28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður)

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það var auðheyrt á hv. stjórnarandstæðingum síðastl. mánudag, að þeir töldu margar og miklar hættur steðja að þjóðinni, en eina samt skaðsamlegasta. Hún var sú, ef hér kæmi venjuleg verzlunarvara í búðir á ný, svo að fólk gæti fengið nauðsynjar sínar keyptar með skaplegum hætti, þurfi ekki lengur að standa í biðröðum, nota sér kunningjasambönd eða greiða svartamarkaðsverð. Að dómi þessara hv. þm. átti slík breyting að vera geigvænleg þjóðarhætta, hún átti allt í senn að leiða til atvinnustöðvunar innanlands, skuldasöfnunar erlendis og þó átti almenningur alls ekki að hafa efni á að kaupa þessar nauðsynjar. Hvernig þetta á að geta farið saman, fá fæstir skilið, enda geta slíkir breyttir og stórbættir verzlunarhættir verið hætta í augum þeirra einna, sem hafa ætlað sér að nota núverandi ófremdarástand sjálfum sér til fylgisaukningar. Nei, þjóðinni stafar sannarlega ekki hætta af breyttum og bættum verzlunarháttum. En það er önnur hætta, sem yfir henni vofir og vissulega er raunveruleg.

Aldrei hefur óttinn við yfirvofandi heimsstyrjöld, þá þriðju á þessari öld, legið þyngra á mönnum en nú síðustu mánuðina. Eftir heimsstyrjöldina síðari leystu hin friðsömu, frjálsu lýðræðisríki upp heri sína og hirtu ekki um að halda vopnum sínum við. Í stað þess sneru þjóðir þeirra sér að friðsamlegri endurreisn og uppbyggingu landa sinna og lögðu á það megináherzlu að bæta lífskjör almennings. Á meðan á þessu friðsamlega starfi stóð, hertu aðalstöðvar hins alþjóðlega kommúnisma vígbúnað sinn, höfðu ótölulega herskara gráa fyrir járnum og lögðu hvert þjóðlandið eftir annað undir ok sitt. A meðan á stríðinu stóð, lagði Rússland undir sig Eistland, Lettland, Lithauen, hluta af Póllandi, Finnlandi og Rúmeníu. Eftir ófriðarlok hafa Rúmenía, Austur-Þýzkaland, Ungverjaland, Albanía, Pólland, Tékkóslóvakía og Kína verið gerð að kommúnistiskum hjálendum. Og margir óttast, að þá og þegar verði leppríkin látin ráðast á Júgóslavíu, og er það því furðulegra, þar sem af Þjóðviljanum er svo að sjá, sem Tito sé enn óskabarn Stalins. Innrás hefur þegar verið gerð í Tíbet og barizt er í Kóreu. Er nú svo komið, að þótt ekki sé lýst yfir formlegu stríði, þá eru tímar friðarins horfnir, a. m. k. um sinn, friðleysi ríkir, og víða er háð blóðug barátta.

Hinar endurteknu árásir kommúnista á Kóreu eru aðeins eitt dæmi um yfirráðastefnu þeirra, en skýrasta dæmið vegna þess, að það sýnir, að þeir skirrast ekki við að halda fram stefnu sinni, þótt ljóst sé, að hún kunni að leiða til allsherjarátaka. — En hverju máli skiptir Kórea fyrir Íslendinga? Hvaða ástæða er til þess að eyða tíma í almennum stjórnmálaumræðum á Íslandi til þess að ræða um örlög svo fjarlægs lands? Vissulega eru þau þýðingarmikill lærdómur fyrir okkur Íslendinga. Árásin á Kóreu var gerð vegna þess, að árásarmennirnir og þeir, er verkum þeirra réðu, töldu, að þar væru litlar eða engar varnir fyrir hendi. Varnarleysi landsins bauð þannig beinlínis árásinni heim og þau öfl, sem þarna eru að verki, eru ekki staðbundin við Austur-Asíu. Það er alþjóðahreyfing kommúnismans, sem þarna er á ferðinni. Sami aðilinn, sem hefur lagt undir sig alla Austur-Evrópu og mikinn hluta Mið-Evrópu og Asíu, teygir nú arma sína um útskaga austur við Kyrrahaf. Allar eru þessar aðfarir byggðar á kenningum lærifeðra kommúnista. Sjálfur Lenin segir:

