29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (4339)

94. mál, Keflavíkurflugvöllur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég kann ekki við, að hv. 10. landsk. þm. (MK) sé að hafa upp eftir mér ummæli, — fund eftir fund — sem ég hef aldrei sagt og leiðrétti við síðustu umr. um þetta mál. — Ég sagði hv. þm. þá, að það tæki langan tíma að fá svör við mörgum atriðum í fsp. hans, og þar að auki eru sum þess eðlis, að það er á valdi ráðh., hvort hann vill svara þeim eða ekki. Hv. þm. hafa ekki einhliða rétt á að koma fram með eins fráleitar fsp. og þeim þóknast og skylda ráðh. til að svara þeim. Svör við fsp. hv. 10. landsk. þm. liggja ekki fyrir, og mun ég því ekki svara henni frekar á þessu stigi málsins.