24.01.1951
Sameinað þing: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í D-deild Alþingistíðinda. (4163)

119. mál, fjárþörf landbúnaðarins

Landbrh. (Hermann Jónasson) :

Það sýnist nú ætti að geta orðið til bóta, að máli þessu er hreyft hér, um fjárþörf landbúnaðarins. Og ég get fullvissað hv. þm. um það, að þótt ég hefði heldur kosið, að þetta mál, sem hér er til umræðu, hefði legið fyrir í öðru formi, þá er þetta eitt af langstærstu málunum, sem liggja nú fyrir bæði þingi og stjórn, þ. e. hvernig á að útvega fjármagn til landbúnaðarins. — Einn af þeim sérfræðingum, sem voru hér í sumar, rannsakaði möguleika fyrir landbúnaði á Íslandi, og hitti hann á slæmt tíðarfar. Hann hefur nýlega skrifað um þessar ferðir sínar og ræðir þar um íslenzkan landbúnað og þá óskaplegu ógæfu, að Íslendingar skuli ekki hafa lagt meira fé í landbúnaðinn en þeir hafa gert, og sé það ein af okkar mestu skyssum, — eins og við sjáum líka sjálfir.

Nú, viðkomandi rannsókn á þessum atriðum, þá er í stuttu máli um það að segja, að skýrslur um öll þessi atriði eru vitanlega fyrir hendi. En það er annað, og það er það, að við getum ekki gert okkur nokkrar vonir um það eins og sakir standa, því miður, að hægt verði að fullnægja allri fjárþörf landbúnaðarins, eins og komið er í þeim fjármálavandræðum, sem nú eru orðin. Þörfin er svo geysileg, að menn hafa ekki gert sér það ljóst. Það voru t. d. lagðar 14 millj. kr. af gengisgróða síðasta árs í tvo sjóði, byggingarsjóð og ræktunarsjóð, og þótti kannske mörgum óþarft, þegar þetta var þvingað fram í sambandi við stjórnarmyndunina. Byggingarsjóðurinn er nú í skuld og ræktunarsjóðurinn svo að segja alveg tómur. Til viðbótar því fjármagni, sem sjóðirnir höfðu áður, hafa farið þessar 14 millj., og hefði ekki verið samið um að leggja þetta í sjóðina, hefði orðið svo að segja alveg kyrrstaða í íslenzkum landbúnaði, ræktunarframkvæmdum og byggingu íbúðarhúsa, og verður á þessu ári, ef ekkert er gert, því að á þessu ári stendur eins á og hefði staðið á á árinu sem leið, ef þessar 14 millj. hefðu ekki verið lagðar fram, þ. e. fyrirsjáanleg kyrrstaða í þessu öllu, byggingu íbúðarhúsa og peningshúsa og ræktunarframkvæmdum, ef ekkert verður að gert. Og þó er þetta að því leyti verra, að þörfin á þessu ári er miklu meir aðkallandi og það kostar miklu meira að gera framkvæmdirnar á þessu ári en það kostaði á því síðasta.