„Við lifum ekki aðeins í einu ríki, heldur í ríkjakerfi. Endurteknir ógurlegir árekstrar milli Sovétríkisins og borgararíkjanna eru óhjákvæmilegir.“

Og Stalín segir:

„Alþjóðleg þýðing byltingar okkar liggur í þessu, að hún er fyrsta skrefið í heimsbyltingu og öflugur grundvöllur fyrir áframhald hennar . . . . Hvað er land okkar, þegar það byggir sósíalismann, annað en grundvöllur fyrir heimsbyltinguna?“

Allt eru þetta skýlaus orð, orð, sem menn of lengi tóku aðeins sem orð. Nú sjá menn, að þau eru harður, óyggjandi veruleiki, sem kommúnistar um heim allan reyna af öllum lífs og sálar kröftum að framkvæma. Auðvitað neita kommúnistar öðru hvoru, að þetta sé tilgangur þeirra, en sú neitun er samkvæmt boðorðunum. Lenin hefur einmitt sagt, að það sé nauðsynlegt „að nota svik, blekkingar, ólöglegar aðferðir, undanbrögð og að fela sannleikann“. Öllu þessu eru kommúnistar dyggilega trúir. Þeir eru ósparir á blekkingarnar. Auðvitað segja þeir, að það séu sameinuðu þjóðirnar, sem hafi ráðizt á Kóreu. Sjálfir þykjast þeir vera að „frelsa“ það óhamingjusama land.

Við könnumst við þessa orðaleiki úr málflutningi flokksdeildar kommúnista hér á landi. Árum saman hafa þeir t. d. fullyrt, að í kommúnistisku þjóðfélagi ríki fullkomið frelsi. Hitt sé allt annað, þótt einstökum „glæpamönnum“ sé refsað með frelsissviptingu. Það sé ekki meira eða harkalegra en hvarvetna sé gert. En þeir gleyma að geta þess, að í kommúnistisku þjóðfélagi er það „glæpur“ að hafa aðra skoðun en valdhafarnir. Þar er það t. d. glæpur að kenna unglingum kristna trú í ríkis- eða einkaskólum og fyrir verkamenn að færa sig á milli vinnustaða án samþykkis yfirvaldanna. Með því að telja slíkt til „glæpa“ fæst skýring á því, að 10–15 milljónir manns skuli vera í þrælkunarvinnu í höfuðríki kommúnismans. Á slíkum heilindum er friðarhreyfing kommúnista byggð.

Í haust átti að ganga í hvert hús hér í bæ og knýja menn til þess að taka afstöðu með eða á móti Stokkhólmsávarpinu. Friðarpostularnir létu ekki lítið yfir sér í fyrstu. Þeir birtu nöfn sín í dagblöðunum, til þess að aðrir gætu séð, hversu fínir menn væru þar á ferð — „að hunda það væru ekki skrokkar“. En á skammri stundu skipaðist veður í lofti. Þjóðviljinn lofaði því þá hátíðlega, að þeir, sem skrifuðu nöfn sín undir „friðarávarpið“, þyrftu ekki að óttast, að nöfn þeirra væru birt, því að raunin varð sú, að þeir voru ærið fáir, sem vildu í almannaaugsýn leggja nöfn sín við það hræsnisplagg. Eftir það birtust engin nöfn undirskrifenda hér á landi, né hefur Þjóðviljinn fengizt til þess að segja frá fjölda þeirra. Sú þögn var þeim mun furðulegri sem blaðið „Land og Folk“ sagði frá því, áður en undirskriftasmölun hófst hér á landi, að 5000 Íslendingar væru búnir að skrifa nöfn sín undir plaggið. Og eftir að friðardúfurnar tvær, hv. 67 atkv. þingmaðurinn Jónas Árnason og Þórbergur Þórðarson, voru fluttir frá Bretlandi austur til Varsjár á kostnað pólsku kommúnistastjórnarinnar, skýrði rússneska blaðið „Trud“ frá því 8. des. s.l., að 5000 manns á Íslandi hafi þegar undirritað Stokkhólmsávarpið.

