07.11.1950
Efri deild: 16. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það var eitt atriði hjá hæstv. landbrh., sem ég vildi ekki láta ómótmælt, og væri raunar ástæða til að ræða fleira, ef farið væri inn á þann meting, sem hér er hafinn milli sjávarútvegs og landbúnaðar, en ég hef ekki tekið þátt í þeim leik og skal ekki gera. En hæstv. landbrh. minntist á skipakaup og kaup á landbúnaðarvélum í sömu andránni og taldi, að landbúnaðurinn hefði verið svikinn á þeim skiptum. Að því er snertir hið svonefnda nýsköpunartímabil, þykir mér því rétt að gefa þær upplýsingar, sem fyrir liggja, einkum þar sem því er oft á loft haldið, að landbúnaðurinn hafi verið afskiptur, sérstaklega heyrist þessi tónn þrásinnis í flokksblaði hæstv. landbrh.

Eins og kunnugt er, var það stefnuyfirlýsing nýsköpunarstjórnarinnar svonefndu, að af 300 millj. kr., sem nýbyggingarráð fékk til ráðstöfunar, ætti að verja 50 millj. kr. til kaupa á landbúnaðarvélum, vélum til að nýta landbúnaðarafurðir og vélum og efni til rafvirkjana, og eftir skýrslum nýbyggingarráðs, þá voru veitt gjaldeyrisleyfi út á þessa liði að upphæð 50 millj. kr., tæpar þó. En skýrslur nýbyggingarráðs eiga að vera og eru algerlega tæmandi, því að þar var aldrei veitt gjaldeyrisleyfi, sem ekki var þegar bókað og skrásett. Til kaupa á landbúnaðarvélum og vélum til að nýta landbúnaðarafurðir fóru um 21 millj. kr., fyrir vélar og efni til rafvirkjana röskar 18 millj. kr. og fyrir jeppabifreiðar, sem ætlaðar voru bændum, 8,5 millj. kr. Nokkuð af þessum jeppum fór þó til kaupstaða, en á móti kom talsvert af vörubílum til sveitanna, svo að ég ætla, að þar hafi ekki hallazt á landbúnaðinum í óhag. Niðurstaðan er því sú, að á því tímabili, sem flokkur og blað hæstv. landbrh. hefur fyrst og fremst skotið geiri sínum að, þá var ekki svikizt um að veita leyfi fyrir landbúnaðarvélum og öðrum vélum, er tilheyrðu þessum flokki, sem átti að fá 50 millj. kr. leyfi. Þetta álít ég rétt að taka fram, þegar verið er með þennan meting milli atvinnuveganna, en vísa að öðru leyti til plagga, sem hljóta að vera hjá fjárhagsráði um leyfisveitingar nýbyggingarráðs. Meira hef ég svo ekki að segja að óreyndu. Ég sé ekki ástæðu til að blanda mér hér inn í deilur manna, einkum af því, að flm. hinnar mjög umdeildu till. tekur hana aftur. (HV: Eftir útvötnun hæstv. landbrh. á yfirlýsingu sinni sé ég mér tæplega fært að taka till. mína aftur.) Jæja, ég segi þá eins og Einar Hjartarson í Vík: Mig varðar um hvorugt, — og læt ég þar við sitja, en ég álít heppilegt fyrir hv. flm. till. að fara þá leið, sem hann ætlaði.