13.12.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

1. mál, fjárlög 1951

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég er nú hér meðflm., ásamt fleiri hv. þm., að nokkrum brtt., sem ég mun síðar mæla fyrir. En mig langaði til að segja nokkur orð, sérstaklega út af því, sem hæstv. fjmrh. kom hér inn á áðan. Og ég held, að það væri ákaflega heppilegt, ef við gætum rætt það alveg raunhæft, hvort þær skoðanir, sem hæstv. fjmrh. hafði og liggja til grundvallar fyrir afgreiðslu fjárl., eins og hann skýrði, séu réttar, því að það veltur ekki á neinu smáu um það, hvort sjálf undirstaðan, sem við byggjum afgreiðslu fjárl. á í þessu sambandi, sé í samræmi við staðreyndir. Og það eru þá sérstaklega tvö spursmál, sem ég vildi gera í eins stuttu máli og ég get að umtalsefni. Það er í fyrsta lagi, hvort það eigi að vera meginregla að afgr. greiðsluhallalaus fjárl. Og í öðru lagi er spurningin um, við hvaða takmörk ber að miða hæfilega fjárfestingu, hvaða fyrirbrigði það séu í þjóðfélaginu, sem það eigi raunverulega að marka.

Hæstv. fjmrh. virtist ganga út frá tvennu, þegar hann talaði um fjárfestingu, þannig að það væri tvennt, sem fyrst og fremst markaði það, hvað þjóðfélagið treysti sér til að leggja í fjárfestingu á hverjum tíma. Í fyrsta lagi þjóðartekjurnar, í öðru lagi lán erlendis frá.

Við skulum athuga fyrra atriðið, þjóðartekjurnar. Þær eru engin föst stærð, og eru auk þess stærð, sem ríkið, m.a. með sinni fjármálastjórn, hefur áhrif á og ræður að mjög miklu leyti, hve miklar séu á hverjum tíma. Mér finnst, að hæstv. ráðh., þegar hann skilgreinir, hver þarna séu takmörkin fyrir hóflegri og réttri fjárfestingu hjá einni þjóð, þá taki hann ekki nægilega djúpt. Hann heldur sig á yfirborðinu, í því, sem nú mest brestur á hjá okkur, sem eru peningarnir. Hann miðar við, að þjóðartekjurnar eru svo og svo miklar að peningamagni, sem þjóðin hefur til umráða, sem er oft af meira eða minna óviðráðanlegum ástæðum á hverjum tíma hverjar eru, og hins vegar við það, að spurningin sé um það, hve mikið af lánum –sem er peningamagn í viðbót — þjóðin getur fengið erlendis. — En er þetta rétt? Þarna verðum við að kanna niður fyrir það spursmál, sem peningarnir sjálfir eru. Hvað er það, sem við í raun og veru þurfum til fjárfestingar á hverjum tíma? Og með fjárfestingu meinum við, eins og hæstv. ráðh. taldi réttilega upp, byggingu Sogsvirkjunar, Laxárvirkjun, áburðarverksmiðju og ýmsar verksmiðjubyggingar fleiri o.fl. Hvað þurfum við í raun og veru til þessara hluta, þegar við förum niður fyrir sjálft yfirborðið, sjálfa peningana? Það er í fyrsta lagi vinnuafl. Í öðru lagi þurfum við tæki handa þessu vinnuafli til þess að vinna með. Og í þriðja lagi þurfum við efni til þess að skapa þessa hluti úr, útlent og innlent efni. Það er þetta þrennt, sem við þurfum til þess að skapa þá fjárfestingu, sem við erum að skapa. Og við verðum að gera okkur það ljóst, og á því verðum við að byggja, ef við ætlum að ræða þessa hluti raunhæft, að það er þetta þrennt, sem við þurfum að hafa. Peningar eru aðeins ávísun á þetta þrennt. Við getum haft yfirdrifið af peningum, en ef við höfum ekki þetta þrennt, þá hjálpar það okkur ekki. Þó að við höfum hér svo eða svo mikið af seðlum, en ekkert vinnuafl afgangs eða ekkert vinnuafl til þess að vinna með, eða okkur vantar efni til að vinna með, hjálpa peningar okkur ekki. Peningarnir eru eins og ávísun, sem maður, sem á inni í banka, gefur út, þar sem hann gefur út ávísun á sinn sparisjóð og fær þaðan út það, sem þar er. Annað eru peningarnir ekki. Og ef við ætlum að reka okkar þjóðfélag þannig, að við hagnýtum þær auðlindir, sem þjóðin hefur, þá verðum við að viðurkenna, að peningarnir eru ekki annað en ávísanir, þegar öllu er á botninn hvolft. Spurningin þess vegna, hvernig við nýtum okkar þjóðarauð og þjóðarauðlindir, fær sitt svar eftir því hvernig við hagnýtum og að hve miklu leyti við ráðum yfir þessu þrennu, sem eru meginatriði málsins. Og þar komum við strax að því, sem hefur verið sett upp sem meginatriði í þjóðmegunarfræði eftirstríðstímans. Vinnuaflið hefur verið sett sem höfuðatriðið í allri skynsamlegri þjóðskipulagsfræði eftirstríðstímans. Og vinnuaflið verðum við að hagnýta hundrað prósent.

