18.10.1950
Sameinað þing: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (4020)

25. mál, friðun rjúpu

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Rang. segir, að hér sé um það að ræða, hvort ríkisstj. eigi að hlíta fyrirmælum Alþ. eða ekki. Ég álít, að þetta sé misskilningur hjá hv. þm., því að margt kemur hér til greina fleira en það, m. a. hvort reglugerðin, sem þingið ætlast til að sé gefin út á þessa þál., fái stoð í þeim l., sem reglugerðin á að byggjast á, og ég álít, og vísa þar til ræðu hæstv. landbrh., mjög vafasamt, hvort hægt er að gefa út slíka reglugerð, ef rjúpunni er að fjölga. Þess vegna finnst mér það kuldalegt af hv. þm., þegar þingið gefur út svo tvíræða ályktun, að fullyrða, að spursmálið sé um það hvort ríkisstj. eigi að hlíta fyrirmælum Alþ. Í þessu tilfelli ber ráðh. fyrst og fremst að athuga, hvort sú reglugerð, sem hann á að skrifa undir, á stoð í l., hvað sem ályktun Alþ. líður.

Ég skal ekki fara miklu frekar út í það, sem hv. þm. A-Húnv. ræddi um síðast. Hann sagði, að þessi þriggja ára reynsla, sem væri verið að fara fram á hér, gæfi enga sönnun um það, sem hér um ræðir. Hvað mundi hv. þm. segja, ef rjúpunni fjölgaði mjög mikið næstu 3 ár, þó að hún væri ekki friðuð? Mundi hann ekki telja það sönnun fyrir því, að veiði hefði ekki áhrif á stofninn? Ef hægt er að ákveða, að rjúpunni fækki, eins og mér skilst að hv. þm. sé ekki í nokkrum vafa um, og þess vegna sé þessi þáltill. fram komin, því er þá ekki hægt að ákveða um það, að rjúpunni fjölgi? En mér skilst, að það sé einmitt það, sem er þungamiðjan í því, sem hv. þm. segir, að ekki sé hægt að segja með vissu um það, hvort rjúpunni fjölgi eða ekki.