08.01.1951
Sameinað þing: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í D-deild Alþingistíðinda. (4180)

130. mál, lánsfjárútvegun til iðnaðarins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram um mína afstöðu, að ég hef ekkert við það að athuga, þó að þessi till. fari til n., til þess að hún geti athugað, hvernig þessum málum sé bezt fyrir komið, en hitt tel ég nauðsynlegt, að frv. um Iðnbanka Íslands, eða þá annað frv. svipaðs eðlis, nái fram að ganga, og vil ég ekki tefja fyrir framgangi þess, en það er í þessari till. nokkuð, sem gefur tilefni til þess, að það verði athugað í n. og jafnvel breytt, ef kostur er og samkomulag næst um það. Þessi till. fjallar um lánsfjárútvegun til iðnaðarins, og næsta dagskrármál á undan er um athugun á fjárþörf landbúnaðarins, og við vitum, að sömu óskir eru uppi um lán til íbúðarhúsa og ýmissa annarra nytsamra framkvæmda. Ég held, að það dugi ekki að taka þessi mál svo fyrir, að samþykkt sé hér nauðsyn á lánsfjárútvegun til iðnaðarins, í annað skipti til húsabygginga og síðan til landbúnaðarins, og síðan strandar þetta allt á því, að þeir, sem lánin eiga að veita, segja, að ekki megi lána meira en þegar hefur verið gert. Ég held því, að það sé verkefni fyrir hv. n. að athuga, hvort þjóðin hafi ekki efni á að lána sjálfri sér meira fé í þessu skyni, að öðrum kosti er þetta allt aðeins blekkingar, og almenningur verður að viðurkenna, að veita verði meira lánsfé til atvinnuveganna. En þjóðin hefur verið blekkt með hinu stöðuga umtali um lánsfjárþensluna, sem notað hefur verið til að hindra, að atvinnuvegirnir fái það fjármagn, sem þeir þurfa og hættulaust er að veita þeim. Ég held, að það sé nauðsynlegt, að sú n., sem fær þetta til athugunar, athugi þetta vel. Sú lánsfjárkreppa, sem nú er svo eftirtektarvert fyrirbrigði í ísl. atvinnu- og verzlunarlífi, er að mestu leyti heimatilbúin, og þjóðin þarf alls ekki að vera í lánsfjárkreppu, nema þá að því leyti, sem snertir erlendan gjaldeyri. Það er því bráðnauðsynlegt að athuga þetta atriði, og slík till. eins og sú, sem hér er um að ræða, er lítils virði, nema slík athugun fari fram og menn geti gert sér grein fyrir lánsfjárþörfinni í heild. Ég held því, að full þörf væri á því, að fram færi rannsókn á þjóðarauði okkar og lánveitingum innbyrðis hjá þjóðinni, svipað og í sambandi við skipulagningu atvinnuveganna 1934. Og það gerir þjóðinni stórum erfiðara fyrir í þessum efnum, að fjármálin eru ekki tekin fyrir og athuguð í heild. Ég hef á undanförnum þingum flutt ýmsar till. um lánsfjárveitingar til íbúðarhúsabygginga. Það er vitað mál, að verið er að féfletta fjölda launþega, sem komið hafa sér upp íbúðarhúsum, með þeirri stjórn, sem nú er á fjármálum hjá þjóðinni, og hve erfitt er að fá fé að láni og þá aðeins til skamms tíma, ef menn eru þá svo heppnir að fá lán. Það er því mikil hætta á því, að menn geti ekki staðið undir afborgunum og húsin komist á hendur örfárra auðugra manna, en allur þorri borgaranna verði leiguliðar, sem greiða þurfi háa húsaleigu. Ég held, að það væri mikill kostur, ef n. vildi gera sér grein fyrir því, hvert sé hlutfallið á milli eigna þjóðarinnar