05.12.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

1. mál, fjárlög 1951

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram nokkrar brtt. á þskj. 274 við fjárlfrv. og brtt. hv. fjvn. Er hin fyrsta þeirra undir tölulið I, við 13. gr., Skógarstrandarveg í Dalasýslu. — Aftan við liðinn bætist: Unnið verði fyrir framlagið á utanverðri Skógarströnd. — Svo er mál með vexti, að í fjárl. yfirstandandi árs var tekin upp sú nýbreytni, að af 80 þús. kr. fjárveitingu til Skógarstrandarvegar var ákveðið að unnið skyldi fyrir 30 þús. kr. í Hörðudal. Mæltist þetta mjög illa fyrir meðal bænda á Skógarströnd utanverðri, sem eiga við mikla örðugleika að stríða vegna einangrunar. Á þskj. 252, sem er brtt. meiri hl. fjvn. við frv., eru enn gerðar till. um, að unnið verði á næsta ári fyrir 35 þús. kr. í Skógarstrandarvegi í Dalasýslu. Nú vil ég á engan hátt standa í vegi fyrir vegagerð í Dalasýslu. En þegar um það er að ræða að leysa vandræði bænda á Skógarströnd, þá ríður mest á, að unnið sé fyrir framlagið á utanverðri Skógarströnd, svo að hún geti komizt sem fyrst í vegasamband við Stykkishólm. Því hef ég leyft mér að flytja um þetta þá brtt., er ég hef frá skýrt. Hér er um sanngirnismál að ræða, sem ég vona að menn geti fallizt á.

Þá flyt ég í öðru lagi brtt., sem er III. tölul. á sama þskj. — Fyrir 500 þús. kr. til Rifshafnar á Snæfellsnesi komi 700 þús. Á 13. gr. fjárlfrv. er tekið fram, að varið skuli 700 þús. kr. til Rifshafnar, þó að hv. fjvn. hafi gert till. um 500 þús.; og í þeirri von, að meiri hluti þings fáist fyrir því, þá hef ég leyft mér að bera fram þessa brtt. við till. n., að í stað 500 þús. komi 700 þús. — Hv. fjvn. sýndi Snæfellsnessýslu þann heiður að takast þangað ferð á hendur á s.l. vori til þess að skoða hafnarstæðið við Rifsós. Ég átti þess kost að taka þátt í þeirri för, og mér var það gleðiefni, að nm. virtust á einu máli um það, að hafnarskilyrði væru þarna ein hin beztu, er þeir hefðu séð, og væri þarna tilvalinn staður fyrir landshöfn. Vitamálastjóri var einnig með í þessari ferð, og lýsti hann yfir því áliti sínu, að nauðsynlegt væri að gera sem fyrst örugga höfn á þessum ágæta stað, enda er það aðkallandi hagsmunamál fyrir nærliggjandi byggðarlög, svo slæm sem hafnarskilyrði eru t.d. á Sandi. — Vegna alls þessa varð ég dálítið vonsvikinn, þegar ég sá, að hv. fjvn. hafði lagt til, að lækkað væri það tillag, sem fjmrh. hafði gert ráð fyrir.

Þá er 3. brtt. mín á þskj. 274, V. töluliður, á þá lund, að framlag til amtsbókasafnsins í Stykkishólmi verði hækkað úr 4500 kr. í frv. í 13 þús. kr. Ég hef reynt að sýna hv. fjvn. fram á það, að sanngjarnt mætti teljast að hækka þetta svo til samræmis við slíka fjárveitingu til þriggja annarra bókasafna. Rétt til útlána úr þessu safni eiga alls fjórar sýslur, en því er þó að mestu haldið uppi með framlögum aðeins tveggja sýslna af fjórum, sem rétt eiga til útlánanna. Það mælir því öll sanngirni með því, að framlag ríkisins til safnsins sé hækkað svo sem ráð er fyrir gert í till. minni.

Þá hef ég í fjórða lagi gert till. um það á sama þskj., undir tölulið VIII, að í stað 150 þús. króna framlags á 17. gr. til vatnsveitna komi 200 þús. kr., eins og veitt var til þeirra á yfirstandandi ári. Sé ég ekki ástæðu til, að það sé lækkað, þar sem mér er kunnugt um, að aldrei hefur verið meiri þörf en verða mun á næsta ári fyrir stuðning ríkisins við ýmis hreppsfélög vegna þessara mjög kostnaðarsömu mannvirkja. Ég vil því eindregið mælast til, að þetta framlag verði hækkað, svo að það verði ekki minna en á þessu ári.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um till. mínar, en leyfi mér að vænta þess, að hv. Alþ. ljái þeim liðsinni.