13.12.1950
Sameinað þing: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (3918)

92. mál, skömmtun á byggingarvörum

Flm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að vera mjög langorður um þessa till., því að hún er í rauninni endurtekning á till., sem ég flutti á síðasta þingi og var þá vísað til allshn., en náði ekki að koma undir endanlega atkvgr. í þinginu. Í grg. á þskj. 157 er vel frá því sagt, hverjar ástæður eru fyrir því, að vér flm. þrír, sem þar erum tilgreindir, hv. þm. Borgf., hv. 7. þm. Reykv. og ég, flytjum þetta mál. Ég fullyrði í stuttu máli, að hafi verið þörf á því að hreyfa þessu máli á síðasta þingi, þá er sú þörf enn brýnni nú orðið. Þessi afskipti fjárhagsráðs af minni háttar framkvæmdum hafa að mínum dómi og margra annarra sára litla þýðingu fyrir þjóðarbúskapinn, en hins vegar oft mikla þýðingu fyrir einstaklinginn og jafnvel örlagaþrungna þýðingu fyrir einstaklinga þá, sem eftir landslögum og siðferðisreglum þurfa að koma upp heimilum og vinna þannig að eflingu þjóðfélagsins. Þeir eru á margan hátt í gegnum þessar fjárhagsráðsráðstafanir í smáatriðum hindraðir í því að koma sér fyrir eins og guðs og manna lög standa til. Ég er hér með ekki að segja, að fjárhagsráðsafskipti og fjárfestingarkontról á stærri hlutum geti ekki verið rétt eða nauðsynlegt, á það legg ég engan dóm, en við flm. héldum okkur við smærri fjárfestingu í þessu plaggi á síðasta þingi eins og nú. Ég vona, að hv. þm. skilji þann tilgang, sem hér liggur til grundvallar, og að þeir meti rétt þær ástæður, sem eru fyrir þessum þörfum, og veiti þessu máli brautargengi gegnum þingið, þannig að við losnum við eitthvað af þeirri garnaflækju, sem allir eiga við að búa í þessu framkvæmdaratriði, sem hingað til hefur ekki verið látið heyra undir opinber afskipti fyrr en með l. um fjárhagsráð, og var þó þegar í upphafi gert ráð fyrir því í þeim l., að þessu mætti breyta, þannig að ganga mætti fram hjá þessu í smáatriðum. Fjárhagsráð hefur þar með innleitt það ástand í þessum málum, sem gerir allan þorra manna andvígan fjárfestingarleyfum yfir höfuð, sem þó ekki þarf að vera, ef þessu hefði verið hóflega beitt. Ég býst við, að hæstv. forseti fresti umr., .og vænti ég þess, að málinu verði vísað til allshn.