07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (4427)

909. mál, vínveitingaleyfi lögreglustjórans í Reykjavík

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Samkvæmt þingsköpum hef ég aðeins 5 mín. til umráða til að ræða um þessa mjög löngu og merkilegu ræðu hæstv. dómsmrh. og get því fátt eitt nefnt af því, sem ástæða væri til að drepa á.

Hann byrjaði sína löngu ræðu á að fagna því, að samvizkan væri loks vöknuð hjá mér, en það væri samt nokkuð seint, því að sami háttur hefði verið hafður á um þessi mál öll þau ár, sem ég hef setið á þinginu, og hann spyr, hvers vegna ég hafi ekki vakið athygli á þessu fyrr. Því er til að svara, að í fyrsta lagi hef ég ekki talið það mitt hlutverk sérstaklega að vaka yfir því, að lögreglustjórinn bryti ekki skýlaus lagafyrirmæli, það væri frekar hlutverk hæstv. dómsmrh. Í öðru lagi hef ég ekki stundað að ganga á drykkjustofur, hvorki hér í Reykjavík né annars staðar, til að sitja þar og drekka, og þess vegna hef ég síður en margir aðrir fylgzt með gangi þessa máls.

Mér er sagt, og það var að nokkru leyti staðfest í ræðu hæstv. ráðh., að þessi vínveitingaleyfi hafi farið ákaflega í vöxt á síðustu árum. Hann upplýsti, að árið 1945 hafi tala vínveitingaleyfa verið alls 423, en árið 1950 hafi þau verið um 1100. Talan hefur þannig meir en tvöfaldazt á þessu árabili. Hæstv. ráðh. ber ekki á móti því, að hér kunni að hafa verið brotin lög og reglugerðarákvæði. En hann segir aðeins: Ef um brot er að ræða, þá hafa þessi fyrirmæli verið brotin um langan aldur, og allir dómsmrh. s. l. 25 ár hafa látið það afskiptalaust. M. ö. o., hæstv. ráðh. virðist telja, að þótt í ljós komi, að lögreglustjórinn í Reykjavík sé brotlegur við þessi lagafyrirmæli, þá sé það ekki saknæmt, af því að hann hefur brotið þetta áður og fyrirrennarar hans þar áður.

Ég verð að segja það, að mér finnst það einkennileg réttarfarshugmynd hjá hæstvirtum dómsmrh., sem hér kemur fram, og þetta minnir mig á sögu um bílstjóra. Bílstjóri nokkur var leiddur fyrir rétt hjá sýslumanni, ákærður fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis. Bílstjóranum fannst skrýtið, að það skyldi vera farið að kæra hann, hann kvaðst hafa gert þetta svo oft áður. Sagði hann margar sögur máli sínu til stuðnings um, hvar og hvenær hann hefði keyrt drukkinn, en þeir, sem með honum hefðu verið, hefðu ekki farið að kæra hann. Aumingja bílstjórinn var svo óheppinn, að hæstv. dómsmrh. var ekki sýslumaður þarna. Hefði hann verið það, þá hefði hann sjálfsagt sagt: „Jæja, góði minn, fyrst þú hefur gert þetta svo oft áður, hvaða vit er þá í að kæra þig með slíku offorsi? Þú skalt bara fara, þetta er allt í lagi.“ Nei, hann átti ekki því láni að fagna aumingja pilturinn, og hann var dæmdur til refsingar af þessum sýslumanni og sízt vægar fyrir málsbæturnar, sem hann færði. Ég get búizt við, vegna þessarar nýju réttarfarshugmyndar, að ég verði krafinn sagna um, hver þessi sýslumaður var, og síðan verði hann kærður fyrir embættisafglöp vegna meðferðarinnar á bílstjóranum.

Hæstv. ráðh. sagði, að ef ætti að fara eftir bókstaf reglugerðarinnar, þá væri ekki hægt að leyfa vínveitingar neinum félögum, sem hafa veizlur á veitingahúsum. Þetta hefur vitanlega ekki við nein rök að styðjast.

Minn tími er nú búinn, og ég hef ekki leyfi til að tala aftur, þó að ráðh. vildi svara þessu einhverju á sama hátt og hv. þm. Vestm. svaraði mér áðan, eftir að minn tími var úti. Hæstv. ráðh. sagði, að hann vildi vinna að endurskoðun áfengislöggjafarinnar, svo að hún gæti farið fram og Alþ. skæri úr, hvort leyfisveitingarnar væru of rúmar. Mér finnst, að nú sé það aðalatriðið, að farið sé eftir gildandi lögum, á meðan þau eru í gildi, og hann ætti að láta þetta mál lögreglustjórans í Reykjavík ganga til dómstólanna, ef hann vildi standa vel í stöðu sinni.