05.03.1951
Neðri deild: 82. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (3526)

137. mál, fasteignamat

Frsm. (Skúli Guðmundsson) :

Ég vil segja hér nokkur orð vegna ræðu hv. 5. þm. Reykv. Hann sagði, að hann hefði ekki sagt síðasta orðið í fjhn., þegar þessar brtt. komu þar fram. Það má vel vera rétt. Ég lagði til í n., að hún flytti þessar brtt., og það hafði enginn á móti því. Hins vegar kann að vera, að einhvers misskilnings hafi gætt hjá hv. 5. þm. Reykv., og sagði ég honum þá, að auðvelt væri að láta prenta þingskjalið upp, en hann taldi ekki ástæðu til þess vegna þess fyrirvara, sem hann hafði eins og fleiri nm. um þessar till. — Það var snemma þegar þessar till. voru ræddar í n., að það skaut upp þeirri skoðun, að það væri ástæða til að láta bæjar- og sveitarfélög hafa fasteignaskattinn að einhverju eða öllu leyti, en þetta var ekki útrætt og n. ekki sammála um það. —

Hv. 5. þm. Reykv. telur varhugavert að hækka fasteignamatið mikið, og ég álít, að það sé ekki verið að fara út í neinar öfgar, þótt sagt sé, að fasteignamatið sé óviðunandi með öllu og valdi miklu misrétti. Menn, sem hafa eignir í lausafé, verðbréfum eða öðru slíku, en svo hins vegar í fasteignum, verða fyrir miklu misrétti og ranglæti í sambandi við skattaálagningu. Það má segja, að þetta skipti ekki miklu fyrir ríkið, því að eignarskatturinn er ekki svo mikill. En þetta er eigi að síður misrétti, sem þarf lagfæringar við.

Ég tel ekki eðlilegt, að Alþingi ákveði hlutfallsbreytingar í sambandi við hækkun fasteignamatsins. Í fyrsta lagi er það í ósamræmi við lögin um fasteignamat. Þar er gert ráð fyrir, að yfirvöldin ákveði menn, er kynni sér þetta mál, og ákveði síðan mat fasteigna. Og ég vil benda á, að ég býst við, að hækkunarstigin þyrftu að vera fleiri en tvö vegna mismunandi aðstæðna víða um land.

Hv. þm. A-Húnv. telur það rangt, að hér sé um endurskoðun fasteignamatsins að ræða, ef okkar till. verða að lögum. Hann telur, að framkvæma eigi lögin á 10 ára fresti. Þetta er algerlega rangt hjá honum. Það er ekki gert ráð fyrir því samkv. þessu frv., að það fari fram nákvæmt mat. Það gengur ekkert í þá átt. Hér er aðeins um að ræða framkvæmd laganna frá 1945, þar sem sagt er í 1. gr. þeirra l., að ef miklar verðbreytingar eigi sér stað, þá skuli, fram fara endurskoðun fasteignamatsins. En það stendur í lögunum, að nýtt fasteignamat skuli fara fram á 25 ára fresti, nema óvenjuleg röskun hafi orðið í þjóðfélaginu.

Hv. þm. Borgf. óttast það, að héraðanefndunum sé ætlaður of skammur tími til að inna sín störf af hendi. Þetta getur verið álitamál og þarf að athugast betur. En ég vil benda á, að til matsstarfsins veljast einungis kunnugir menn á viðkomandi svæðum, og er gert ráð fyrir, að þeir fái í sínar hendur skýrslur um ræktunarframkvæmdir, og þurfa þeir því ekki að athuga ræktunarframkvæmdirnar á hverri jörð, þótt þeir leggi þar mat á, og það er því ekki nauðsynlegt, að matsmennirnir fari á hvern bæ, þótt þeir þurfi að kynna sér þetta. En það þarf auðvitað að taka tillit til allra staðhátta og gæða jarðarinnar, hvað eignin gefi af sér, hvort jörðin er vel hýst eða ekki, vegasamband hennar o. s. frv. Og það er kunnugt, eins og hv. þm. Borgf. benti á, að undanfarið hefur þetta verið þannig, að þeir, sem hafa lagt fé í húsbyggingar í sveitum, hafa ekki getað vænzt þess að hafa tekjur eða vexti af nema nokkrum hluta af þeim fjármunum, sem þeir hafa lagt í þær framkvæmdir. Aftur á móti hefur það verið þannig í kaupstöðunum, að þrátt fyrir síhækkandi byggingarkostnað þar hafa menn alltaf verið öruggir með að fá vexti af því fé, sem lagt hefur verið í byggingar þar. Þannig hefur þetta verið og er enn. Og m. a. með tilliti til þessa álít ég, að þessi hækkunarstigi, sem þarna er settur upp í brtt. hv. þm. A-Húnv. og hv. 2. þm. Skagf., sé öðruvísi en rétt er eða ætti að vera. Og auk þess er það, eins og ég áður gat um, að ég tel, að um þetta sé svo mismunandi ástatt á ýmsum stöðum á landinu, að það sé óeðlilegt að hafa hækkunarstigin aðeins tvö.

Það kom fram hjá hv. þm. Borgf., að hann taldi þörf á, að ríkið sæi sveitarfélögunum fyrir e. t. v. fleiri tekjustofnum en fasteignaskattinum, þ. e. a. s., að sveitarfélögin hefðu þörf fyrir tekjur og e. t. v. nýja tekjustofna. En ég vil benda á, að ríkið þarf á miklu fé að halda, því að margar kröfur eru gerðar til þess. Og mér virðist, að þegar gengið er frá fjárl., þá áliti menn ríkissjóð hafa þörf á hverjum tekjustofni, sem hvert sinn er hægt handa honum að hafa. Það er ekki ágreiningur í fjhn. um það, hvort fasteignaskattinum verði eftirleiðis ráðstafað á þann hátt eða öðruvísi en verið hefur.

Umr. frestað, en frv. var ekki á dagskrá tekið framar.