Nú, ég skal svo með þessum almenna formála víkja örfáum orðum að þessari till. Ég ætla ekki að ræða hana lið fyrir lið, það geta allir gert sér grein fyrir þessu með því að kynna sér skýrslu, sem gerð var fyrir nokkrum árum af Arnóri Sigurjónssyni, um þau hús, sem ekki eru íbúðarhæf í sveitum, og með því að fá upplýsingar um það hjá byggingarsjóði, hvað hafa verið byggð mörg hús síðan. Það er því auðvelt verk út af fyrir sig. Aðalatriðið er það, að ég vil biðja þá hv. alþm., sem hafa áhuga fyrir þessu máli, að snúast í lið með mér viðvíkjandi því, — og það er ekki fyrst og fremst rannsókn á því máli, heldur hvernig á að útvega það fé, sem öllum er ljóst af þessum stutta formála, sem ég hef haft hér, að vantar. En það liggja sem sagt fyrir athuganir á öllum þessum atriðum, sem hér eru til umræðu. Ég hef látið gera hverja rannsóknina af annarri á þessu sumri. Fyrsta athugunin var gerð snemma á fyrra ári. Hún er gerð þannig, reikningarnir eru gerðir þannig, að athuguð er lánsfjárþörfin eftir því, sem fyrirspurnir hafa komið fram til ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs. Síðan er tekið meðaltal þessara lána, t. d. í ræktunarsjóði, og fjárþörf næstu 5 ár í ræktunarsjóð, miðuð við að vísu gengisbreytingu, en ekki verðlagsbreytingar, sem orðið hafa af öðrum ástæðum, er hafa orðið mjög miklar, t. d. á byggingarefni, — án þess að ég vilji lesa upp margar tölur, en yfir þetta eru alveg nákvæmir útreikningar, því að við vitum nákvæmlega, hvaða tekjuvonir við höfum næstu 5 ár, — þá hefur verið lánað úr byggingarsjóði undanfarin þrjú ár til jafnaðar 5.5 millj. kr. Og ef gert er ráð fyrir, að lánað sé 6 millj. kr. á ári úr byggingarsjóði, — og er náttúrlega alls ekki gert ráð fyrir gengislækkuninni eða þeim verðhækkunum, sem almennt hafa orðið, — þá vantar í þennan sjóð 19356600 kr. Og þegar þess er gætt, að það hafa orðið miklar verðhækkanir, þá geta alþm. nokkurn veginn gert sér grein fyrir því, hve auðvelt það muni verða að fullnægja fjárþörf þessa sjóðs á næstu 5 árum, fjárþörf, sem aldrei verður undir 40 millj. kr. Hér er um fjárþörf að ræða, sem er svo geysileg, að það verður áreiðanlega mjög erfitt, eins og nú er komið, að fullnægja henni. Það er deginum ljósara, að það vantar um 20 millj. kr. í þennan sjóð á næstu 5 árum, þó að ekki sé tekið tillit til þeirra verðhækkana, sem orðið hafa, ef aðeins á að halda í horfinu eins og verið hefur á árunum 1947–49, að báðum árunum meðtöldum. Síðan er gert yfirlit yfir það, hve mikið vantar í ræktunarsjóð, og er þá gengið út frá svipuðum útreikningum að öðru leyti en því, að þar er tekið árið 1949 sem grundvöllur, því að reynslan er sú, að bændur voru ekki farnir að leita til sjóðsins á eðlilegan hátt fyrr en 1949, og þar er gengið út frá því sama, þ. e. án verulegrar verðhækkunar vegna gengisbreytingarinnar og alls ekki reiknað með nokkrum verðhækkunum, sem orðið hafa af öðrum ástæðum, og ekki reiknuð út frá því nein hækkun, heldur miðað við, að hægt sé að halda áfram á svipaðan hátt og verið hefur, sem auðvitað er ekki lengur viðunandi, eins og mikil þörf er á að byggja í sambandi við ræktunina, eins og gefur að skilja, og þar vantar í sjóðinn 22447650 kr. Það er áreiðanlega óhætt að tvöfalda þessa upphæð og rúmlega það, ef halda á áfram með viðunandi hraða og þegar reiknað er út frá því, sem vitað er um verðlag. — En ég vil svo í framhaldi af þessu minnast á það, að eftir að þetta yfirlit hafði verið gert, þá var haldinn fundur á Kirkjubæjarklaustri af landssambandi íslenzkra bænda, og þá var þetta mál rætt, einmitt um lánsfjárþörf landbúnaðarins og þá sérstaklega í sambandi við það, sem hv. þm. minntist á votheyshlöður og áburðargeymslur ásamt fleiru. Jafnframt var rætt um þörfina á girðingarefni og ýmsu öðru og óskað eftir því af fundinum, að gert yrði yfirlit yfir næstu 5 ár um framkvæmdir í íslenzkum landbúnaði. Þetta hafði nú þá þegar verið gert að nokkru leyti, en eftir þennan fund var svo þetta verk, sem þá var í rauninni langt komið, tekið og gaumgæfilega endurskoðað af fleiri mönnum, því að þegar gerð er áætlun til 5 ára um framkvæmdir í íslenzkum landbúnaði, gefur að skilja, að þar þurfa að vera fleiri en einn og fleiri en tveir að verki. Í þetta gengu því tveir aðrir menn, fulltrúar í landbrn., þeir Árni Eylands og dr. Björn Jóhannesson. Lögðu þeir í þetta geysimikla vinnu í sumar og gerðu yfirlit um það, hve mikið þyrfti að byggja af húsum og gera yfirleitt á næstu 5 árum, og er þetta gert með tilliti til þess fjármagns, sem við kunnum að hafa yfir að ráða. Niðurstöður þeirrar áætlunar liggja ekki beinlínis fyrir tölulega, en í framhaldi af þessu hefur dr. Björn Jóhannesson gert yfirlit, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu, að eigi að framkvæma þessa 5 ára áætlun með þeim hraða, sem þörf er á, sérstaklega að því er snertir byggingu votheyshlaða, sem meiri hraði verður á í byrjun en þegar frá líður, þá þurfi í það eitt um 30 millj. kr.