En það er fleira en þetta, sem þykir frásagnarvert frá Íslandi fyrir austan járntjald, en hér er þagað um. Í þessari sömu fregn í „Trud“ er skýrt frá því, að friðarfundur kvenna hafi verið haldinn í Reykjavík þann 27. nóv. Á fundi þessum hafi mætt fulltrúar frá 30 mismunandi samtökum. Um þessa stórfenglegu samkomu hafa kommúnistar vendilega þagað hér á landi. Á Íslandi höfum við aðeins heyrt um eitt kvenfélag austur í Flóa, er á að hafa lagt Stokkhólmsávarpinu lið.

Friðardúfuleikur kommúnista hefur hér orðið broslegur og gæti virzt meinlaus. Annað og meira býr þó á bak við. Það er t. d. mjög athyglisvert, að í sovétrússneskum réttartíðindum, „Sovét-ríki og réttur“ frá því í ágúst, er sagt, að „úrskurðir“ heimsfriðarnefndarinnar hljóti að hafa lagagildi að þjóðarétti. Samkvæmt þeirri kenningu virðist þessi nefnd eiga að hafa lögsögu yfir þeim, er glæptust til að skrifa undir ávarpið, og geta sagt þeim fyrir um hegðun í þeim málum, er varða milliríkjaviðskipti. Með þessu á auðsjáanlega að smíða enn einn hlekkinn, er tengi flokksdeildirnar víðs vegar við yfirráðamennina austan tjaldsins.

Við Íslendingar höfum áður orðið þessara tengsla varir. Þannig var t. d. á síðastliðnu vori, áður en íslenzku samningamennirnir tóku upp viðskiptasamninga við stjórnarvöld í Austur-Þýzkalandi, að þá gekk einn af helztu liðsmönnum flokksdeildar kommúnista á milli manna hér í bæ og hvatti þá til félagsstofnunar um viðskipti við löndin fyrir austan járntjald. Hann fullyrti, að auðvitað gæti íslenzka stjórnin ekki komið á neinum samningum, við hana yrði ekki samið. „En við okkur verður samið á eftir“, sagði hann. Á þessum forsendum reyndi hann að fá menn til að styrkja hið nýja fyrirtæki kommúnista. Svo fór sem maðurinn hafði sagt, að stjórnarerindrekarnir náðu engum samningum. Í sumar fór Einar Olgeirsson hins vegar eitthvað austur fyrir járntjald og var rétta tvo mánuði í þeirri ferð. Áður hafði Einar farið árið 1945 í erindum íslenzku ríkisstj. um svipaðar slóðir. Þá var hann rúman 2½ mánuð í ferðinni, og með núverandi gengi kostaði sú ferð íslenzka ríkissjóðinn 50 þúsund krónur. Ferðina nú fór Einar ekki á vegum íslenzku stj., enda þurfti hann nú lítið fé, eða a. m. k. lítinn gjaldeyri til ferðarinnar hjá íslenzkum gjaldeyrisyfirvöldum, eða aðeins sem svarar 2300 krónum. Hvaðan hinn hluti ferðakostnaðarins hefur komið, er mér ókunnugt. Hitt veit alþjóð, að þegar alþingismaðurinn kom úr ferðalagi sínu, þóttist hann vera með tilboð austur-þýzku stjórnarinnar um mikil viðskipti við Íslendinga. Við athugun reyndust þetta þó að mestu tylliboð, enda voru þýzku hafnirnar við Eystrasalt jafngrunnar, þegar Einar hvarf heim, sem áður og því óhæfar uppskipunarhafnir fyrir íslenzka nýsköpunartogara.