Síðan er það atriðið, er við kemur tækjunum. Við búum tiltölulega vel hvað tæki snertir hér á Íslandi, og hlutfallslega betur en flestar aðrar þjóðir, miðað við landið og fólksfjöldann. Og mikið af þeim tækjum, sem við höfum til að byggja með og slíkt, er ónotað. — Hvað efnið snertir skiptir þar í tvö horn. Við höfum ýmislegt til bygginga, sem lítil takmörk eru fyrir að magni, þ.e. innlenda efnið, en útlenda efnið byggist á því, hve gjaldeyririnn er mikill á hverjum tíma. — Það er því tvennt, sem verður erfiðast að taka ákvörðun um, vinnuaflið og hið útlenda efni, t.d. vélar og verksmiðjur, sem við þurfum að fá frá útlöndum og þurfum gjaldeyri til.

Þegar við þess vegna tökum ákvarðanir um fjárfestingu, t.d. í arðberandi fyrirtækjum eins og Sogsvirkun og Laxárvirkjun og áburðarverksmiðju og slíkum verksmiðjum, sem á yfirborðinu ekki virðast arðberandi, en eru samt arðberandi, eins og vegir og brýr og annað slíkt er í raun og veru arðberandi í stórum stíl fyrir þjóðina, rétt eins og skólarnir eru arðberandi, þá þurfum við að gæta að, hve mikið vinnuafl við getum sett í þessa hluti og hve mikið við getum sparað af vinnuafli úr óarðbærum störfum til þess að geta sett í þessa hagnýtu framleiðslu. Okkar vinnuafl er nú, vegna okkar tækja, afkastameira en verið hefur. Það er t.d. svo við okkar vegalagningar, að hver vinnustund er afkastameiri en áður. Til byggingarvinnu höfum við miklu stærri og afkastameiri vinnutæki en áður. Okkar vinnuafl afkastar nú miklu meiru en áður var. — Hvað er þá spursmálið í sambandi við fjárfestinguna, vinnuaflið og slíkt? Það er að hagnýta það vinnuafl hundrað prósent, sem til er. Af hverju? Af því að fyrir þjóðina sem heild þýðir hver vinnudagur, sem einn verkamaður er atvinnulaus, eyðslu fyrir þjóðfélagið, tvöfalda eyðslu. Í fyrsta lagi eyðslu í því tilliti að láta ekki manninn vinna og tapa þar með því verðmæti, sem hann gat skapað með vinnunni, og í öðru lagi þá eyðslu, sem í því liggur, að í okkar menningarþjóðfélagi látum við manninn lifa, þó að hann vinni ekki, því að við veitum honum þá fátækrastyrk í sérstökum tilfellum, ef nauðsyn krefur, til þess að hann geti dregið fram lífið, — þó kannske sé við sult og seyru. Með þessu glötum við hans vinnuafli, og í öðru lagi verðum við að taka af vinnuafli annarra manna, til þess að halda honum uppi. M.ö.o., mesta eyðslan, sem við getum framið fyrir okkar þjóðfélag, er að láta manninn vera atvinnulausan. Og ef þannig stæði á í okkar fjárfestingu og okkar fjármálapólitík, að okkur skyldi skorta erlendan gjaldeyri fyrir útlent efni, sem við vildum gjarnan fá, — t.d. í íbúðarhús eða alls konar verksmiðjur eða stórvirkjanir eða annað slíkt — þá mundum við, út frá þessu sjónarmiði, ef vinnuafl væri til óhagnýtt, ráðstafa því t.d. í virkjunarframkvæmdir, — sem við köllum óarðbærar eins og vegi og annað, — til þess að hagnýta vinnuaflið til fulls. Og þetta þýðir enn fremur annað. Svo framarlega sem við hagnýtum vinnuaflið til fulls, svo sem ég hef drepið á, þá þýðir það aukningu þjóðarteknanna í stórum stíl. Á því hvernig við hagnýtum vinnuaflið, veltur það að mjög verulegu leyti, hvort þjóðartekjurnar eru miklar eða litlar. Og þetta fer mikið eftir ákvörðun Alþ. sjálfs, eftir því, hvernig það vinnur að atvinnumálum landsins og gengur frá málum atvinnuveganna, sem sagt eftir því, hvort vinnuaflið er hagnýtt til fulls. M.ö.o., þjóðartekjurnar eru ekki stærðfræðileg stærð, sem sé óháð okkar ráðstöfunum. Þjóðartekjurnar, að svo miklu leyti sem við eigum við gjaldeyristekjur af þeim vörum, sem við seljum erlendis, þær geta að nokkru leyti kannske verið undir öðrum aðilum komnar en okkur sjálfum, en við getum þó um það mjög miklu ráðið sjálfir líka, hverjar þær eru. Það veltur á því, hvort við erum framsýnir og duglegir eða skammsýnir og óduglegir. Við getum ekki nema að nokkru með dugnaði og framsýni gert sjálfar gjaldeyristekjurnar svo miklar sem við óskum. En þó gætum við, með því að beina betur okkar vinnuafli að því verki, sem við erum að vinna, gert þjóðartekjurnar meiri á því sviði.

