08.01.1951
Sameinað þing: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (4457)

131. mál, viðbúnaður vegna ófriðarhættu

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. fara nokkuð geyst í þessu máli, og ef til vill að hann sé þá ekki málinu eins kunnugur og hans staðhæfingar gefa til kynna. Vitanlega er í stofnun eins og landssímanum kvenfólk yfirleitt haft við afgreiðslustörf símans, og ég hygg, að slík störf fari konum betur úr hendi en karlmönnum, og þessi afgreiðslustörf heyra undir lægri launaflokkana.

Hins vegar telja yfirmenn símans, að 36. gr. l. hafi verið fylgt mjög vel hjá landssímanum, því að þar vinni konur við hlið karlmanna með sömu laun, t. d. séu konur starfandi sem símstjórar, fulltrúar, loftskeytamenn, yfirvarðstjórar o. s. frv. Þetta bendir ekki til þess, að konum sé útskúfað í þessari stofnun á þann hátt, sem hv. þm. gaf í skyn í sinni ræðu.