurskoðað og samræmt mat héraðsn.

Sérstaklega er gert ráð fyrir því, að lokaákvörðun um þetta sé í höndum yfirmatsn., eins og nú er í gildandi l.

Þá er að lokum hér brtt. við 12. gr. um kostnað við endurskoðun fasteignamatsins. Gert er ráð fyrir í frv., að sá kostnaður greiðist úr ríkissjóði, en síðan er ný till. frá n., einnig í sambandi við 12. gr., um það, eftir að ríkissjóður hefur fengið greiddan kostnaðinn við endurskoðun fasteignamatsins af fasteignaskatti samkv. gildandi l., þá skuli sá skattur ekki renna til ríkissjóðs, eftir að sá kostnaður hefur verið greiddur að fullu, heldur skuli skatturinn renna til bæjar- og sveitarfélaga, þar sem skatturinn var á lagður. Mundi þarna vera um nýjan tekjustofn að ræða, en tekjur ríkissjóðs skerðast að sama skapi. Þetta var fyrst nokkuð rætt í n., og komu uppástungur um, að þessi skattur rynni til bæjar- og sýslufélaga, en niðurstaða n. varð sú, að rétt væri að láta skattinn ganga til bæjar- og sveitarfélaga, og ætti það út af fyrir sig ekki að skipta miklu máli. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því, ef skatturinn á að afhendast þessum bæjar- og sveitarfélögum, að þau annist innheimtu hans.

Hef ég þá gert grein fyrir brtt. n. og vænti þess, að það sé ljóst öllum, hvaða breytingum þær munu valda, ef samþykktar verða. Það er eðlilegt, að til þessarar endurskoðunar verði valdir menn úr héruðunum á sama hátt og til venjulegs fasteignamats.

Á þskj. 778 hafa komið fram nokkrar brtt. frá hv. þm. A-Húnv. og hv. 2. þm. Skagf. Ég tel ekki, að ég geti tekið undir þær, og skal strax taka það fram, að ég tel, að þessi endurskoðun mundi verða mjög ófullkomin, ef þær verða samþykktar. Ég tel, að þær gangi svo skammt til þess að samræma fasteignamatið því verðlagi, sem er í landinu, að það mundi verða mjög ófullnægjandi, ef þær yrðu samþykktar.