M.ö.o., þjóðartekjurnar, hve miklar þær eru, markast af þeirri stefnu, sem Alþ. og ríkisstj. tekur á hverjum tíma um hagnýtingu vinnuaflsins og tækjanna og auðlinda þjóðarinnar. Innan þessara þjóðartekna getur svo hlutfallið orðið misjafnt, þ.e. hve mikill hluti af þessum þjóðartekjum er erlendur gjaldeyrir og hve mikið innlendur gjaldeyrir, sem gæti svo aftur markað það t.d., hve miklu þjóðin treystir sér til að geta eytt í að kaupa vörur fyrir frá útlöndum og hve mikið hún yrði að láta sér nægja að hagnýta þjóðartekjurnar hér innanlands eða jafnvel að spara og leggja til hliðar, og þá gengið út frá því að geta samt sem áður hagnýtt vinnuaflið. — Út frá þessu ber okkur líka að athuga það, að um leið og við þannig gætum slegið því föstu, að full hagnýting vinnuaflsins væri fyrsti og aðalgrundvöllurinn að miklum þjóðartekjum fyrir okkur og að velfarnaði þjóðarinnar, þá verður um leið sjálf okkar lánsfjárpólitík hér innanlands að miðast við þetta. — Við hvað takmarkast raunverulega það, sem annars mundi kannske vera kallað lánsfjárþensla í lánsfjárstarfsemi ríkisbankanna hjá okkur hér á Íslandi, þegar við köfum í því efni til botns og látum ekki staðar numið við yfirborðið, við peningahliðina? Það fé, sem bankarnir lána út, eru ávísanir á hin raunverulegu verðmæti, sem fyrir hendi eru í þjóðfélaginu. Ef ríkisbanki ætlar að veita meiri lán en sem þjóðartekjunum nemur, þá leiðir það til hreinnar vitleysu. Hins vegar takmarkast lánastarfsemin þannig, að það kostar atvinnuleysi, að það sé svo og svo mikið vinnuafl, sem ekki er hagnýtt, sem leiðir til eyðslu og fátæktar og jafnvel stöðvunar á verksmiðjum. M.ö.o., í þjóðfélagi eins og okkar, þar sem bankarnir eru ríkisbankar, þá á þjóðbankinn að marka sína lánsfjárstarfsemi við það, að vinnuaflið sé hagnýtt til fulls. Og með því verða þjóðartekjurnar líka mestar. Það, hvort þjóðbankinn í þessu tilfelli treystir sér til að lána ríkinu til framkvæmda, hlýfur þess vegna að miðast fyrst og fremst við þennan hlut, hve mikið þetta ríki hagnýtir af vinnuafli og hve mikið er eftir af því vinnuafli, sem til er í landinu, — ef við látum einstaklingsfyrirtækin ganga fyrir, — sem ekki er hagnýtt, nema ríkið geri skipulega starfsemi til að hagnýta það. Og verkefni bankanna hlýtur að skoðast það að lána til þess að hagnýta þetta vinnuafl til fulls. Bankarnir eru þá að gefa út ávísanir á það vinnuafl, sem er raunverulega annars tapað þjóðinni. Og ríkisstj., sem ræður bönkunum, lætur þá náttúrlega bankana reka slíka fjármálastarfsemi. Og vilji bankarnir ekki beygja sig fyrir slíku, ef þeir setja einhver önnur sjónarmið upp fyrir þetta, að nota vinnuaflið til fulls, þá breytir auðvitað Alþ. sem stjórnari þeirra þeim reglum með lögum, sem bankarnir hafa, þannig að þeir verði að hlýða. Þetta verðum við að gera okkur ljóst, þegar Alþ. raunverulega stjórnar allri fjármálastarfsemi þjóðarinnar.

Ég held þess vegna, þegar hæstv. fjmrh. takmarkar sig í sinni ræðu við þetta tvennt, sem takmarki fjárfestinguna og þar með líka verklegar framkvæmdir, þjóðartekjurnar annars vegar og erlend lán hins vegar, þá risti hann ekki nægilega djúpt í þessum efnum, hann kafi ekki til botns, heldur láti staðar numið við yfirborðið, í staðinn fyrir að athuga, hverjar raunverulegar auðlindir þjóðarinnar eru, allt frá því efni, sem við hagnýtum úr jörð, og að athuga, að í okkar starfsemi sé séð um fulla hagnýtingu þessara hluta.

