21.02.1951
Sameinað þing: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (3993)

73. mál, loftskeytastengurnar á Melunum í Reykjavík

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekki mikið, sem ber á milli fjvn. og hv. þm. Vestm. Fjvn. var ákveðin í því að afgreiða þetta mál á þann veg, að það yrði ekki í sama farinu og það hefur verið, heldur að það fengist út úr því ákveðinn verknaður, þ. e. að flytja stengurnar á brott. Og hæstv. ráðh. hefur gefið hér upplýsingar um það, að hann ætli í fyrsta lagi að beita sér fyrir því, að samkomulag takist á milli flugráðs og landssímans, og í öðru lagi, ef það skyldi ekki takast, þá yrði kveðinn upp úrskurður um, að það skyldi samt sem áður verða gert. Það er þetta, sem fjvn. leggur ákaflega mikið upp úr, að hæstv. ráðh., sem þetta mál heyrir undir, hefur gefið þessa yfirlýsingu hér í áheyrn þingsins, og ég segi það, að við höfum ekki leyfi til þess að rengja þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh. fyrir fram og segja, að við tökum ekki mark á henni.

Ég er sammála hv. þm. Vestm. um það, að allt of litlu fé er varið til flugmála og til þess að skapa það öryggi, sem flugvélum er nauðsynlegt. En fjárframlög til flugmála hafa náttúrlega miðazt við það, hverju hægt hefur verið að verja til þeirra framkvæmda, eins og annarra, hverju sinni; það hefur sem sagt veríð miðað við það, hve miklu úr hefur verið að spila hverju sinni. Hitt má auðvitað deila um, hvort þessu fé hefur alltaf verið varið á heppilegan máta, t. d., að ekki skuli enn hafa verið gengið frá nauðsynlegum festingum á flugvöllunum.

Hv. þm. Vestm. hefur komið hér með brtt., sem er skýr og gagnorð, en ég ætla, að þó að hún yrði samþ. í staðinn fyrir brtt. fjvn., þá mundi málið samt sem áður standa á svipuðu stigi. Ég er sem sé alveg sannfærður um það, að ef till. fjvn. verður samþ., þá verði það gert, sem hv. þm. Vestm. hefur óskað eftir, og þess vegna er till. hans alveg óþörf vegna þess,. sem fyrir liggur í málinu. — Við skulum ekki deila um það, sem orðið er. Ég býst við, að við hv. þm. Vestm. séum sammála um, að það hefði átt að nota heimildina, sem var á fjárl. fyrra árs, — séum sammála um, að það hefði verið æskilegt. En við skulum bara horfast í augu við það, sem er, að þetta hefur ekki verið gert, og það, sem er nú aðalatriðið, er að búa þannig um hnútana, að það dragist nú ekki lengur en til vorsins, að stengurnar verði fluttar í burt og þeirri slysahættu bægt frá. Og fjvn. hefur nú búið þannig um hnútana, að þetta verður gert, og þarf ekki leiðréttingu á því sem hún hefur látið frá sér fara til þess.

Ég ætla svo ekki að ræða meira um þetta Alþm. verða að gera það upp við sig, hvort þeir telja, að fjvn. hafi gengið nógu vel frá málinu til þess að fá þannig eindreginn vilja: fram, því að hún er óskipt um það álit, að stengurnar verði að fara sem fyrst í burt, — eða hvort þeir vilji samþ. þá brtt., sem fram er komin frá hv. þm. Vestm. Yrði sú brtt. samþ., væri ekki hægt að skoða öðruvísi en vantraust á hæstv. ríkisstj. og vanmat á þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. hefur gefið hér í þessu efni og eru tvenns konar, eins og hv. alþm. hafa heyrt. Í fyrsta lagi að fá samkomulag, og verði það ekki fært, þá að kveða upp úrskurð. Og ég vil benda á, að ef þessi brtt. verður samþ., skilst mér, að það verði erfitt að fá samkomulag milli viðkomandi aðila, þegar þeir vita, — að ríkisstj. hefur beinlínis verið falið að flytja stengurnar á brott og þá vitanlega á kostnað ríkissjóðs. — Ég ætla, að það sé bezt fyrir hv. alþm. að íhuga þetta mál alveg rólega, og býst við, að það sé nú komið svo, að allir séu á einu máli um það, að stengurnar eigi að fara á brott, — að allir líti svo á, að það sé aðalatriðið að búa þannig um hnútana, að stengurnar fari í burt. Flestir líta þannig á, að, það sé óhætt að samþ. till. fjvn. til þess að ná þessu marki og það megi leggja það mikið upp úr yfirlýsingu hæstv. ráðh. það sé hinn rétti, endanlegi hnútur á því máli, sem ekki rakni upp og hleypi því ekki í þann farveg, sem það hefur verið í áður. Ég held, að málið verði nú alveg leyst, og vænti þess, að hv. þm. Vestm. geti að athuguðu máli verið ánægður með það, sem fjvn. hefur gert í málinu.