Hin nánu tengsl alþingismannsins við valdhafana austur þar leyna sér samt ekki, né heldur hitt, að einn af ferðafélögum hans notaði þann tíma, er hann hefur undanfarið dvalið langdvölum austur þar, til þess að ná undir hin nýstofnuðu verzlunarfyrirtæki kommúnista umboðum fyrir Ísland, og taka nú fyrirtæki þessi há umboðslaun, þar sem engin þurfti að greiða áður. Viðskiptin við löndin austan járntjalds eiga sem sé að verða mjólkurkýr fyrir íslenzka kommúnistaflokkinn og forustumenn hans. Kommúnistafyrirtækin eru nú þegar farin að græða á umboðunum, og staðreynd er, að Þjóðviljinn hefur á undanförnum mánuðum fengið pappír sendan, fyrst frá Svíþjóð og síðan frá Austur-Þýzkalandi, án þess að yfirfæra þyrfti nokkurn gjaldeyri til greiðslu á honum. Allt þetta sýnir það, sem áður var vitað, að kommúnistadeildin hér hefur náin fjártengsl við flokksdeildirnar í öðrum löndum.

Ekki er þetta heldur í fyrsta skipti, sem Einar Olgeirsson sýnir, að honum er óvenju hugað um að ganga erinda hins alþjóðlega kommúnisma, einmitt rétt eftir að hann hefur dvalið langdvölum erlendis. Sú ákefð, er hann samtímis fyrstu stjórnarfrv. á fyrstu dögum Alþ. 1947 lagði fram till. til að spilla þátttöku Íslendinga í Marshallsamstarfinu, var í beinu framhaldi af langri dvöl hans erlendis þá um sumarið. Skýring á frumhlaupi Einars fæst hins vegar, þegar íhuguð er frásögn Douglas Hydes, fyrrverandi ritstjóra Daily Worker, kommúnistablaðsins enska, í nýrri, mjög umtalaðri bók. Hann segir, að þegar rætt hafi verið í hópi brezkra kommúnista um afstöðu Evrópuþjóðanna til Marshallsamstarfsins, hafi meðlimur í stjórn flokksdeildarinnar þar mælt svo:

„Það mundi ekki verða mögulegt að bæta lífskjör almennings í hinum „nýju lýðræðisríkjum“ fljótlega, þar sem landbúnaður væri þar aðalatvinnugreinin. En með öðrum hætti mætti bæta lífskjör þeirra í samanburði við aðra, og það væri með því að gera lífskjörin í löndunum í vestanverðri Evrópu verri en áður. Og flokkurinn ætti ekki að vera lengi að fá því áorkað.“

Svo mörg eru þau orð, og er með þeim af fullri hreinskilni sagt, hver er hin raunverulega ástæða fyrir fjandskap kommúnista við Marshallsamstarfið. Þegar íslenzkir kommúnistar vilja koma í veg fyrir, að fé fáist til virkjunar Sogs og Laxár, til byggingar áburðarverksmiðju, til efnivara fyrir iðnað og til ýmiss konar nauðsynja til sjávar og sveita, þá er það beinlínis gert til þess að gera lífskjör almennings á Íslandi verri, svo léleg, að þau nálgist það, sem alþýðan í löndum kommúnista á við að búa.

Douglas Hyde skýrir einnig, hvernig stendur á hinni ofboðslegu þjónkun kommúnista um víða veröld við valdhafana í Moskvu. Hann segir orðrétt:

„Þegar brezkur kommúnisti hjálpar Rússlandi með öllum þeim ráðum, er hann kann, og hvað sem það kostar, er hann að vinna að því að koma á betra Bretlandi, franskur kommúnisti að koma á betra Frakklandi og íslenzkur kommúnisti betra Íslandi. Hann er í sínum augum og flokksins meiri föðurlandsvinur en nokkur annar. Hvað sem það kostar, verður Rússland að lifa, og allt, hvað sem er, sem að því stuðlar, er leyfilegt.“

Hver er sá Íslendingur, sem heyrir þetta, að hann minnist ekki orða Brynjólfs Bjarnasonar á Alþingi 1941, er hann sagði, að á Íslandi mætti „skjóta án miskunnar“, aðeins ef það kæmi Rússum að gagni.