Og nú vil ég í þessu sambandi ræða nokkuð það, sem hæstv. ráðh. minntist á einmitt út frá þessum hugmyndum sínum, sem ég held, að styðjist þarna ekki við staðreyndir. Hæstv. ráðh. sagði, að við hefðum ekki dregið nóg úr peningamagninu, sem í umferð væri, í hlutfalli við minnkun þjóðarteknanna. Hann álítur jafnvel, að við höfum ekki dregið nóg úr kaupgetunni. Sannleikurinn er, að peningamagnið, sem í umferð er í þjóðfélaginu nú, er of lítið til þess að hagnýta til fulls þau tæki, það efni og það vinnuafl, sem við höfum. Það eru þúsundir manna, sem ganga atvinnulausir á Íslandi sem stendur. Og hver einasti vinnudagur þeirra, ef vinnuafl þeirra væri hagnýtt, mundi skapa auknar þjóðartekjur, en eins og er fer það forgörðum. Það glatast daglega fyrir Ísland svo millj. kr. skiptir í verðmætum, vegna þess vinnuafls, sem ónotað er. (HV: Þeir mega helzt ekki vinna. Það mundi skapa kaupgetu.) Og það er vegna þess, að þessir menn eru ekki látnir vinna. Hvað þýðir það? Að þjóðartekjurnar minnka. Ef við ætluðum að fara inn á það að minnka peningamagnið í umferð í hlutfalli við minnkaðar þjóðartekjur, þá þýddi það það, að við minnkuðum þetta smám saman niður í ekki neitt. — Nei., þvert á móti, þegar þjóðartekjurnar minnka vegna atvinnuleysis hjá þjóðinni, þá er það ekki það, sem hefur þýðingu, að minnka peningamagnið, heldur að auka það, til þess að setja í gang ónotað vinnuafl, sem til er. Og ef hv. þm. héldu, að ég væri að prédika bolsévisma, þá vil ég minna á, hvað Roosevelt gerði 1932, þegar hann bjargaði auðvaldsskipulaginu í Bandaríkjunum frá hruni, í raun og veru með því að deila út til fólksins peningum í formi styrkja til þeirra, sem bágt áttu, í formi stórkostlegrar atvinnubótavinnu til þeirra, sem atvinnulausir voru, í formi gífurlegra lána og styrkja til bænda; og þetta allt til þess að koma kaupgetunni í gang, til þess að koma fólkinu til að kaupa vörur og til þess að koma framleiðslunni þannig í gang. — Spurningunni, sem hæstv. fjmrh. stillti upp, hvort við hefðum dregið nóg úr kaupgetunni eða hvort við þyrftum að draga meir úr henni, verður ekki hægt að svara öðruvísi en þannig, að sannleikurinn er, að við höfum gert það svo mikið hjá fátækasta hluta þjóðarinnar, að hann líður neyð. Við þurfum að horfast í augu við, að það er búið að skapa þannig neyð hjá fátækasta hluta alþýðunnar, að menn hafa ekki efni á að kaupa það, sem hér er til, og þessir menn hafa vart efni á að veita sér brýnustu nauðsynjar til þess að draga fram lífið. Það er skortur, sem allt að því liggur við sulti, á fjölmörgum alþýðuheimilum á Íslandi. Hitt er líka rétt, að það er nokkur hluti þjóðarinnar, sem ekkert hefur dregið úr kaupgetu hjá, og það er það fólk, sem heldur því mikla kaupi, sem það hefur haft. Og það er það fólk, sem er voldugast í flokkum hæstv. ríkisstj., sem ekki þolir, að á það séu lagðir einu sinni skattar. Ég býst við, að skattfrelsisfrv. fyrir eitt ríkasta fyrirtæki landsins komi hér fram rétt strax á Alþ. Þess vegna skulum við gera okkur ljóst, þegar við tölum um kaupgetu, hjá hverjum hún er. Það er rétt, að það hefur ekki verið dregið nægilega úr kaupgetunni hjá auðmannastéttinni í Reykjavík. Og það hefur ekkert frv. komið fram um að draga úr henni. En það hefur verið dregið rækilega úr kaupgetu hlutarsjómanna og sjómanna, sem ekki hafa fengið greiddar sjóveðskröfur sínar frá 1949, og þeirra, sem hafa verið meira og minna atvinnulausir, og það stórum meira en þeirra, sem hafa haft atvinnu árið um kring. Og halda menn nú, að kaupgeta verkamanns, sem hefur 20–24 þús. kr. í árstekjur hér í Reykjavík, sé það mikil, að hann hafi nokkuð fram yfir brýnustu nauðsynjar? Hæstv. ráðh. minntist á, að hann segði þetta ekki út í bláinn, við gætum bara litið í kringum okkur. Og við getum gert það hér í Rvík. Hafnarverkamaður, sem vinnur á eyrinni, á þeim bezta vinnustað, sem er við höfnina, sagði mér, að hann hefði unnið á 10 mánuðum í 180 daga, og er þetta með betri aðstöðu, sem gerist, þar sem hann vinnur hjá Eimskip. Og við getum gert okkur í hugarlund, þegar dagar falla þannig úr, að ekki er unnið nema kannske 1/3 eða 1/4 úr árinu, hvernig afkoman muni vera. Það er enginn vafi á því, að fyrir þetta fólk mundi kauphækkun koma fram sem kjarabætur. Hitt er annað mál, ef valdahlutföllin í þjóðfélaginu eru þannig, að auðmannastéttin heldur áfram að hækka vörurnar í verði og taka þannig skatt í gróða til sín. Hvernig sem verkamaðurinn bætir sitt kaup, má þannig eyðileggja kauphækkunina fyrir honum á þann hátt. Við verðum að gera okkur ljóst, að við erum komnir það langt með að rýra kaupgetu þessa fólks, að það fer að nálgast neyð hjá þeim hluta alþýðunnar, sem bágust hefur kjörin, þannig að almennar ráðstafanir, sem koma niður á öllum verkalýðnum, verða beinlínis til þess að skapa vandræðaástand og auka fátækraframfærsluna í þjóðfélaginu.

Nú minntist hæstv. ráðh. á, út frá þessari forsendu, að við hefðum ekki dregið úr peningamagninu, að til þess að komast úr öngþveitinu, eins og hann kallaði það, yrði að afgr. fjárl. með enn meiri tekjuafgangi og minnka enn fleiri verklegar framkvæmdir en gert er ráð fyrir í fjárlfrv. Ég vil spyrja hann: Hvernig stendur á því, að þegar við hér á Alþ. eigum að ræða um fjárfestingu ríkisins í sambandi við fjárl. og ríkisstj. hefur sérstaka n., sem hún sjálf skipar og kostar rúmar 4 millj. kr. á ári, til þess að útbúa fjárfestingaráætlun, — hvernig stendur á því, að þessi fjárfestingaráætlun fylgir ekki fjárlfrv.? Það þýðir ekki að koma til alþm. og segja: Það eru svona stórar framkvæmdir fyrirhugaðar á næsta ári. — Það, sem á að fylgja fjárlfrv., a.m.k. þegar það kemur frá fjvn., er fjárfestingaráætlun fjárhagsráðs, og það er vítavert af þeirri stofnun að láta ekki þá fjárfestingaráætlun í té. Hún á að fylgja með, og það er varla hægt að afgr. fjárl. þannig, að nokkur raunhæfur grundvöllur sé fyrir þeim, eins og þjóðfélag okkar er orðið, án þess að þessi fjárhagsáætlun liggi fyrir. Og ég vil minna á það, að þegar fjárhagsráðsl. ríkisstj. voru afgreidd upphaflega, 1947, lagði ég til í brtt. við þau, að það væri beinlínis skylda, að þetta fylgdi með. Nú vitum við, áð þetta hefur verið þannig, að stundum hefur fjárhagsráð ekki komið með sína fjárfestingaráætlun fyrr en á miðju því ári, sem hún átti að gilda fyrir.