Af þessu, sem ég nú hef sagt, sést, að það liggja fyrir áætlanir um það, sem við þurfum að framkvæma í íslenzkum landbúnaði á næstu árum, og tölulega, hvað við þurfum t. d. í ræktunarsjóð einan, en það er um 30 millj. kr. á næstu árum. Í þetta er ekkert fjármagn til, það er fljótsagt. Ég hef, eftir að þessi skýrsla lá fyrir, tekið þetta fyrir sex til sjö sinnum í ríkisstj., þar sem ég hef gert um það till., hvernig aflað yrði fjármagns í þessum efnum, og meðan það er á því stigi innan ríkisstj., þá ætla ég ekki að ræða um það hér. — Það má kannske gera enn þá ýtarlegri rannsókn í þessum efnum en þegar hefur verið gerð, en það liggur fyrir rannsókn um það, að það þarf svo geysilegt fjármagn í ræktunina, eins og ég sagði í upphafi, að því miður eru ekki miklar líkur til þess, að hægt verði á næstunni að fullnægja þeirri fjárþörf, sem þar er fyrir hendi, og bara af þeirri einföldu ástæðu, að við höfum mikilvirkar vélar til framræsla; bændur þurfa að fá lán til þess, þar á eftir kemur stórfelld ræktun með jarðýtum, sem skipta orðið mörgum tugum, og ef þær eiga að halda áfram að vinna, fer ræktun stórkostlega í vöxt, og þá þarf að byggja yfir þann aukna búpening, sem komið verður upp samhliða aukinni ræktun, og auk þess verður að byggja heygeymslur o. s. frv. — Það kapítal, sem nú þarf í landbúnaðinn borið saman við það, sem áður var, er alveg ósambærilegt, og þess vegna vildi ég óska eftir því, að flm. og aðrir, sem vilja vinna fyrir þetta mál, beini kröftum sínum að því ásamt ríkisstj. að útvega það fjármagn, sem þarf í íslenzkan landbúnað, til þess að þar verði ekki algerð kyrrstaða. Sem sagt, athugunar á þessu máli er ekki þörf, sú rannsókn hefur þegar verið framkvæmd, en það er fjármagnið, sem vantar.

Ég mun ekki gera það að neinu kappsmáli, til hvaða n. mál þetta fer. En mér fyndist þó eðlilegast, að það færi til fjhn., með tilliti til þess, sem ég hef nú sagt, og vildi ég óska eftir, að málið yrði fyrst og fremst athugað út frá því sjónarmiði, hvernig þingið vill standa á bak við ríkisstj. eða ýta á hana með að finna fjáröflunarleiðir í þessu skyni og útvega með einhverjum ráðum það fjármagn, sem þarf til landbúnaðarins, til þess að þar verði ekki hrein og bein kyrrstaða, en það er mjög erfitt að útvega það fjármagn, sem þarf, eins og komið er.