12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Mig langar til að segja nokkur orð út af meginatriðum málsins og einnig út af því, sem fram hefur komið í umr. um það hér á Alþingi, eftir því sem mér hefur gefizt kostur á að fylgjast með þeim, en ég gat ekki verið viðstaddur 1. umr. málsins.

Í fyrsta lagi vil ég taka það fram, að ég tel það mjög hæpna aðferð hjá hæstv. ríkisstj. að gefa út brbl. 4–5 dögum áður en reglulegt Alþingi kemur saman og það til þess að leggja á ríkissjóð verulega fjárhagslega bagga. Með því segi ég ekki, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki átt að leggja fyrir Alþingi eitthvað líkt þessu frv., en það er vægast sagt óviðeigandi og allt að því misnotkun á heimild stjórnarskrárinnar til að gefa út brbl. að gera eins og hér hefur verið gert, því að við vitum, að ef hæstv. ríkisstj., sem hefur mikinn þingmeirihluta, hefði sagt þeim, sem frekast þurfa á aðstoð að halda, að hún mundi leggja fyrir Alþingi frv. til úrbóta, þá hefðu þeir látið sér það vel lynda og talið, að hæstv. ríkisstj. hefði orðið við óskum þeirra á eðlilegan hátt.

Í annan stað hefur það verið lítið rökstutt, hvernig svæðunum er skipt. Veit ég t.d. ekki til þess, að Vaðlaheiði hafi alveg skorið úr um afkomu bænda í Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslum. Ég held, að ýmis svæði í Eyjafjarðarsýslu, þar sem ekki eru votheysgeymslur, hafi ekki farið betur út úr sumrinu en verulegur hluti Þingeyjarsýslu. Þessi mörk eru því þannig sett, að tæpast er hægt að fóta sig á þeim.

Í þriðja lagi er fyrirkomulag allt um undirbúning aðstoðarinnar dálítið hæpið. Það hefur t.d. verið minnzt á það hér, að það sé miður smekklegt að senda tvo frambjóðendur stjórnarflokkanna til að athuga ástandið og láta þá lofa bændum stuðningi ríkisstj. og fulltingi. Það er dálítið vafasamt, svo að ekki sé meira sagt. Ég hefði talið eðlilegast að láta bjargráðasjóð hafa framkvæmd þessarar aðstoðar með hendi. Með þeim breyt., sem gerðar voru hér í fyrra á l. um sjóðinn, og að fenginni reynslu um aðstoð, sem hann framkvæmdi á næstsíðasta ári, þá var eðlilegast, að bjargráðasjóður framkvæmdi þá aðstoð, sem ríkisstj. og Alþingi ákvæðu. Er ég að þessu leyti sammála brtt., sem hv. þm. Barð. flutti í Ed.

Þetta eru nokkur atriði varðandi útgáfu brbl. og meðferð málsins, sem mér þótti rétt að láta koma fram, áður en málið færi út úr þinginu, og síðan vil ég að lokum minnast örfáum orðum á þær umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál, og þó sérstaklega að gefnu tilefni út af orðum hv. þm. Mýr. Hann sagði, að af hálfu okkar Alþýðuflokksmanna við þessar umr. hefði gætt nokkurs fjandskapar í garð bænda. Að svo miklu leyti sem ég hef getað fylgzt með þessum umr., en ég var ekki í þessari hv. d. við 1. umr. þessa máls, þá hef ég hvergi orðið þess var, að nokkurs fjandskapar gætti frá okkur Alþýðuflokksmönnum né vanmats á þeim búsifjum, sem bændur urðu fyrir af völdum óþurrkanna á síðasta sumri En hitt er annað mál með þá gagnrýni, sem komið hefur fram á einstökum atriðum í framkvæmd þess, og ég vil undirstrika það, að misjafnlega fljótt hafi verið brugðið við eftir því, hvaða stétt átti í hlut, hvort tjónið var af völdum óþurrka eða sakir langvarandi aflabrests. Ég held, að enginn þm. Alþfl. hafi talið eftir nokkurn styrk til bænda vegna hinna óhemjulegu óþurrka, sem stefndu bústofni þeirra í bráðan voða. En hitt er annað mál, hvort ekki hefði verið rétt að fara fram með öðrum hætti og hvort ekki sé rétt, þegar rætt er um hjálp til þessara staða, að minnast þá á aðra staði, sem ekki þurfa siður einhverrar hjálpar við, og það er þetta atriði málsins, sem ég vil taka undir, en hinu vísa ég á bug, að af hálfu okkar Alþýðuflokksmanna hafi gætt andúðar á aðstoð til bænda. Menn eiga ekki að drýgja ranglæti, en það er ekki rétt að þola ranglæti. Og ef sýnt er fram á ranglæti, er ekki verið að fara fram á að skerða þá aðstoð, sem er veitt, heldur að auka hana við þá, sem njóta hennar ekki. Þetta er það atriði, sem við Alþýðuflokksmenn leggjum áherzlu á. Hitt er svo, hvort rétt hafi verið að gefa út brbl. 4 eða 5 dögum áður en Alþingi kom saman, en láta ekki málíð ganga hér í gegnum þingið á réttan hátt. Þetta er það meginatriði, sem um er að ræða, og ég tel rétt, að það komi hér fram.

Að lokum vil ég taka undir þau orð hv. þm. Ísaf., að þó að fundið hafi verið að þessu frv., þá er það alveg að ófyrirsynju að halda því fram, að það hafi gætt fjandskapar af hálfu Alþfl. til þess. Og það er leiðinlegt, að hv. þm. Mýr. skuli hafa látið sér þau orð um munn fara, svo reyndur og gætinn maður sem hann er og ég hef reynt hann að að vera í löngu samstarfi.