19.02.1951
Neðri deild: 71. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (3621)

183. mál, lax- og silungsveiði

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Ég er fyrir mitt leyti samþykkur efni þessa frv., um verndun silungs í veiðivötnum á afréttum. Á síðustu árum hefur veiðiskapur aukizt mjög í þessum vötnum, og sá ágangur, sem orðinn er af almenningi í afréttarvötnum, er orðinn svo mikill, að við liggur, að fiskur sé uppurinn víða úr vötnum. En ég tel, að það sé fleira en þetta atriði, sem þyrfti að breyta, t. d. hvernig leggja megi net í ár, og á ég þar einkum við Hvítá, sérstaklega vegna hæstaréttardóms, sem kveðinn var upp ekki alls fyrir löngu. Það er nú svo komið, að menn hafa öðlazt leyfi samkv. þessum dómi til að leggja þvert yfir ár, þar sem dómurinn kveður svo á, að fastur árbakki skuli þýða eyri, sem upp kemur í ánni. S. 1. sumar var vatn lítið í ýmsum ám, og í Hvítá urðu miklar grynningar og fleiri eyrar en oftast áður, svo að hægt hefði verið að leggja net í hvern ál frá báðum árbökkum og með því þverleggja ána. Þarna munn nokkur býli eiga hagsmuna að gæta, en hins vegar verða menn að gera sér ljóst, að bergvatnsár Borgarfjarðar eru í stórkostlegri hættu, ef þessu fer fram. Ár þær, sem renna í Hvítá, eru með allra beztu laxveiðiám landsins, og það verður að setja skorður við því, að laxinum sé hætta búin, og það er enginn vafi á því, að ef engin breyting verður á þeirri veiðiaðferð, sem menn geta notað í Hvítá samkvæmt þessum hæstaréttardómi, þá verður laxinn í þessum ám, sem renna í Hvítá, uppurinn. — Ég mun því leyfa mér að leggja fram brtt. við frv. þetta við 3. umr., sem mun ganga í þessa átt, sem ég hef hér lýst, þar sem ég vissi ekki, að máli þessu væri svona langt komið.