18.10.1950
Sameinað þing: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (4019)

25. mál, friðun rjúpu

Ingólfur Jónsson:

Ég ætla ekki að halda langa ræðu, en vil vekja athygli á því, hvað hér er um að ræða. Ég vil vekja athygli á því, hvernig tíma Alþ. er varið, meðan verið er að stæla um þetta mál hér í þinginu. Það, sem hér er um að ræða, er aðeins það, hvort ríkisstj. eigi að hlíta fyrirmælum Alþ. Eins og kunnugt er, var 19. apríl s. l. samþ. í sameinuðu þingi ályktun til ríkisstj. um að friða rjúpu næstu 5 ár. Þetta eru fyrirmæli, en ekki áskorun, og við alþm. höfum fram að þessu ætlazt til, að ríkisstj., sem við felum framkvæmdarvaldið, fari eftir beinum fyrirmælum, og það er dálítið einkennilegt, að nú skuli vera flutt till. aftur hér á þingi til þess að fá þessa samþykkt endurtekna. Hvers konar skrípaleikur er þetta? Ríkisstj. segir ef til vill, að nýjar upplýsingar hafi komið fram í málinu, upplýsingar, sem byggist á vísindum. Ég vil þó geta þess, af því að ég var frsm. þeirrar n., sem afgr. málið í apríl s. l., að þessar upplýsingar og umsögn frá Finni Guðmundssyni lágu þá fyrir, og n. og alþm. voru þá á einu máli um það, að það bæri að friða rjúpuna vegna þess, hvað lítið væri orðið af henni í landinu. Þessi fallegi fugl er næstum því horfinn, og ég held, að okkur Íslendingum geti liðið jafnvel, þó að við látum ekki eftir okkur drápsgirnina um sinn og leyfum þessum saklausa fugli að lifa og fjölga dálítið. Ef það er ákveðin ósk ríkisstj. að fá samþykktina endurtekna frá s. l. vetri, þá vil ég mælast til þess, að sú samþykkt verði látin fara fram í dag og ekki sé verið að tefja málið með því að láta það fara í n. og þæfa það dag eftir dag, og hygg ég, að sæmd þingsins verði ekki meiri fyrir það, þó að við eyðum mörgum dögum í umr. um þetta mál. Ég er sannfærður um það, að landsmenn telja, að Alþ. hafi veigameiri mál til meðferðar en þetta svokallaða rjúpnamál, þó að það væri afgr. í dag að fullu, ef ríkisstj. heldur fast við það, að sú samþykkt, sem gerð var á s. l. vetri, verði endurtekin. Ég er tiltölulega ungur í þinginu, en ég spyr: Er þetta ekki einsdæmi?