Um svipað leyti og kínverskir kommúnistar hófu hina miklu sókn sína í Kóreu, brá hinn sami Brynjólfur Bjarnason sér austur fyrir járntjaldið nú á miðjum þingtímanum. Brynjólfur hefur verið fáorður um þessa för sína. Því athyglisverðara er áð rifja upp frásögn Hendriks Ottóssonar í bókinni „Frá Hlíðarhúsum til Bjarmalands“, af ferðalagi þeirra Brynjólfs austur til Rússlands árið 1920. Sú frásögn varpar skýru ljósi á atburði líðandi stundar. Þeir félagar komu við í Stokkhólmi og hittu þar finnska útlaga, er orðið höfðu að flýja land, sökum þess að þeir höfðu borið vopn á móti þjóð sinni. Þar voru, að sögn Hendriks, „útbúnir reisupassar, sem við áttum að afhenda tilteknum mönnum, þegar við kæmum til Rússlands. Voru það mjóar léreftsræmur með finnskri áletrun“. „Var þessum merkilegu reisupössum komið fyrir á sérstakan hátt, sem ég hirði ekki að greina hér.“

Hinu segir Hendrik ekki frá, að þessir finnsku vinir þeirra voru um þessar mundir að undirbúa nýja vopnaða árás á föðurland sitt. Er sú árás fór út um þúfur, var flestum þeirra stökkt úr Svíþjóð. Fóru þeir þá til Rússlands og héldu áfram undirbúningi árásarinnar. Rættist sá draumur með árás Rússa á Finna haustið 1939.

Að sögn Hendriks kynntust þeir Brynjólfur ýmsu stórmenni í Rússlandi, þ, á m. Otto Kuusinen, landráðamanninum finnska. Segir Hendrik, að þeir félagar hafi átt við hann „fjörugar samræður“, og gekk ekki hnífurinn á milli þeirra. Á heimleiðinni fóru þeir félagar huldu höfði í Noregi ásamt Rakosi, er síðar varð kommúnistiskur einræðisherra í Ungverjalandi, og leynir stolt Hendriks yfir þeim félagsskap sér ekki. En Rakosi er hér á landi m. a. þekktur af þeim orðum sínum, er hann mælti á þessa leið:

„Sá, sem fylgir ekki Sovétríkjunum nema með tilteknum skilyrðum eða tilteknum fyrirvara, sá, sem heldur, að hagsmunir síns eigin lands og hagsmunir Sovétríkjanna fari ekki ávallt saman í einu og öllu, hann er ekki kommúnisti.“

Hendrik talar aðeins kuldalega um einn mann, er hann hitti á ferð þessari, og er það Ejnar Gerhardsen, forsætisráðherra Norðmanna. Segir Hendrik, að Gerhardsen hafi verið talinn „mesti félagsskítur“. Hefur því snemma komið fram, að sá föðurlandsvinur átti ekki heima í hópi landráðamanna og einræðissinna.

Á Kominternfundi þeim, er þeir félagar sóttu, segir Hendrik, að það hafi borið við, sem nú skal greina:

„Ég sagði þá, að sennilega mundu fæstir viðstaddir vita neitt um Ísland. Það kvað við hlátur, og Lenin sagði, að víst þekktu fulltrúarnir til landsins, enda væru þeir forustulið verkalýðs heimsins, og mætti ætlast til þess, að þeir vissu meira um Ísland en almenningur. Hann hóf þá hina frægu tölu sína um hernaðarlega afstöðu Íslands í framtíðarstyrjöld, sérstaklega með tilliti til flughernaðar og kafbáta.“

Áhugi forustumanna kommúnista fyrir hernaðarlegri þýðingu Íslands hefur því vaknað löngu áður en flestir Íslendingar létu sig dreyma um, að landið hefði slíka þýðingu. Ákefð kommúnista í að halda landinu opnu og óvörðu fær vissulega enn skuggalegri mynd en áður við íhugun þessarar frásagnar.

