31.01.1951
Sameinað þing: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (4470)

134. mál, endurheimt handrita frá Danmörku

Pétur Ottesen:

Eins og nál. allshn. á þskj. 520 um þetta mál ber með sér og hv. frsm. n., 1. þm. Árn., hefur nú gert hér grein fyrir, þá leggur allshn. til, að þessi till. verði samþ. með þeirri breyt., að ályktunin, sem væntanlega verður samþ. um þetta mál, hljóði eingöngu um endurheimt handritanna, en fellt sé niður úr till. að gera ályktun að svo stöddu um endurheimt þeirra forngripa, sem Íslendingar eiga í söfnum í Danmörku. Færði hv. frsm. þau rök fyrir þessu máli, að till. yrði haldið í svipuðu formi og verið hefur hér á Alþ., þegar ályktanir hafa hér verið um þetta gerðar, að þær tóku eingöngu til endurheimtar handritanna. Þó tók hv. frsm. skýrt fram, að álit hv. allshn. væri það, að því er snertir forngripina, að við Íslendingar hefðum óskoraðan alveg sams konar og hliðstæðan rétt til þess að krefjast endurheimtar á þeim eins og á handritunum, þó að n. líti svo á, að að þessu sinni bæri að snúa sér að endurheimt handritanna einna. Ég vil mjög taka undir það með hv. frsm. n., að réttur okkar Íslendinga til þessara forngripa er, eins og gildir um handritin, alveg skýlaus og ótvíræður. Þess vegna ber ekki að leggja þann skilning í þessa brtt., sem hér er gerð, að kröfur okkar verði lagðar til hliðar að fullu gagnvart forngripunum, með því að láta nú að þessu sinni niður falla áskorun til ríkisstj. viðkomandi endurheimt þessara forngripa. Það stendur opið fyrir Íslendinga að gera það hvenær sem er, eins og hv. frsm. allshn. tók mjög skýrt fram. Það er vitað, að þessir forngripir hafa borizt til Danmerkur með mjög svipuðum hætti og handritin, þannig að það er fyrir ákvörðun og ásælni danskra stjórnarvalda, sem forngripirnir eru þangað komnir. Árið 1807 er stofnuð svo kölluð fornleifanefnd í Danmörku, sem starfaði þar nokkra áratugi. Og eitt af verkefnum þeirrar n. var að beina því til Íslendinga eða að láta dönsk stjórnarvöld beina því til Íslendinga, sem gert var 1817, að prestum hér var falið að grennslast eftir því, hverjum í sinni sókn, hvað væri til af fornminjum, og senda dönsku stjórninni að rannsókn lokinni skýrslu um það. Eftir að þetta var gert, sneru dönsk stjórnarvöld sér að því að fá fluttar héðan til Danmerkur ýmsar af þessum fornminjum, og gekk það mest út yfir dýrmæta merkisgripi, sem fluttir voru til Danmerkur fyrir milligöngu íslenzku prestanna á þeim árum. Þetta mun hafa farið fram svo, að lítil og í sumum tilfellum engin greiðsla kom fyrir þessa gripi. — Þannig er þá til kominn flutningur þessara dýrmætu gripa margra til Danmerkur. — Nú liggur fyrir í menntmrn. skýrsla um þessa gripi, sem Matthías Þórðarson fyrrv. fornminjavörður hefur samið, sem er sundurliðuð nokkuð, þannig að sérstök skýrsla er yfir þá gripi, sem hann leggur mesta áherzlu á að endurheimtir verði. Enda eru það þeir gripir, sem okkur eru mests virði, m. a. af því, að slíkir gripir eða sömu gerðar eru ekki til í söfnum vorum hér á landi.

Í orðalagi þessarar brtt., að því leyti sem það tekur til handritanna, felst sams konar meining, að því er handritin snertir, og jafnrík áherzla 1ögð á það af hálfu n. eins og gert er af mér í tillögunni, að unnið sé að því af íslenzku ríkisstjórninni, að gerð sé gangskör að því að fá vilja Íslendinga í þessu efni framgengt. Ég tel þess vegna, að mjög merkilegt spor sé stigið með samþykkt þessar till., jafnframt því sem við geymum okkur skýlausan rétt til að krefjast þess, að skilað verði aftur þeim dýrmætu forngripum, sem Íslendingar eiga í söfnum í Danmörku.