og lána þeirra, sem lánuð eru út á þær. Ég held, að það sé hollt að athuga það, að þjóðin hefur skapað svo mikið á s. l. 10 árum og sparað svo mikið, að menn hafa ekki gert sér grein fyrir því, að þegar ein þjóð hefur skapað og sparað svo mikið, þá þarf lánsfjárpólitíkin að fylgjast með, ef ekki á að féfletta meginþorra borgaranna. Þessi óvenju miklu verðmæti eru mest sköpuð af því, að öll þjóðin hafði vinnu. Ég skal nefna dæmi um þetta, en ég þekki ekki það til iðnaðarins, að ég geti einnig tekið dæmi þaðan, en það væri gott, ef hv. n. vildi athuga, hve mikið fé hafi verið fest í ísl. iðnaði, en fjárhagsráð hefur gert athugun á afköstum iðnaðarins, og er þá aðeins miðað við venjuleg afköst, eða 8 tíma vinnu á sólarhring, og eins að n. athugi, hve mikil lán iðnaðurinn hefur fengið, og þá mun áreiðanlega koma í ljós, að það er furðu lítið, ef miðað er við það fjármagn, sem í hann hefur verið lagt — og verðmæti framleiðslu hans. En ég vil benda á það, að eftir lauslegri athugun á fjármagni því, sem liggur í byggingum, þá mun brunabótamat þeirra vera ca. 3500 millj. kr., og þar af hefur 1800 millj. kr. verðmæti skapazt á síðustu 10 árum. Það er gaman að vita, hvað lán út á þessi hús eru mikil til samans, en veðlánadeild Landsbankans hefur lánað út á þau 40 millj. kr. og lán veðdeilda allra bankanna nema til samans 70–80 millj. kr. Það er stundum talað um lánsfjárþenslu, en ég held, að öll lán bankanna nemi um 1100–1200 millj. kr., en innlög um 700 millj. kr. á móti. Ég held, að það komi í ljós, að það, sem þjóðin skapar, sé gert með hverfandi litlum lánum á móts við hin sköpuðu verðmæti. Við skulum gera okkur ljóst, hvað lánsfjárkreppa þýðir. Hún þýðir það að gera hinum efnaminni ómögulegt að eignast fasteignir og atvinnutæki, og ég vona, að mönnum sé það ljóst, því að ég held, að það sé nauðsynlegt að athuga sjálfa lánsfjárpólitíkina í sambandi við þetta. Hvort þjóðin sé á réttri braut með því að takmarka svo mjög lánsfjárveitingar, að það standi þjóðinni fyrir þrifum og að þeir efnaminni missi eignir sínar í hendur fárra stóreignamanna. Ef við viljum viðhalda hinu efnahagslega jafnvægi síðustu 10 ára, þá verðum við að tryggja með hagstæðum lánum, að menn hafi efni á að halda í hús sín, báta eða verkstæði, því að það er ekki heppilegt, að bjargálna mönnum fækki og mismunur á milli hinna fátæku og ríku aukist, en slíkur jöfnuður verður einmitt bezt tryggður með heppilegri lánsfjárpólitík. N. þarf því að fara út fyrir það, sem hér er gert ráð fyrir, og skapa sér hugmynd um heildarlánsfjárþörf þjóðfélagsins og hvort ekki sé hollt fyrir þjóðina að auka það lánsfé, sem nú er í veltu. Það er ekki til neins að samþ. í dag frómar óskir um fjárþörf til húsbygginga og á morgun til landbúnaðarins og síðan til iðnaðar. Við verðum að skapa okkur hugmynd um þetta í heild og hvort stefnan sé rétt. Ég vildi aðeins segja þetta, sem ég hef nú sagt, til þess að vita, hvort hv. n. vildi ekki taka það til athugunar, en ég væri hlynntur breytingu á þessari till., svo að hún stæði að engu leyti sem andstaða gegn frv. því um að bæta úr lánsfjárþörf iðnaðarins, sem nú liggur fyrir Nd. þingsins.