24.10.1950
Sameinað þing: 8. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (4031)

25. mál, friðun rjúpu

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki að mínum hluta lengja mikið þessar umr. En það eru örfá atriði úr ræðu hv. frsm. meiri hl., sem ég vildi víkja að. Ræða hans var aðallega ádeila á mig sem ráðherra fyrir að hafa ekki farið eftir þál. frá síðasta þingi, og taldi hann slíkt framferði veikja áhrif og vald Alþingis. Ég tók það fram fyrr í umr., að það var ekki af þrjózku við þingið, að ekki var eftir þál. farið, og ekki af því, að ég vilji ekki framfylgja þingviljanum í öllu sem kostur er á, en ég benti einnig á, að það veikir kannske enn þá meira vald Alþingis að gera ályktanir, sem illmögulegt eða ómögulegt er að framfylgja, og það kom einmitt skýrt fram í ræðu hv. 2. þm. Skagf., að það virðast vera bein fyrirmæli l., að ekki sé hægt að friða rjúpuna, ef stofninn er í vexti. Nú telja margir og færa að því rök, að stofninn sé í vexti, og ef svo er, og ég sem ráðherra er sannfærður um, að svo sé, þá hef ég ekki rétt til að friða rjúpuna með reglugerð. Það má náttúrlega deila um fjölgun og fækkun rjúpnastofnsins fyrr og síðar, en fyrir mér vakir að fá úr því skorið, hvort kenningar náttúrufræðinganna eru réttar, því að með því yrðu kveðnar niður aldagamlar bollaleggingar um fjölgun eða fækkun rjúpnastofnsins, og geri ég ráð fyrir því, að hv. frsm. meiri hl. viðurkenni, að rök, sem fram hafa komið í málinu, hafa valdið því, að þm. hafa endurskoðað afstöðu sína. Þeir, sem þá fylgdu þáltill., trúðu því, að rýrnun rjúpnastofnsins stafaði af skotum, en við nánari athugun er ég í vafa um, að hægt sé að halda þeirri ástæðu fram, og því fannst mér sjálfsagt að gefa þeim tækifæri til að endurskoða afstöðu sína, og það þarf enginn að vera minni maður, þótt hann breyti áliti sínu á einhverju máli eftir þeim rökum, sem fram koma, og það er fráleitt að halda því fram, að menn þurfi að greiða atkv. eins og í fyrra, ef þeir eru nú sannfærðir um, að stofninn sé í vexti. Frá minni hendi er þetta ekkert hitamál, og það er til bóta að athuga málið rólega og mynda sér skoðun á því ettir fram komnum rökum og með skynsamlegum hætti.