Svo vil ég minnast á annað í sambandi við þetta mikla fé, sem við þurfum í þrjú fyrirtæki: Sogsvirkjunina, áburðarverksmiðjuna og Laxárvirkjunina, sem kosta 130 millj. kr. Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin eru hlutir, sem búið er að gera raunverulegan undirbúning að og vonir standa til, að verði unnið við á næsta ári. Mér er spurn, og vildi að ráðh. upplýsti það: Hvernig er hins vegar með áburðarverksmiðjuna? Er það fé frá Marshallstofnuninni til þessa fyrirtækis, sem fram að þessu hefur staðið á? Er það enn þá aðeins vonin, sem hæstv. ráðh. byggir á, þegar hann talar um áburðarverksmiðjuna í sömu andrá og Sogsvirkjunina, sem fengið er Marshallleyfi fyrir? — En þegar talað er um 130 millj. í þessi þrjú fyrirtæki, hefur þá ráðh. athugað, hvað það er mikið vinnuafl, sem við notum í þessi tvö fyrrnefndu fyrirtæki? Við vitum að því er snertir hið útlenda efni til Laxárvirkjunarinnar og Sogsvirkjunarinnar, að þar er um að ræða Marshallfé. Við vitum, að mikið — já, meginhlutinn af því fé, sem notað er til þessara fyrirtækja, kemur úr mótvirðissjóði, þannig að það fé, sem varið er til að koma upp Sogsvirkjuninni og Laxárvirkjuninni, það þarf lítið að taka af því innlenda fjármagni til þess að kosta þetta, næstum því ekki neitt. M.ö.o., öll útgjöld að því er snertir efni og vélar til þessara tveggja fyrirtækja eru að mestu leyti utan við þá venjulegu fjárhagsáætlun ríkisins, tekst ekki af okkar útflutningi né hinu almenna lánsfé bankanna. En hvað þarf svo mikið vinnuafl við Sogsvirkjunina? Það eru kannske 200 menn, sem koma til að vinna þar. Ég skal ekki fullyrða það, en ég hygg, að það sé ekki fjarri lagi. Og sé það nærri lagi, er þetta lítið meira vinnuafl en það, sem Reykjavíkurbær hefur haft við Sogsvirkjunina fyrst, árin 1936–37 eða þar um kring. Þetta vinnuafl nú er því — mér liggur við að segja hverfandi lítið. Við verðum að gá að því, að vinnuaflið, sem við hagnýtum núna við þessi stærri fyrirtæki, Sogsvirkjunina og Laxárvirkjunina, er allt annað vinnuafl en það var fyrir 15 árum síðan. Nú er það svo miklu afkastameira, þar sem nú eru komnar til sögunnar mokstursvélar og aðrar slíkar vélar til að láta vinna með. Þannig að þótt við höfum þessi tvö stórfyrirtæki í takinu, og jafnvel þótt áburðarverksmiðjan komi líka, þá taka þessi fyrirtæki ekki til sín nema svo tiltölulega lítinn hluta af því vinnuafli, sem þjóðin nú hefur ráð á. Og við skulum muna, að það bætast til allrar hamingju við 1000 manns á hverju ári, sem þurfa vinnu. (Fjmrh.: Og svo koma 10 nýir togarar.) Já, það koma 10 nýir togarar. Það þýðir 360 menn á togarana sjálfa eða þar um kring. Ef þeir eru á saltfiskveiðum, þýðir það meiri vinnu í landi, en samt mundu vart koma til að vinna yfir 100 menn á hvern togara af þessum 10, sem samsvarar því, sem vex af nýju vinnuafli hjá þjóðinni. Okkar vinnuafl og þjóðin er orðin mjög vel búin tækjum, og við höfum ekki lofað okkar vinnuafli að hagnýta þessi tæki, heldur látum þau standa ónotuð, t.d. okkar byggingarvélar. Ef við ekki hagnýtum okkur þessi tæki, verða þau aðeins baggi á þjóðinni, baggi á okkur að láta þessar stóru, dýru vélar standa ónotaðar nema 1–2 vikur á ári. Þá er betra að vera með skófluna eins og í gamla daga og pjakka með henni allt árið, því að vextirnir af hinum stóru tækjum drepa okkur, ef við notum þau ekki. Við hljótum að krefjast þess, að hin stórvirku tæki séu hagnýtt, helzt 16 og jafnvel 24 klukkustundir á sólarhring, en þá hagnýttust þær líka um 100%, þannig að við yrðum 100% samkeppnisfærir við aðrar þjóðir í kringum okkur, vegna aukinna afkasta og lækkaðs framleiðslukostnaðar.

Hæstv. ráðh. virtist kvíða fyrir því, að þessar framkvæmdir væru svo stórar, að fyrir þeim yrðu aðrar framkvæmdir að víkja. Þessar framkvæmdir eru stórar, en unnar með svo sérstökum hætti og með svo litlu vinnuafli, að ég held það fari fjarri því, að aðrar verklegar framkvæmdir ríkisins þurfi að víkja fyrir þeim. Ég held það sé jafnvel alveg þvert á móti. Til þess að fá að fullu hagnýtt okkar vinnuafl þurfum við að auka t.d. vegagerðina, og við skulum muna það, þegar við leggjum fé til vega núna. Núna eru vélarnar orðnar það þýðingarmikill hluti af vegagerðinni, að það þarf færri verkamenn til þess að vinna við vegagerð, sem krefst sömu fjárútláta, en þurfti t.d. fyrir þremur árum síðan. Ég býst við, að þess séu dæmi, ef tekið væri svolítið lengra tímabil, að afköst verkamanns við vegagerð nú hafi sexfaldazt frá því, sem þá var. Það þýðir, að af því vegafé, sem við áætlum á fjárlögum, verður það minnkandi hluti, sem fer til verkamannsins sem einstaklings, þeim mun meira sem notuð eru hin stórvirku tæki, sem auk þess verður ódýrara fyrir ríkissjóð. Það þýðir, að raunverulega fækkum við verkamönnunum enn meir en nemur því, sem við hækkum ekki framlag til vega. Þetta er hlutur, sem við líka þurfum að athuga í þessu sambandi.