Það er fullvíst, að Brynjólfur Bjarnason og félagar hans hafa ekki gleymt þessari „frægu ræðu“. Og í þessu sambandi er hollt að minnast þess, að hér á landi eru nú a. m. k. 10–20 Íslendingar, sem beinlínis hafa verið í flokksskóla kommúnista austur í Rússlandi, og er meginhluti þeirra fólk, sem fáir kannast við. Þeim er engu að síður áreiðanlega ætlað sitt ákveðna hlutverk, og enginn þarf að efast um, að þeir reyni að kenna út frá sér eftir föngum. Sumir af þessum skólanemendum frá Rússlandi eru og þjóðkunnir menn, eins og t. d. Þóroddur Guðmundsson, sem var þar skólabróðir Gottwalds, sjálfs forseta Tékkóslóvakíu, manns, sem menn minnast þessa dagana vegna yfirlýsingar miðstjórnar flokksdeildarinnar þar í landi, þar sem skv. fregn útvarpsins í gær var sagt, „að það skuli gert ljóst, að í kommúnistaflokki Tékkóslóvakíu sé rúm fyrir þá menn eina, sem elska Ráðstjórnarríkin og félaga Stalín og viðurkenni flokksforustu Gottwalds“, skólabróður Þórodds.

Áður var minnzt orða Brynjólfs Bjarnasonar á Alþ. 1941 um, að á Íslandi mætti „skjóta án miskunnar“, aðeins ef það kæmi Rússum að gagni, og sýna þau, að hann hefur þá enn haft í huga hernaðarlega þýðingu Íslands einmitt fyrir Rússland. Ummæli Brynjólfs Bjarnasonar í marz 1949 eru ekki síður athyglisverð. Þá sagði hann hér á Alþ.: „Þegar Bandaríkin hafa beðið ósigur . . og alþýða Evrópu hefur sigrað að fullu, mun hún ekki þola það, að henni sé ógnað af amerískri herstöð hér á landi. Ameríkumenn munu verða hraktir héðan og íslenzka þjóðin mun gera upp við leppa þeirra.“ Á mennskra manna máli þýðir þetta, að Brynjólfur fullyrðir, að austrænir kommúnistar muni ráðast á og leggja undir sig Ísland, og í skjóli þeirra muni svo flokksdeild þeirra hér á landi gera upp sakirnar við þjóðholla Íslendinga. — En því eftirtektarverðara verður þetta sem kommúnistar fullyrða æ ofan í æ, að nú sé og s. l. 4 ár hafi verið herstöð á Íslandi. Hér á landi vita allir, að þetta er lygi. En þessar fregnir eru einnig fluttar til Rússlands og hafa verið margendurteknar þar í ræðu og riti. Enginn skyldi halda, að þessu væri skrökvað upp út í bláinn, eða að tilgangslausu. Átyllan til árásar á Ísland á að vera fyrir hendi hvenær sem henta þykir. Enginn skyldi heldur ætla, að Brynjólfur Bjarnason hafi mælt hótanir sínar af bráðræði eða hvatvísi. Þvert á móti er einmitt í ávarpi kommúnista fyrir fyrstu alþingiskosningarnar, sem þeir tóku þátt í, rakið, til hverra ráða verði að grípa, ef ekki verði orðið við þeim kröfum, sem kommúnistar þá þóttust bera fram fyrir hönd alþýðunnar. Síðan segir orðrétt:

„Þá verður alþýðan sjálf að skapa örlög sín og, ef í nauðirnar rekur leita sér hjálpar hjá sigrandi alþýðu Ráðstjórnarríkjanna.“

Og í ritinu „Hvað vill kommúnistaflokkur Íslands?“ segir m. a.:

„Byltingin, framkvæmd öreigaalræðisins og ráðstjórnarvaldið er vegurinn, jafnt fyrir íslenzka verkamenn og bændur sem fyrir verkalýð og fátæka bændur allrar veraldar.“

Síðan hafa kommúnistar lært að haga orðum sínum á lævísari hátt, en enn er það glöggt, hvað þeir vilja, enda mun þeim nú orðið ljóst, að völdin hér fá þeir aldrei við frjálsar kosningar.

Það er því ekki aðeins, að við lifum á tímum friðleysis og hættu um heim allan, heldur eru fyrir því óvefengjanlegar sannanir, að í landinu starfar hópur manna, sem horfir vonaraugum til þess og sumir jafnvel vinna að því, að herskarar hins alþjóðlega kommúnisma geri árás á landið við fyrsta tækifæri. Þessi hætta er raunveruleg og gegn henni verður íslenzka þjóðin og stjórnarvöld hennar að snúast, svo að komið verði í veg fyrir eyðingu lands og þjóðar.