Hæstv. ráðh. talaði um það, að til þess að geta staðið undir þessum 3 stóru verklegu framkvæmdum yrðum við jafnvel að draga úr verklegum framkvæmdum ríkisins og einstaklinga, það mætti ekki leyfa einstaklingum að vinna að byggingum og öðru slíku. Þetta byggist mestallt á röngum skilningi hjá hæstv. ráðh. Hann er ekki búinn að gera sér fyllilega grein fyrir því, hve stórkostlegar breytingar hafa orðið á okkar verklegu tækni í þessum efnum og hvernig þær breytingar heimta öðruvísi pólitík við lánsfjárveitingar af hálfu þess opinbera í landinu. Hæstv. ráðh. minntist á, að ríkið mætti ekki keppa við einstaklinga. Ég held, að það sé fjarri því, að ríkið sé nokkuð nærri því, þó að það leggi í þessar virkjanir, að keppa við einstaklinga. Þrátt fyrir það að þessar virkjanir og áburðarverksmiðjan yrðu reknar með fullum krafti, þá mundi verða mjög mikið atvinnuleysi á Íslandi engu að síður. Það er langt frá því, að við hagnýtum okkur vinnuaflið. Ég held þess vegna, að við þurfum að ræða þetta mál miklu ýtarlegar, áður en við sláum því föstu, að sú hætta, sem hæstv. ráðh. talaði um í sinni ræðu, sé til staðar. Ég veit, að það, sem veldur þessu, sem fram kemur hjá hæstv. ráðh. nú, er það, að fyrir nokkrum árum síðan gat maður talað eins og hæstv. ráðh. gerði nú með nokkrum rökum, en eins og ástandíð er nú, er það ekki hægt. Sú hætta, sem ráðh. miklaði mjög fyrir sér fyrir nokkrum árum síðan og finnst enn vera yfirvofandi, er ekki til staðar. Það er komið allt annað ástand, sem heimtar líka allt aðra pólitík, — ekki lengur það, að ríkið þurfi að draga úr sínum framkvæmdum, vegna þess að einstaklingar þurfi að gera svo mikið, heldur er þvert á móti komið það vandræðaástand, að ríkið þarf að efna til verklegra framkvæmda til þess að forða því, að það séu atvinnulausir svo og svo margir af borgurum landsins. Nú veit ég, að hæstv. ráðh. mun segja í þessu efni: Ef þetta væri rétt og þetta þyrfti að gerast, hvernig á þá að fara að um öflun þeirra tekna, sem til þarf? — Ráðh. mun segja, að ekki sé ráðlegt að áætla bara tekjurnar hærri. Ég vil þá gera þá aths., að það, hvað tekjurnar eru áætlaðar háar, t.d. af verðtolli, það hlýtur að standa í beinu sambandi við, hvers konar verzlunarpólitík sú stjórn, sem á hverjum tíma ræður, ætlar sér að reka. Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að við Íslendingar getum flutt inn miklu meira af vörum, ef við fáum að flytja meira út en við gerum núna. Ég er á þeirri skoðun, af því að ráðh. minntist á markaðshrun og verðfall, að þrátt fyrir verðfall á ýmsum af okkar afurðum á ýmsum mörkuðum sé allt seljanlegt, sem við getum framleitt á Íslandi. Ég ætla ekki að fara að ræða um það hérna, því að ég hef gert það áður, en vil leggja áherzlu á, að ef við fengjum að selja allt, sem að framleiðum á Íslandi, held ég, að tekjur ríkisins af vörumagnstolli og verðtolli yrðu miklu hærri en með þeirri verzlunarpólitík, sem nú er rekin, þannig að ríkisstj. og Alþ. hafa það mjög mikið í sínum höndum með verzlunarpólitíkinni, hve miklu tekjur af vörumagns- og verðtolli og jafnvel einnig af verzlun og iðnaði nema hjá þjóðfélaginu. Það er, eins og ég gat um áðan, mjög slæmt í þessu sambandi að hafa ekki útflutnings- og innflutningsáætlun frá fjárhagsráði, því að ef hún lægi fyrir, mætti deila um hana og hve mikið væri rétt að álykta að vörumagns- og verðtollurinn gæti orðið.

En hvernig á nú að fara með þessi mál, ef þær forsendur eru fyrir hendi, að atvinnuleysi sé mikið og tilfinnanlegt í þjóðfélaginu? Þá kem ég að öðru höfuðmálinu og álít fyllilega rétt, ef ekki er annar kostur fyrir hendi, að afgr. fjárl. með greiðsluhalla. Hvað þýðir að gera það? Það þýðir, að ríkið í þessu tilfelli kemur til með að auka sínar skuldir við þjóðbankann. Hvað þýðir það, að ríkið eykur sínar skuldir hjá honum og tekur lán hjá honum til að hagnýta til fulls vinnuaflið í landinu? Það þýðir, að ríkið tekur lán hjá sjálfu sér til þess að tryggja, að öll þjóðin vinni hagnýt störf. Það er eðlilegt og sjálfsagt, ef aðrar ráðstafanir hefur ekki verið hægt að gera til þess að tryggja þjóðina gegn atvinnuleysi. Ef menn halda, að þetta sé mjög hættulegt, að afgr. fjárl. með greiðsluhalla, þá vil ég benda á tvennt: annars vegar tímabilið 1930–1940, en þá er það einn mjög veigamikill þáttur í þeirri pólitík sænsku sósíaldemókratastjórnarinnar að yfirvinna kreppuna að afgr. fjárl. með greiðsluhalla og auka skuldir ríkisins hjá þjóðbankanum til að geta þannig hagnýtt vinnuaflið. Ég vil í öðru lagi benda á yfirlýsingu enska verkamannaflokksins um það, að ef ekki sé annars kostur og atvinnuleysi, muni þeir ekki hika við að afgr. fjárl. með greiðsluhalla. Ríkið tekur í þessu tilfelli lán hjá sjálfu sér til þess að spara til að hindra eyðileggingu og koma í veg fyrir, að verkamenn gangi atvinnulausir. Ríkið er á tímum atvinnuleysis þannig að taka lán hjá sjálfu sér til þess að afstýra fátækt í þjóðfélaginu. Ég held þess vegna, að það væri mjög fjarri lagi að slá því föstu, að það ætti að vera „prinsip“ að afgreiða ekki greiðsluhallafjárlög undir neinum kringumstæðum. — Ég veit, að hæstv. ráðh. hefur, þegar hann talaði þetta, haft í huga afgreiðslu fjárlfrv. á velgengnisárunum, þegar fullt var af vörum. Þá voru fjárl. afgr. með greiðsluhalla. Hæstv. ráðherra mun hafa haft þetta í huga og álíta, að rangt hafi verið að gera það þá, og um það getum við alltaf rætt. En þó að það hafi verið rangt að gera það þá, þýðir það ekki, að rétt væri að fara nú að framkvæma lagfæringu, sem hefði verið lagfæring fyrir 4 árum síðan, en villa nú, því að ástandið er allt annað en þá. Það hefði verið heppilegt, — það er rétt, — að ríkið hefði getað sparað meðal annars með því að geta náð meiri gróða til sín, sem fór í vasa auðmannastéttarinnar, þegar allt óð uppi hjá þjóðinni. En þótt það hefði verið heppilegt á þeim tímum réttlætir það ekki að fara að taka þá pólitík upp, að svo og svo mikill hluti af alþýðunni gangi atvinnulaus og þjóðfélagið tapi þannig vinnuaflinu, bara til þess að hanga í því „prinsipi“ að afgreiða greiðsluhallalaus fjárl. — Þetta vildi ég segja vegna þess, að það kom hér fram ómótmælt, að það sé sjálfsagt að afgreiða fjárl. greiðsluhallalaus. Það er góð regla á góðum tímum og slæm regla á slæmum tímum, og ég álít slæma tíma núna.

Ég hef kannske orðið fulllangorður um þetta og ætlaði mér ekki að ræða þetta svona lengi. En ég vildi aðeins láta það koma fram, að ég held, að afgreiðslan á fjárl., eins og hún virðist með þessu móti, muni viðhalda og auka það atvinnuleysi, sem þegar er fyrir hendi; það þýðir: að gera þjóðina fátækari, eyða meiru, eyða því dýrmætasta afli, sem þjóðin á, vinnuaflinu, til einskis og láta ónotuð tækifæri, sem við höfðum til að skapa hér gagnlega hluti, sem við hefðum getað gert, ef meiru hefði verið varið til verklegra framkvæmda. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að komi fram. Þarna er stefnt í ranga átt. Afgreiðslu fjárl. þurftum við fyrst og fremst að miða við það að tryggja fulla hagnýtingu vinnuaflsins. Og auknar verklegar framkvæmdir af hálfu hins opinbera eru nauðsynlegar, þó að þær kosti nokkuð mikið, og ef ekki næst samkomulag um meiri skatta á stóreignir eða meiri hagnýtingu stórgróðans, þá verður að bjarga þessu við með því að taka lán hjá Landsbankanum. Ég veit, að menn munu segja, að það sé ekki efnilegt eins og ríkið skuldi þar nú þegar, en ríkið á allmikið fram yfir skuldir og Landsbankinn á álíka mikið í hreinum eignum eins og ríkið skuldar honum, svo að það er hreint ekki ónormalt, að Landsbankinn láni ríkinu það, sem hann á umfram skuldir, og af því skapast engin verðbólga. En ég veit, að það kann að vera harðsótt fyrir ríkið að fá þetta lán, ef það gerir ekkert annað en biðja kurteislega um það og taka síðan á móti neinu. Og það getur svo farið, að leita þurfi aðstoðar löggjafarvaldsins til að koma þessu í gegn.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, þá vil ég taka það fram, að það er enginn efi á því, að auka má tekjur ríkissjóðs án þess að hækka tolla, ef stuðlað er að blómlegra atvinnu- og viðskiptalífi, og get ég nefnt þar eitt dæmi, en það er viðtækjaverzlunin, en hana væri hægt að efla með því að kaupa viðtæki til landsins fyrir eitthvað af þeim fiski, sem hér liggur óseldur. En það tvísýnasta við afgreiðslu þessara fjárlaga er það, að þau eru öll byggð á sandi, því að sjávarútveginn, sem allt okkar atvinnulíf byggist á, skeyta fjárl. ekkert um. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki komið nærri því, sem tryggir að sjávarútvegurinn geti gengið. Og ég veit ekki, hve lengi hæstv. ríkisstj. ætlar að láta okkur sitja hér yfir afgreiðslu fjárlaga, sem byggð eru á kviksyndi, á meðan atvinnulífið er ekki á traustum grundvelli. Það er að vísu hægt að afgreiða fjárl. og senda síðan þingið heim, en sjávarútvegurinn fer ekki af stað eftir nýárið, og fjárl. eru þar af leiðandi aðeins pappírsblað. Það er sannarlega ekki að undra, þótt hv. þm. undrist slíka afgreiðslu. Það er að vísu virðingarvert af hæstv. fjmrh. og fjvn. að sjá svo til, að fjárl. væru afgreidd fyrir nýár, þar sem svo mjög hefur viljað bresta á slíkt á undanförnum árum, en hversu ánægjulegt sem þetta nú annars er, þá hefði hitt verið viðkunnanlegra, að með þeim hefði fylgt a.m.k. einhver grundvöllur, hvort sem hann hefði nú verið réttur eða rangur, sem hægt hefði verið að byggja á, en hann vantar algerlega, svo að ekki er undarlegt, þó að hv. þm. auglýsi eftir þessum grundvelli, því að hæstv. ríkisstj. hefur verið ákaflega þögul um hann. Menn höfðu búizt við einhverju slíku frá hennar hendi fyrir þessa umr., því að öllu síðar má það ekki vera, og því var ekki farið mjög geyst í að bera fram brtt. við þessa umr.

Ég er hér meðflm. að þremur brtt. á þskj. 274. Í fyrsta lagi er brtt. við 17. gr., svo hljóðandi: „Til atvinnuaukningar, gegn jafnmiklu framlagi frá bæjar- og sveitarfélögum 3500000“. Það er ekki skemmtilegt að þurfa að taka slíkt aftur inn á fjárl., en þetta var fastur liður þar á árunum 1930–1940, en var afnumið á velgengnisárunum, og menn voru vonglaðir um, að strika mætti þetta út þaðan fyrir fullt og allt, en það eru engar líkur nú til, að hægt verði að komast hjá að hafa þennan lið á fjárl. til þess að reyna að tryggja að einhverju leyti, að nokkur hluti hins ónotaða vinnuafls verði hagnýttur. Þessar 31/2 millj. kr., sem hér er lagt til að verði lagðar fram í þessu skyni, er að vísu lítil, en þó ofurlítil bót til að bæta úr sárustu neyðinni, sem sverfur að á ýmsum stöðum. Ég vil svo minna á það, að þótt þessar stóru fjárfestingaráætlanir, sem hæstv. fjmrh. hélt að mundu gleypa allt ónotað vinnuafl, taki allt ónotað vinnuafl í Reykjavík, Árnessýslu, Akureyri og Þingeyjarsýslu sem ég efast þó um að verði þá vil ég minna hæstv. fjmrh. og Framsfl. á það, að stundum er talað um dreifbýlið, og svo slæmt sem atvinnuástandið er nú í Reykjavík, þá er það margfalt verra í þorpum og kaupstöðum og meira að segja í sveitunum, þar sem vegavinna, sem bændur hafa unnið við sér til búbóta, hefur minnkað vegna afkastamikilla vinnuvéla, en framlög til slíks hafa ekki verið aukin að sama skapi og vélarnar hafa orðið stórvirkari. Ég álít því, að hæstv. fjmrh. og flokkur hans ættu ekki sízt að athuga þetta og eins aðrir þeir, er vilja sérstaklega hugsa um hag dreifbýlisins. — Þá er ætlazt til, að bæjarog sveitarsjóðir leggi fram jafnmikla upphæð á móti ríkisframlaginu.

Þá er önnur brtt. við 17. gr. 24, að við bætist nýr liður, 750 þús. kr. framlag til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis samkv. III. kafla l. nr. 44 7. maí 1946. Í samræmi við þessa brtt. flytjum við svo brtt. við 22. gr., að ríkissjóður taki að láni og láni svo bæjar- og sveitarfélögum þá upphæð, sem þau þurfa til að mæta sínum hluta af framkvæmd þessara l. í hlutfalli við framlag ríkissjóðs. Það þarf ekki að skýra þessa till. fyrir hv. þm., þeir muna eftir l. þeim, sem sett voru hér á Alþ. 1946 til að reyna að útrýma því versta og mest heilsuspillandi húsnæði, sem Íslendingar búa við. Síðar voru sett l. um það, að þessi l. kæmu ekki til framkvæmda, nema til þess væri varið fé á fjárl. Brtt. okkar fer því fram á, að varið verði ofurlítilli fjárupphæð í þessu skyni, og ég vil minna hæstv. ríkisstj. á það, að á sama tíma sem Íslendingar eru sviptir ávexti þessara laga og Íslendingum er bannað að byggja sér þak yfir höfuðið, þó að þeir hafi til þess fjármagn og vinnuafl, þá er undir handarjaðri hæstv. ríkisstj. byggður í landinu á ólöglegan hátt fjöldi góðra íbúða handa útlendum mönnum, sem án heimildar í l. eru gerðir rétthærri en Íslendingar. Ég á hér við hinar ólöglegu íbúðir, sem byggðar hafa verið á Keflavíkurflugvellinum. — Ég held því, að þessar till., sem ekki eru mjög stórvægilegar, en miða að hagnýtingu vinnuafls á hagnýtan hátt, eigi mikinn rétt á sér, bæði vegna þeirrar atvinnu, sem af þeim skapast, ef þær ná fram að ganga, og eins vegna húsnæðis þess, sem þa~r gera ráð fyrir að komið sé upp. Ég læt svo útrætt um þetta mál, en vænti, að háttv. þm. geti fylgt þessum till. við þessa 2. umr. fjárl.